01. tbl. 97. árg. 2011

Fræðigrein

Wernicke-sjúkdómur meðal áfengissjúkra

Wernickes encephalopathy in chronic alcoholics

doi: 10.17992/lbl.2011.01.338


Ágrip

Wernicke-sjúkdómur hlýst af skorti á þíamíni (B1 vítamíni) og er algengastur hjá einstaklingum með langvinna áfengissýki og vannæringu. Algengustu einkenni eru breytingar á hugarástandi, truflun á augnhreyfingum og stöðu- og göngulagstruflun. Sjúkdómurinn virðist mjög vangreindur en töf á réttri meðferð getur leitt til dauða eða Korsakoff-minnistruflunar. Einstaklingum með líklegan Wernicke skal tafarlaust gefið þíamín í stórum skömmtum. Ekki skal bíða staðfestingar á greiningu áður en meðferð er hafin. Magnesíumskort ætti að leiðrétta samhliða. Áfengissjúkum einstaklingum sem eru í hættu á að fá sjúkdóminn skal ávallt gefa fyrirbyggjandi meðferð þíamíns í vöðva eða æð við innlögn á sjúkrahús.

Inngangur

Wernicke-sjúkdómur (Wernicke‘sencephalopathy) stafar af skorti á þíamíni (B1-vítamín). Sjúkdómurinn sést við næringarskort af ýmsum ástæðum og er algengastur hjá einstaklingum með langvinna áfengissýki. Hann er vangreindur, helstu einkenni eru bráð og hann getur valdið varanlegum minnistruflunum eða dauða ef fullnægjandi meðferð er ekki beitt tímanlega. Þíamínskortur getur einnig valdið hrörnun á hnykli (cerebellum) og úttaugameini (peripheral neuropathy).1

Wernicke var fyrst lýst árið 1881 af þýska lækninum Carl Wernicke (1848-1905), sem bráðum veikindum tveggja áfengissjúkra karlmanna og ungrar konu með langvarandi uppköst eftir að hafa drukkið brennisteinssýru í þeim tilgangi að stytta sér aldur. Einkennin voru brátt ruglástand, skert meðvitund, augnvöðvalömun, augnatin (nystagmus) og óstöðugt göngulag. Sjúklingarnir dóu eftir skammvinn veikindi. Við krufningu sáust punktblæðingar umhverfis þriðja og fjórða heilahólf ásamt smugu (aqueductus mesencephali). Wernicke nefndi sjúkdóminn „acute superior hemorrhagic polioencephalitis“.2, 3 Á árunum 1887-1889 lýsti rússneski læknirinn Sergei S. Korsakoff (1853-1900) svipuðum sjúkdómi í stærri hópi sjúklinga með brátt ruglástand og úttaugamein. Þeir sem lifðu af fengu langvarandi truflun á skammtímaminni og varð illmögulegt að leggja nýja atburði á minnið. Sjúkdóminn nefndi hann „polyneuritic psycosis“.4 Á fyrri hluta 20. aldar varð almennt viðurkennt að þíamínskortur orsakaði bráðan Wernicke og að Korsakoff-minnistruflun (Korsakoff amnestic syndrome) væri langvinnur skaði af hans völdum. Allur sjúkdómsferillinn kallast Wernicke-Korsakoff-heilkenni, komi einkenni Korsakoff fram eftir bráð veikindi Wernicke.1

Faraldsfræði

Upplýsingar um tíðni Wernicke byggjast einkum á krufningum. Lífsalgengi (lifetime prevalence) hans á Vesturlöndum er líklegast í kringum 1,0% (0,4-2,8% í mismunandi rannsóknum).1, 5-9 Oftast er skýr saga um vannæringu og 77-90% sjúklinganna hafa lengi verið með áfengissýki.6, 10 Við heilakrufningu hafa merki um Wernicke fundist hjá 8,9-12,5% einstaklinga með langvinna áfengissýki.5, 11 Sjúkdómurinn sést einnig við vannæringu óháð áfengissýki, svo sem langvarandi svelti,12 mikil uppköst á meðgöngu13, 14 og í kjölfar megrunarskurðaðgerða eða annarra aðgerða á meltingarvegi.15 Gjöf glúkósa16 eða langvarandi næringargjöf í æð17 án fullnægjandi þíamíngjafar getur einnig valdið Wernicke. Hann hefur greinst hjá sjúklingum í blóð- og kviðskilun,18, 19 hjá sjúklingum með ýmis krabbamein eða eftir beinmergsskipti20-22 og á meðal alnæmissjúkra.23, 24

Meinalífeðlisfræði

Þíamín er vatnsleysanlegt vítamín, frásogast í smágirni og finnst í margs konar fæðu. Dagsþörf fullorðinna er um 1 mg og heildarbirgðir líkamans eru 25-30 mg. Alvarlegur skortur verður á þremur vikum ef neysla þíamíns stöðvast.25 Þíamíntvífosfat (TDP) er hið virka form þíamíns innan frumna og er það nauðsynlegur hjálparþáttur (cofactor) transketólasa (TK), pýrúvat dehýdrógenasa (PDH) og a-ketóglútarat dehýdrógenasa (a-KGDH) sem eru lykilensím í glúkósa- og amínósýruefnaskiptum líkamans. Þíamínþörfin eykst við aukinn hraða efnaskipta, til dæmis við sýkingar.25

Hjá áfengissjúkum er lægra hlutfall þíamíns á virku formi (TDP) og minni aukning TDP verður við þíamíngjöf. Því þurfa áfengissjúkir stærri skammt af þíamíni en aðrir til þess að sýna sömu svörun við gjöf þess.26 Auk þess er magnesíum nauðsynlegur hjálparþáttur við myndun TDP og magnesíumskortur, sem er algengur hjá áfengissjúkum, virðist auka skaða á taugakerfi við þíamínskort.27-30* Svörun við þíamíngjöf getur verið verri ef magnesíumskortur er einnig til staðar.31-33 Því getur verið nauðsynlegt að leiðrétta magnesíumskort samfara þíamíngjöf hjá sjúklingum með Wernicke.

Það eru margar ástæður fyrir hærri tíðni Wernicke við langvinna áfengissýki. Næringarskortur með minnkaðri inntöku þíamíns, uppköst eða niðurgangur eru algeng í langvinnri áfengissýki.34 Við vannæringu skerðist geta meltingarvegar til að frásoga tiltekinn skammt þíamíns. Það lagast fyrst að fullu eftir sex til átta vikur á næringarríku fæði.35-37 Stór hluti þíamínbirgða líkamans eru í lifrinni og geymslugeta hennar skerðist við lifrarsjúkdóma.34, 37, 38 Áfengisfráhvarf, tituróráð (delerium tremens) og sýkingar auka efnaskiptahraða og þörf fyrir þíamín.1, 25 Myndun starfhæfra ensíma (TK, PDH og a-KGDH) er tregari í áfengissjúkum vegna verri nýtingar þíamíns (lægra hlutfall er á virku formi (TDP) og magnesíumskortur er algengur). Langvarandi áfengisdrykkja veldur fjölgun (upregulation) á NMDA-viðtökum sem virðist auka taugaskaða við þíamínskort fyrir tilstilli NMDA-viðtaka miðlaðs frumuskaða.28, 29, 39

*Þegar þíamín er flutt inn í frumur líkamans myndast TDP fyrir tilstilli þíamín pýrófosfókínasa. Magnesíum er nauðsynlegur hjálparþáttur ensímsins og virkni þess tengist styrk magnesíums. Auk þess þarf bæði TDP og magnesíum til að mynda starfhæf heildarensím (holoenzyme) TK, PDH og a-KGDH, því þau eru öll samsett úr ensímkjörnum (apoenzyme) sínum ásamt TDP og magnesíum. Magnesíumskortur getur valdið minnkaðri bindingu TDP við ensímkjarnana og dregið úr virkni ensímanna. Þess má geta að aukinn styrkur magnesíum dregur úr NMDA-viðtaka miðluðum frumudauða í dýratilraunum og mikill skortur eykur hann.

Meinavefjabreytingar í heila

Vefjabreytingum við Wernicke má skipta í bráðar breytingar og langvarandi eða varanlegar breytingar.

Bráðar breytingar sjást fyrst og fremst í vörtukjörnum (corpora mammillaria), umhverfis þriðja og fjórða heilahólf og smugu. Þær eru mest einkennandi og sjúkdómsgreinandi fyrir Wernicke.1, 10 Smáblæðingar í vörtukjörnum (10%) eða umhverfis þriðja heilahólf geta sést með berum augum en útlit heilans er eðlilegt í um 30% tilfella (mynd 1a-1c).1, 10 Smásjárskoðun er nauðsynleg til sjúkdómsgreiningar og sýnir nær undantekningarlaust vefjabreytingar í vörtukjörnum og langoftast víðar í undirstúku (hypo-thalamus), stúku (thalamus), einkum í bak- og miðlægum kjörnum (nuclei dorsomediales), umhverfis smugu (periaqueductal gray matter) í augnhreyfikjörnum (nuclei nn. oculomotorii), bak-lægum kjarna skreyjutaugar (nucleus dorsalis n. vagi), í andarkjörnum (nuclei vestibulares), í kjarna fráfærandataugar (nucleus nervi abducentis) og víðar.1, 10, 40 Smásæju breytingarnar á bráðastiginu taka fyrst og fremst til æða og taugalóar (neuropil). Eru þær óeðlilega áberandi háræðar vegna stækkunar þelfrumna (endothelial cells) og hugsanlega háræðanýmyndunar, bjúgs, blóðkornaleka og smáblæðinga umhverfis þær. Stjarnfrumuviðbrögð (astrocytic reaction) verða fljótlega áberandi og skemmd á mýli og taugasímum (axons) en fækkun taugafrumna er oft ekki áberandi í vörtukjörnum (mynd 1d-1f).1-3, 7, 10, 41

Varanlegar (langvarandi) breytingar einkennast af eyðingu taugavefjar á fyrrnefndum svæðum og taugatróðsmyndun (gliosis) í hans stað. Með berum augum geta sést rýrir vörtukjarnar og víkkuð þriðja og fjórða heilahólf og smuga. Við smásjárskoðun sést fjölgun stjarnfrumna, eyðing á taugavef og útbreidd taugatróðsmyndun í vefnum. Hins vegar hefur þel háræða eðlilegt útlit og ekki sjást ferskar blæðingar í utanæðabili.1, 10, 40, 41 Varanlegu breytingarnar hafa takmarkaðri útbreiðslu en þær bráðu og eru oftast bundnar við vörtukjarna og bak- og miðlæga kjarna stúku.42

Hjá einstaklingum með meinavefjabreytingar Wernicke í heila er jafnframt algengt að finna hrörnun í fremri og efri hluta hnykilorms (vermis cerebelli). Slík hrörnun sést hjá rúmlega þriðjungi tilfella með berum augum og nær helmingi við smásjárskoðun (mynd 2).1, 10

Sjúkdómseinkenni

Klínísk einkenni Wernicke (tafla I) koma fram með bráðum hætti eða á örfáum dögum. Megineinkennin eru: 1) breytingar á hugarástandi (mental status) eða ruglástand, 2) truflun á augnhreyfingum, 3) óstöðugt göngulag eða stöðu- og göngulagstruflun (stance and gait ataxia). Vanalega sjást eitt eða tvö af megineinkennum við skoðun og öll þrjú sjást aðeins hjá þriðjungi sjúklinga.1

Breyting á hugarástandi: Algengast er almennt ruglástand með þreytu og sinnuleysi, oft án áberandi óróleika. Athygli, einbeiting og minni eru skert. Í alvarlegri tilfellum getur sést tituróráð, meðvitundarskerðing eða meðvitundarleysi.1

Truflun á augnhreyfingum: Lárétt augnatin (horizontal nystagmus) er algengast og margir eru líka með lóðrétt augnatin (vertical nystagmus). Oft sést veiklun á hliðlæga réttivöðva augnhnattar (m. rectus lateralis bulbi oculi) eða ósamhæfð augnstaða (dysconjugate gaze). ∆Önnur sjaldgæfari augneinkenni geta sést: Misvíð sjáöldur, minnkuð ljóssvörun, blæðingar í sjónhimnu, sig á efra augnloki (ptosis), sjónsviðsskerðing eða bjúgur í sjóntaug (optic disc).1 Í alvarlegum veikindum getur sést algjör lömun augnhreyfinga og ekki er hægt að framkalla augnhreyfingar með því að snúa höfðinu (doll‘s eyes) eða með því að dæla ísvatni í eyru. Þá getur sést lækkaður líkamshiti og lágþrýstingur.43

Óstöðugt göngulag sést hjá langflestum í mismiklum mæli. Slíkt getur verið allt frá vægu óöryggi við gang með erfiðleikum við að ganga eftir beinni línu (tandem, heel-to-toe walking) til göngulags sem er breiðspora og mjög óöruggt. Í alvarlegustu tilfellum getur sjúklingur hvorki setið uppi, staðið né gengið þrátt fyrir mikla hjálp.1

Í bráðum veikindum getur sést stjórnleysi eða óregluhreyfingar (ataxia) á útlimum, oftast við hæl-hné próf. Sjaldnast er sjúklingur þvoglumæltur (ataxic speech).1 Jafnvægisleysi við að sitja, standa og ganga í bráðum Wernicke er talið vera vegna alvarlegrar vanstarfsemi í andarkjörnum. Tvær rannsóknir hafa sýnt að slík vanstarfsemi í þeim er nær undantekningarlaust til staðar í Wernicke. Slíkt má staðfesta með því að sprauta ísvatni í hlustir eða með svipuðum prófum á  „vestibulo-ocular“ svörun. Í Wernicke sést skert eða engin svörun þegar ísvatni er sprautað í hlustir. Í kjölfar þíamínmeðferðar líða allt að tveir mánuðir þar til svörunin verður eðlileg að nýju.44, 45 Hins vegar er talið að langvinn göngulagstruflun sem getur sést eftir að bráðum Wernicke lýkur (og er oft einnig til staðar hjá áfengissjúkum án fyrri Wernicke) orsakist af hrörnun í hnykilormi (sé því ekki tengd starfsemi andarkjarna).1

Fjöltaugamein (polyneuropathy) finnst hjá 60-82% einstaklinga með Wernicke og getur sést í neðri útlimum (57%) eða bæði neðri og efri útlimum (25%).1, 46 Brátt fjöltaugamein er algengur undan-fari sjúkdómsins.4, 47 Korsakoff lýsti því þannig að hjá meirihluta sjúklinganna hefðu veikindin hafist með fjöltaugameini („psychosis polyneuritica“).4 Úttaugameinið einkennist af minnkuðum eða horfnum sinaviðbrögðum, minnk-uðu skyni og vöðvakrafti eða verkjum. Skyntruflanir og máttleysi byrjar í tám, skríður upp fætur og síðan frá fingrum upp hendur.1

Taugamein í sjálfráða taugakerfinu er sjaldgæfara við Wernicke. Það getur komið fram í semjuhluta (sympathetic) sjálfráða taugakerfisins með stöðubundnum lágþrýstingi eða hjásemjuhluta (parasympathetic) þess með þvagtregðu. Einnig geta breytingar í skreyjutauginni (n. vagus) valdið kyngingarerfiðleikum eða raddbreytingu en þá verður röddin veik eða hás.48

Sjaldgæfari einkenni og teikn: Lágur líkamshiti sést sjaldan (1-4%) og er talinn stafa af skemmd í afturhluta undirstúku.1, 10, 49 Lágþrýstingur sést hjá 2% tilfella. Sjaldgæft er að sjá andlits-, mænukylfulömun (bulbar paralysis)1 eða lömun í útlimum með auknum sinaviðbrögðum og Babinski-svörun.50

Skaði í kjölfar Wernicke-sjúkdóms

Ef einstaklingur með bráðan Wernicke fær ekki þíamín með fæðu eða öðru móti deyr hann. Jafnvel þó hann sé meðhöndlaður er algengt að hann nái sér ekki að fullu.1 Korsakoff-minnistruflun getur orðið í kjölfar bráðs Wernicke. Þá man einstaklingurinn ekki atburði sem gerðust á tilteknu tímabili fyrir veikindin (afturvirk minnistruflun) né það sem gerist eftir þau (framvirk minnistruflun). Sjúklingar með Korsakoff-minnistruflun eru með skert minni (episodic memory) og geta illa eða ekki lært eða munað nýja hluti eða atburði í kjölfar bráðra veikinda. Þeir hafa lítið innsæi í fötlun sína og eru frumkvæðisminni og jafnvel skeytingarlausir um nánasta umhverfi sitt.1, 4 Í stærstu rannsókninni til þessa á bráðameðferð og skaða Wernicke var sjúklingum gefinn mun minni skammtur af þíamíni (50-100 mg daglega) en nýlega hefur verið ráðlagt (600-1500 mg daglega). Horfur voru mjög slæmar því 24% sjúklinga létust og 81% þeirra sem lifðu af fengu Korsakoff-minnistruflun.1 Á fyrstu mánuðunum varð einhver bati á minnistrufluninni hjá flestum. Hann gat verið fullkominn (21%), umtalsverður (25%), vægur (28%) eða enginn (26%).1 Flestir fengu langvarandi göngulagstruflun (62%) í kjölfar bráðs Wernicke. Einkenndist hún af hægu, breiðspora göngulagi eða skertri getu til að ganga línugang.1 Í kjölfar þíamíngjafar gengu augnvöðvalamanir hins vegar mjög hratt til baka, oftast sást bati innan nokkurra klukkustunda. Augnatin var lengur að lagast og í 60% tilfella hvarf það aldrei að fullu.1

Greining

Bráður Wernicke-sjúkdómur er mjög vangreindur. Rannsókn sýndi að einungis 20% tilfella greindust klínískt fyrir andlátið, jafnvel þótt flestir hafi verið skoðaðir af lækni á sjúkrahúsi skömmu áður.51 Í klínískum rannsóknum er einungis þriðjungur sjúklinga með öll þrjú meginteikn til staðar1 og í afturskyggnum rannsóknum á meinafræðilega greindum tilfellum eru einungis 16% tilfella með öll þrjú meginteiknin skráð í sjúkraskýrslu.51 Hugsanlega er taugaskoðun áfengissjúkra með Wernicke ábótavant. Þannig greina sjúkraskýrslur oftast frá breyttu hugarástandi en sjaldnar frá einkennum sem krefjast taugaskoðunar, eins og truflun á augnhreyfingum, óregluhreyfingum eða göngulagstruflunum.5, 6, 11, 51

Nauðsynlegt er fyrir lækna að þekkja vel einkenni sjúkdómsins og hugleiða greininguna hjá áfengissjúkum sem eru í bráðu ruglástandi eða með göngulagstruflun, taugaskoða sjúklinga til að greina sértækari einkenni og hafa í huga að einungis minnihluti sjúklinga með Wernicke er með öll þrjú meginteikn sjúkdómsins við skoðun. Einnig er mikilvægt að hafa hugfast að mörg einkennanna geta líkst ölvunaráhrifum áfengis eða lyfja, áhrifum sýkingar, brenglunar á blóðsöltum og svo framvegis.

Taugaskoðun og mat: Leggja þarf mat á hugarástand sjúklings: vökustig, áttun og hvort til staðar sé ruglástand. Einnig þarf að athuga hvort til staðar sé augnvöðvalömun eða augnatin og hvort sjúklingurinn getur setið uppi í rúmi, staðið og gengið eðlilega án hjálpar, þar með talið línugang. Eftir skoðun er rétt að velja rannsóknir á sjúklingi með líklegar mismunagreiningar og fylgikvilla í huga. Þannig á við minnsta tilefni á að fá bráða tölvusneiðmynd af heila og segulómrannsókn með skuggaefni ætti að taka brátt eða fljótlega. Einnig ætti að mæla magnesíumstyrk í sermi.

Greining líklegs Wernicke: Gagnlegar leiðbeiningar um greiningu og meðhöndlun á slysa- og bráðamóttökum voru gefnar út árið 2001 af Bresku læknasamtökunum (Royal College of Physicians).52 Mikilvæg viðbót við þær leiðbeiningar eru ráðleggingar frá Thomson og Marshall um meðferð sjúklinga utan sjúkrahúsa sem eru í hættu á að fá Wernicke.53 Samkvæmt þeim þarf einstaklingur einungis að vera með líklegan Wernicke eða vera talinn vera með sjúkdóminn til að fá tafarlausa meðhöndlun með stórum skömmtum af þíamíni. Einstaklingar sem eru með vísbendingar um langvinna áfengissýki eru líklega með sjúkdóminn ef til staðar er eitthvert eftirtalinna einkenna sem ekki er hægt að skýra með öðru móti: Brátt ruglástand (ekki vegna ölvunar), tituróráð, minnistruflun, skert meðvitund, augnvöðvalömun eða augnatin, stjórnleysi (ekki vegna ölvunar) eða óútskýrð lækkun á líkamshita ásamt lækkuðum blóðþrýstingi (tafla II).52, 53 Þess má geta að stjórnleysi sjúklings með Wernicke einkennist af óstöðugleika eða óregluhreyfingum sjúklings er hann situr uppi, stendur eða gengur. Það er talið orsakast af bráðri vanstarfsemi beggja vegna í andarkjörnum, oft með litlum eða engum óregluhreyfingum í útlimum við hæl-hné eða fingur-nef próf.1

Greiningarskilmerki fyrir Wernicke og Korsakoff hjá áfengissjúklingum birtust 1997 (tafla III). Markmið þeirra var að auka næmi klínískrar greiningar. Þau byggja á að tvö af fjórum skilmerkjum séu til staðar: 1) næringarskortur, 2) augnhreyfitruflun (eye signs), 3) klínísk truflun í starfsemi hnykils (cerebellar signs), 4) breyting á hugarástandi eða væg minniskerðing. Korsakoff-minnistruflun er greind ef sjúklingur uppfyllir greiningarskilmerki fyrir Wernicke og er auk þess með minnisleysi og óáttun án bráðs rugls.  Sjúklingur hefur þá eðlilega skynjun og meðvitund og minnistruflun lagast ekki við meðferð þíamíns. Greiningarskilmerkin voru sannreynd með afturskyggnri rannsókn á 106 látnum áfengissjúklingum. Sjúkraskýrslur voru skoðaðar og bornar saman við niðurstöður krufninga. Næmið reyndist 85% og sértæki 100% fyrir greiningu Wernicke og fyrir greiningu Korsakoff var næmið 88%. Hins vegar reyndist það aðeins 50% við greiningu Wernicke ef einnig var til staðar lifrarheilakvilli. Líkleg skýring er að það er mikil skörun á klínískum einkennum milli sjúklinga með heilakvilla vegna lifrarsjúkdóms og Wernicke.54 Greiningarskilmerkin hafa ekki verið sannreynd á framsæjan hátt og líklegt er að þau séu mjög ósértæk við greiningu bráðs Wernicke frá öðrum ástæðum heilakvilla (encephalopathy) meðal áfengissjúkra, sérstaklega hjá þeim sem eru með langvinnan skaða í formi göngulagstruflunar eða augnatins eftir fyrri veikindi af sjúkdómnum. Hins vegar er ótvíræður kostur þeirra fólginn í því að flestir sem þurfa á meðferð að halda fá hana og hljóta því síður alvarlegan miðtaugakerfisskaða. Vafalaust fá margir ónauðsynlega stóran skammt af þíamíni án þess að vera með Wernicke en meðferðin er ódýr og hefur afar sjaldan alvarlegar aukaverkanir.

Mæling á þíamínskorti: Hægt er að sýna fram á þíamínskort með mælingu á virkni transketólasa (TK) í rauðkornarofnu (hemolysed) blóði. Við þíamínskort er virkni TK verulega minnkuð og eykst óeðlilega mikið (>25%) þegar ofgnótt af TDP er bætt út í heilblóðið (aukin TDP áhrif).55, 56 Einnig er hægt að mæla styrk þíamíns, þíamínfosfats og TDP í blóði eða rauðum blóðkornum á beinan hátt með litskiljunaraðferð (chromatography).57 Þessar mælingar hafa þó takmarkað gildi við greiningu og eru ekki framkvæmdar á Íslandi.

Segulómrannsókn af heila: Greining Wernicke er klínísk og byggir á dæmigerðri sögu, skoðun og svörun við þíamíngjöf ásamt einkennandi sjúkdómsgangi. Segulómun er mjög mikilvæg við greininguna, einkum ef erfitt er að koma við fullnægjandi taugaskoðun eða ef sjúkdómsmyndin er ódæmigerð. Segulómun getur einnig sýnt aðrar ástæður sem skýra einkenni sjúklings.

Dæmigerðar segulómbreytingar í bráðum Wernicke eru samhverfar segulskinsbreytingar (aukning í segulskini á T2 og minnkað segulskin á T1) umhverfis þriðja heilahólfið, í vörtukjörnum, miðlægum stúkum og umhverfis smugu (sömu staðir og taugameinafræðilegar skemmdir).50, 58, 59 Breytingar á fyrrgreindum svæðum geta einnig sést á FLAIR myndröðum eða diffusion myndröðum (Diffusion-weighted imaging)  (mynd 3 og mynd 4).59, 60 Skuggaefnisupphleðsla sést í 63-67% tilfella sem eru með breytingar sem benda til Wernicke. Hún er oftast bundin vörtukjörnum og er stundum eina sjáanlega breytingin við segulómrannsókn.50, 59 Tvær rannsóknir á notkun segulómunar við greiningu bráðs Wernicke hafa lýst næmi sem er 53-58% og sértæki 93%.61, 62 Þannig er algengt að seglómun sé eðlileg við bráðan Wernicke og því útilokar eðlileg segulómun ekki sjúkdóminn.

Þegar frá líður (vikur til mánuðir) sýnir segulómun oft hrörnunarbreytingar í heila í kjölfar sjúkdómsins (minnkun á vörtukjörnum, stækkun á þriðja heilahólfi, víkkun á smugu og  jafnvel hrörnun á hnykilormi) (mynd 5).63 Tilkoma slíkra breytinga á segulómun í kjölfar bráðra veikinda styður sterklega eða staðfestir klíníska greiningu.64-68 *

Staðfesting á líklegum Wernicke: Svörun við þíamíngjöf, sjúkdómsþróun og mögulegur skaði í kjölfar bráðra veikinda eru mjög einkennandi eða sértæk við sjúkdóminn og slíka klíníska þætti má nota ásamt mögulegum breytingum á segulómun til að staðfesta greiningu líklegs Wernicke (tafla IV).

*Til að meta minnkun á vörtukjörnum er hægt að mæla rúmmál þeirra á segulómmyndum. Það er áætlað samkvæmt jöfnunni: V 4 (a2b) þar sem a er stysti og b lengsti radíus vörtukjarna. Eðlileg samanlögð stærð vörtukjarna hjá fullorðnum er 63,5 ± 17,6 mm³  en í kjölfar WS verður langoftast umtalsverð minnkun á þeim eða: 24,3 ± 11,1 mm³, 21,3 ± 5,8 mm³ og 20,7 ± 14,8 mm³, samkvæmt þremur rannsóknum. Hins vegar er ekki marktæk minnkun við krufningu á vörtukjörnum hjá einstaklingum með langvinna áfengissýki sem ekki hafa fengið Wernicke. Að lokum eru vörtukjarnar minni en 23 mm³ hjá 64,5% einstaklinga í kjölfar Wernicke, 2,3% áfengissjúkra án Wernicke og einungis 1,2% viðmiða.

Mismunagreiningar

Ölvunaráhrif áfengis og lyfja geta valdið öllum megineinkennum sjúkdómsins. Auk þess geta aðrir sjúkdómar líkst honum, bæði klínískt og við myndgreiningu og eru þessir helstir: 1) Drep í miðlægum hluta stúku beggja vegna (bilateral paramedian thalamic infarct) líkist klínískt bráðum Wernicke,69-71 2) Drep í fremri hluta stúku eða í vörtustúkubraut (tractus mammillothalamicus) getur líkst klínískt Korsakoff,69, 72, 73 3) Heilabólga af völdum cýtómegalóveiru (CMV) getur valdið sömu sjúkdómseinkennum og breytingum við myndgreiningu og Wernicke og er þekkt í alnæmi,74, 75 4) Afmýlandi sjúkdómar, Behçets- sjúkdómur í miðtaugakerfi og heilabólga vegna herpes simplex veiru (HSV) þarf að hafa í huga  í mismunagreiningu, 5) Heilakvilla vegna lifrarsjúkdóms (hepatic encephalopathy) getur verið mjög erfitt að greina klínískt frá bráðum Wernicke.54 Slíkt er sérlega erfitt hjá áfengissjúkum sem hafa áður fengið sjúkdóminn eða áfengistengda hrörnun í hnykli (alcoholic cerebellar degeneration) og hafa ætíð óstöðugt göngulag eða augnatin.

Bráðameðferð við líklegum Wernicke

Meðhöndla á alla áfengissjúka einstaklinga sem eru líklega með bráðan Wernicke. Þannig á að meðhöndla alla sem eru taldir hafa bráðan Wernicke (tafla II og III), hafa alvarlegan höfuðáverka eða aðrar ástæður sem torvelda taugaskoðun þannig að ekki er hægt að útiloka Wernicke með vissu.52 Einnig ættu læknar að vera vakandi fyrir sjúkdómnum hjá áfengissjúklingum með heilakvilla vegna lifrarsjúkdóms, jafnvel að meðhöndla þá með þíamíni og meta klíníska svörun.54 Aldrei ætti að gefa þíamín um munn sem meðferð við Wernicke eða sem fyrirbyggjandi meðferð því frásog þíamíns úr meltingarvegi er lítið og óáreiðanlegt hjá áfengissjúkum. Einungis á að gefa meðferð í bláæð eða vöðva.36, 52, 76

Ráðlögð meðferð þíamíns: Ekki eru til samanburðarrannsóknir eða aðrar áreiðanlegar rannsóknir sem ákvarðað hafa besta skammt þíamíns við Wernicke til að lágmarka skaða.77 Nýlegar leiðbeiningar varðandi viðeigandi skammt þíamíns byggja á nokkrum þáttum sem allir styðja mun stærri skammt af þíamíni en áður tíðkaðist að gefa: 1) þekkingu á slæmum horfum sjúklinga við gjöf minni skammta af þíamíni (50-100 mg daglega) sem áður tíðkuðust, 2) betri þekkingu á lyfjahvörfum þíamíns í einstaklingum með þíamínskort, 3) mismun í lyfjahvörfum þíamíns milli áfengissjúkra og annarra, 4) birtum tilfellum og klínískri reynslu (einnig okkar reynslu af íslenskum tilfellum sem stendur til að birta) sem benda til minni eftirkasta við notkun stærri skammta af þíamíni og 5) lágri tíðni alvarlegra aukaverkana við þíamínmeðferð en bráðaofnæmi er afar fátíð aukaverkun við gjöf þíamíns í vöðva eða bláæð.35, 39, 52, 78-81

Nýlega hafa verið birtar tvennar leiðbeiningar um meðferð þíamíns við Wernicke. Í öðrum þeirra er ráðlagt að gefa þíamín hýdróklóríð 500 mg þrisvar á dag í þrjá daga í bláæð. Ef jákvæð svörun sést er skammtur minnkaður í 500 mg einu sinni á dag í fimm daga til viðbótar, gefið í bláæð eða vöðva. Ef engin svörun sést er frekari meðferð stöðvuð eftir fyrstu þrjá dagana og annarra skýringa leitað á einkennum sjúklings.52 Í hinum er ráðlagt að gefa þíamínhýdróklóríð 200 mg þrisvar á dag í bláæð þar til einkenni eru horfin.82 Hægt er að gefa þíamín óblandað hægt í bláæð80, 81 en báðar leiðbeiningar ráðleggja blöndun þíamíns við 100 ml af venjulegri saltvatnslausn eða 5% glúkósalausn sem síðan er gefin sem dreypi í bláæð á 30 mínútum.

Leiðrétting á magnesíumskorti með magnesíumsúlfatdreypi í bláæð virðist skynsamlegt við bráðum Wernicke. Magnesíumskortur virðist auka skaða á taugakerfi við þíamínskort27-30 og svörun við þíamíngjöf getur verið verri ef verulegur magnesíumskortur er einnig til staðar.31-33 Frekari rannsóknir á hlutverki magnesíumskorts í Wernicke og skaða á taugakerfi við langvinna áfengissýki er spennandi möguleiki. Leiðrétting magnesíumskorts með magnesíum í inntöku á ekki við um sjúklinga með bráðan sjúkdóminn vegna hættu á skertu frásogi og nauðsyn á hraðri leiðréttingu. Þess má geta að það tekur nokkra daga að leiðrétta magnesíumskort innan frumna með magnesíumdreypi.83, 84

Fyrirbyggjandi meðferð

Þegar við innlögn á að gefa fyrirbyggjandi þíamín öllum áfengissjúklingum sem eru í verulegri hættu að fá sjúkdóminn, þar með öllum áfengissjúklingum sem þurfa afeitrun með lyfjum, hafa merki um vannæringu eða þurfa glúkósagjöf í æð. Almennt lystarleysi, ógleði og uppköst geta verið fyrstu teikn þíamínskorts.85 Það er algjörlega ófullnægjandi að gefa þíamín um munn til að fyrirbyggja sjúkdóminn hjá áfengissjúkum sem leggjast inn á sjúkrahús. Þeim ætti að gefa þíamínhýdróklóríð, 200-250 mg á dag í þrjá til fimm daga í vöðva, til að minnka hættu á sjúkdómnum.53, 79, 86

Ráðleggja ætti sjúklingum með virka langvinna áfengissýki að taka daglega vítamíntöflur sem innihalda að minnsta kosti 15 mg af þíamíni (sterkar B-kombíntöflur). Slík gjöf dregur úr líkum á þíamínskorti hjá áfengissjúkum en þíamínskortur veldur mörgum af þeim langvinnu skemmdum á taugakerfi sem áfengissýki getur valdið.1, 26 Skynsamlegt er setja töflurnar í lyfjaskömmtun frá apóteki eða að nánir ættingjar sjái um innkaup þeirra til að auka meðferðarheldni.

Þakkir

Þakkir fá læknarnir Andrés Magnússon, Ari Jóhannesson, Bjarni Össurarson, Kristinn Sigvaldason, Valgerður Rúnarsdóttir og Þórarinn Tyrfingsson fyrir gagnlegar ábendingar.

Heimildir

1. Victor M, Adams R, Collins G. The Wernicke-Korsakoff syndrome and related disorders due to alcoholism and malnutrition. 2 ed. F.A. Davis Company, Fíladelfíu 1989.

2. Wernicke C. Die acute, hämorrhagische Polioencephalitis superior. In: Lehrbuch der Gehirnkrankheiten fur Aerzte und Studirende, vol 2. Theodor Fischer, Berlin, Kassel 1881: 229-42.

3. Thomson AD, Cook CCH, Guerrini I, Sheedy D, Harper C, Marshall EJ. Wernicke‘s encephalopathy revisited. Translation of the case history section of the original manuscript by Carl Wernicke ‚Lehrbuch der Gehirnkrankheiten fur Aerzte and Studirende‘ (1881) with a commentary. Alcohol Alcohol 2008; 43: 174-9.

4. Victor M, Yakovlev PI. S.S. Korsakoff‘s psychic disorder in conjunction with peripheral neuritis; a translation of Korsakoff‘s original article with comments on the author and his contribution to clinical medicine. Neurology 1955; 5: 394-406.

5. Torvik A, Lindboe CF, Rogde S. Brain lesions in alcoholics. A neuropathological study with clinical correlations. J Neurol Sci 1982; 56: 233-48.

6. Lindboe CF, Loberg EM. Wernicke‘s encephalopathy in non-alcoholics. An autopsy study. J Neurol Sci 1989; 90: 125-9.

7. Cravioto H, Korein J, Silberman J. Wernicke‘s encephalopathy. A clinical and pathological study of 28 autopsied cases. Arch Neurol 1961; 4: 510-9.

8. Victor M, Laureno R. Neurologic complications of alcohol abuse: Epidemiologic aspects. In: Schoenberg BS, ed. Advances in Neurology, Vol 19. Raven Press, New York 1978: 603-17.

9. Harper C, Fornes P, Duyckaerts C, Lecomte D, Hauw JJ. An international perspective on the prevalence of the Wernicke-Korsakoff syndrome. Metab Brain Dis 1995; 10: 17-24.

10. Harper C. The incidence of Wernicke‘s encephalopathy in Australia--a neuropathological study of 131 cases. J Neurol, Neurosurg Psychiatr 1983; 46: 593-8.

11. Lindboe CF, Loberg EM. The frequency of brain lesions in alcoholics. Comparison between the 5-year periods 1975-1979 and 1983-1987. J Neurol Sci 1988; 88: 107-13.

12. Doraiswamy PM, Massey EW, Enright K, et al. Wernicke-Korsakoff syndrome caused by psychogenic food refusal: MR findings. Am J Neuroradiol 1994; 15: 594-6.

13. Selitsky T, Chandra P, Schiavello HJ. Wernicke‘s encephalopathy with hyperemesis and ketoacidosis. Obstet Gynecol 2006; 107: 486-90.

14. Chiossi G, Neri I, Cavazzuti M, Basso G, Facchinetti F. Hyperemesis gravidarum complicated by Wernicke encephalopathy: background, case report, and review of the literature. Obstet Gynecol Surv 2006; 61: 255-68.

15 Singh S, Kumar A. Wernicke encephalopathy after obesity surgery: a systematic review. Neurology 2007; 68: 807-11.

16. Koguchi K, Nakatsuji Y, Abe K, Sakoda S. Wernicke‘s encephalopathy after glucose infusion. Neurology 2004; 62: 512.

17. Francini-Pesenti F, Brocadello F, Famengo S, Nardi M, Caregaro L. Wernicke‘s encephalopathy during parenteral nutrition. JPEN J Parenter Enteral Nutr 2007; 31: 69-71.

18. Jagadha V, Deck JH, Halliday WC, Smyth HS. Wernicke‘s encephalopathy in patients on peritoneal dialysis or hemodialysis. Ann Neurol 1987; 21: 78-84.

19. Barbara PG, Manuel B, Elisabetta M, et al. The suddenly speechless florist on chronic dialysis: the unexpected threats of a flower shop? Diagnosis: dialysis related Wernicke encephalopathy. Nephrol Dial Transplant 2006; 21: 223-5.

20. Boniol S, Boyd M, Koreth R, Burton GV. Wernicke encephalopathy complicating lymphoma therapy: case report and literature review. South Med J 2007; 100: 717-9.

21. Onishi H, Kawanishi C, Onose M, et al. Successful treatment of Wernicke encephalopathy in terminally ill cancer patients: report of 3 cases and review of the literature. Support Care Cancer 2004; 12: 604-8.

22. Bleggi-Torres LF, de Medeiros BC, Werner B, et al. Neuropathological findings after bone marrow transplantation: an autopsy study of 180 cases. Bone Marrow Transplant 2000; 25: 301-7.

23. Alcaide ML, Jayaweera D, Espinoza L, Kolber M. Wernicke's encephalopathy in AIDS: a preventable cause of fatal neurological deficit. Int J STD AIDS 2003; 14: 712-3.

24. Butterworth RF, Gaudreau C, Vincelette J, Bourgault AM, Lamothe F, Nutini AM. Thiamine deficiency and Wernicke's encephalopathy in AIDS. Metab Brain Dis 1991; 6: 207-12.

25. Butterworth RF. Thiamin. In: Shils ME, M S, C RA, B C, J CR, eds. Modern Nutrition in Health and Disease: Lippincott Williams & Wilkins; 2005: 426-33.

26. Tallaksen CM, Bohmer T, Bell H. Blood and serum thiamin and thiamin phosphate esters concentrations in patients with alcohol dependence syndrome before and after thiamin treatment. Alcohol Clin Exp Res 1992; 16: 320-5.

27. Voskoboyev AI, Ostrovsky YM. Thiamin pyrophosphokinase: structure, properties, and role in thiamin metabolism. Ann N Y Acad Sci 1982; 378: 161-76.

28. Singleton CK, Martin PR. Molecular mechanisms of thiamine utilization. Curr Mol Med 2001; 1: 197-207.

29. Dodd PR, Beckmann AM, Davidson MS, Wilce PA. Glutamate-mediated transmission, alcohol, and alcoholism. Neurochem Int 2000; 37: 509-33.

30. Flink EB. Magnesium deficiency in alcoholism. Alcohol Clin Exp Res 1986; 10: 590-4.

31. Zieve L. Influence of magnesium deficiency on the utilization of thiamine. Ann N Y Acad Sci 1969; 162: 732-43.

32. Traviesa DC. Magnesium deficiency: a possible cause of thiamine refractoriness in Wernicke-Korsakoff encephalopathy. J Neurol Neurosurg Psychiatry 1974; 37: 959-62.

33. Dyckner T, Ek B, Nyhlin H, Wester PO. Aggravation of thiamine deficiency by magnesium depletion. A case report. Acta Med Scand 1985; 218: 129-31.

34. Morgan MY. Alcohol and nutrition. Brit Med Bull 1982; 38: 21-9.

35. Thomson AD. Mechanisms of vitamin deficiency in chronic alcohol misusers and the development of the Wernicke-Korsakoff syndrome. Alcohol Alcohol 2000; 35 Supplement: 2-7.

36. Thomson AD, Baker H, Leevy CM. Patterns of 35S-thiamine hydrochloride absorption in the malnourished alcoholic patient. J Labor Clin Med 1970; 76: 34-45.

37. Hoyumpa AM, Jr. Mechanisms of thiamin deficiency in chronic alcoholism. Am J Clin Nutr 1980; 33: 2750-61.

38. Thomson AD, Pratt O. Interaction of nutrients alcohol: Absorption, transport, utilisation and metabolism. In: Watson RR, Waltz B, eds. Nutrition and alcohol., CRC Press Boca Raton: 1992: 75-99.

39. Thomson AD, Marshall EJ. The natural history and pathophysiology of Wernicke's Encephalopathy and Korsakoff's Psychosis. Alcohol Alcohol 2006; 41: 151-8.

40. Malamud N, Skillicorn SA. Relationship between the Wernicke and the Korsakoff syndrome; a clinicopathologic study of seventy cases. Arch Neurol Psychiatry 1956; 76: 585-96.

41. Torvik A. Two types of brain lesions in Wernicke's encephalopathy. Neuropathol Appl Neurobiol 1985; 11: 179-90.

42. Torvik A. Topographic distribution and severity of brain lesions in Wernicke's encephalopathy. Clin Neuropathol 1987; 6: 25-9.

43. Wallis WE, Willoughby E, Baker P. Coma in the Wernicke-Korsakoff syndrome. Lancet 1978; 2: 400-1.

44. Ghez C. Vestibular paresis: a clinical feature of Wernicke's disease. J Neurol Neurosurg Psychiatry 1969; 32: 134-9.

45. Goor C, Endtz LJ, Muller-Kobold MJ. Electro-nystagmography for the diagnosis of vestibular dysfunction in the Wernicke-Korsakow syndrome. Clin Neurol Neurosurg 1975; 78: 112-7.

46. Groen RH, Hoff HC. Wernicke's disease. A catamnestic study of 50 patients. Eur Neurol 1977; 15: 109-15.

47. Barry H. Wernicke's encephalopathy in surgical practice. Lancet 1947; 2: 278-9.

48. Novak DJ, Victor M. The vagus and sympathetic nerves in alcoholic polyneuropathy. Arch Neurol 1974; 30: 273-84.

49. Hunter JM. Hypothermia and Wernicke's encephalopathy. BMJ 1976; 2: 563-4.

50. Mascalchi M, Simonelli P, Tessa C, et al. Do acute lesions of Wernicke's encephalopathy show contrast enhancement? Report of three cases and review of the literature. Neuroradiol 1999; 41: 249-54.

51. Harper CG, Giles M, Finlay-Jones R. Clinical signs in the Wernicke-Korsakoff complex: a retrospective analysis of 131 cases diagnosed at necropsy. J Neurol Neurosurg Psychiatry 1986; 49: 341-5.

52. Thomson AD, Cook CCH, Touquet R, Henry JA; Royal College of Physicians, London. The Royal College of Physicians report on alcohol: guidelines for managing Wernicke's encephalopathy in the accident and Emergency Department. Alcohol Alcohol 2002; 37: 513-21.

53. Thomson AD, Marshall EJ. The treatment of patients at risk of developing Wernicke's encephalopathy in the community. Alcohol Alcohol 2006; 41: 159-67.

54. Caine D, Halliday GM, Kril JJ, Harper CG. Operational criteria for the classification of chronic alcoholics: identification of Wernicke's encephalopathy. J Neurol Neurosurg Psychiatry 1997; 62: 51-60.

55. Dreyfus PM. Clinical application of blood transketolase determinations. N Engl J Med 1962; 267: 596-8.

56. Sauberlich HE. Newer laboratory methods for assessing nutriture of selected B-complex vitamins. Ann Rev Nutr 1984; 4: 377-407.

57. Mancinelli R, Ceccanti M, Guiducci MS, et al. Simultaneous liquid chromatographic assessment of thiamine, thiamine monophosphate and thiamine diphosphate in human erythrocytes: a study on alcoholics. J Chromatogr B Analyt Technol Biomed Life Sci 2003; 789: 355-63.

58. Gallucci M, Bozzao A, Splendiani A, Masciocchi C, Passariello R. Wernicke encephalopathy: MR findings in five patients. Am J Roentgenol 1990; 155: 1309-14.

59. Zuccoli G, Santa Cruz D, Bertolini M, et al. MR Imaging Findings in 56 Patients with Wernicke Encephalopathy: Nonalcoholics May Differ from Alcoholics. Am J Neuroradiol 2009; 30: 171-6.

60.White ML, Zhang Y, Andrew LG, Hadley WL. MR imaging with diffusion-weighted imaging in acute and chronic Wernicke encephalopathy. Am J Neuroradiol 2005; 26: 2306-10.

61.          Antunez E, Estruch R, Cardenal C, et al. Usefulness of CT and MR imaging in the diagnosis of acute Wernicke's encephalopathy. Am J Roentgenol 1998; 171: 1131-7.

62.          Weidauer S, Nichtweiss M, Lanfermann H, Zanella FE. Wernicke encephalopathy: MR findings and clinical presentation. Eur Radiol 2003; 13: 1001-9.

63.          Park SH, Kim M, Na DL, Jeon BS. Magnetic resonance reflects the pathological evolution of Wernicke encephalopathy. J Neuroimaging 2001; 11: 406-11.

64.          Sheedy D, Lara A, Garrick T, Harper C. Size of mamillary bodies in health and disease: useful measurements in neuroradiological diagnosis of Wernicke's encephalopathy. Alcohol Clin Exp Res 1999; 23: 1624-8.

65.          Charness ME, DeLaPaz RL. Mamillary body atrophy in Wernicke's encephalopathy: antemortem identification using magnetic resonance imaging. Ann Neurol 1987; 22: 595-600.

66.          Sullivan EV, Lane B, Deshmukh A, et al. In vivo mammillary body volume deficits in amnesic and nonamnesic alcoholics. Alcohol Clin Exp Res 1999; 23: 1629-36.

67.          Charness ME, DeLaPaz RL. Periodic alternating nystagmus in an alcoholic with small mamillary bodies. Neurology 1988; 38(Suppl 1): 421.

68.          Charness ME. Intracranial voyeurism: revealing the mammillary bodies in alcoholism. Alcohol Clin Exp Res 1999; 23: 1941-4.

69.          Bogousslavsky J, Regli F, Uske A. Thalamic infarcts: clinical syndromes, etiology, and prognosis. Neurology 1988; 38: 837-48.

70.          Gentilini M, De Renzi E, Crisi G. Bilateral paramedian thalamic artery infarcts: report of eight cases. J Neurol Neurosurg Psychiatr 1987; 50: 900-9.

71.          Chung SP, Kim SW, Yoo IS, Lim YS, Lee G. Magnetic resonance imaging as a diagnostic adjunct to Wernicke encephalopathy in the ED. Am J Emerg Med 2003; 21: 497-502.

72.          Ghika-Schmid F, Bogousslavsky J. The acute behavioral syndrome of anterior thalamic infarction: a prospective study of 12 cases. Ann Neurol 2000; 48: 220-7.

73.          Yoneoka Y, Takeda N, Inoue A, et al. Acute Korsakoff syndrome following mammillothalamic tract infarction. Am J Neuroradiol 2004; 25: 964-8.

74.          Brechtelsbauer DL, Urbach H, Sommer T, Blümcke I, Woitas R, Solymosi L. Cytomegalovirus encephalitis and primary cerebral lymphoma mimicking Wernicke's encephalopathy. Neuroradiology 1997; 39: 19-22.

75.          Torgovnick J, Arsura EL, Lala D. Cytomegalovirus ventriculoencephalitis presenting as a Wernicke's encephalopathy-like syndrome. Neurology 2000; 55:  1910-3.

76.          Tallaksen CM, Sande A, Bøhmer T, Bell H, Karlsen J. Kinetics of thiamin and thiamin phosphate esters in human blood, plasma and urine after 50 mg intravenously or orally. Eur J Clin Pharmacol 1993; 44: 73-8.

77.          Day E, Bentham P, Callaghan R, Kuruvilla T, George S. Thiamine for Wernicke-Korsakoff Syndrome in people at risk from alcohol abuse. Cochrane Database Syst Rev 2004: CD004033.

78.          Cook CC, Hallwood PM, Thomson AD. B Vitamin deficiency and neuropsychiatric syndromes in alcohol misuse. Alcohol Alcohol 1998; 33: 317-36.

79.          Cook CC. Prevention and treatment of Wernicke-Korsakoff syndrome. Alcohol Alcohol 2000; 35(1): Supplement 19-20.

80.          Wrenn KD, Murphy F, Slovis CM. A toxicity study of parenteral thiamine hydrochloride. Ann Emerg Med 1989; 18: 867-70.

81.          Wrenn KD, Slovis CM. Is intravenous thiamine safe? Am J Emerg Med 1992; 10: 165.

82.          Galvin R, Brathen G, Ivashynka A, et al. EFNS guidelines for diagnosis, therapy and prevention of Wernicke encephalopathy. Eur J Neurol 2010;17: 1408-18.

83.          Giles H, Vijayan A. Fluid and Electrolyte Management. In: The Washington Manual of Medical Therapeutics. Green GB, et al. Editors. Lippincott Williams & Wilkins: Fíladelfía 2004: 39-71.

84.          Pálsson R, Guðmundsdóttir IJ, Jóhannesson AJ. Raskanir á jafnvægi vatns, elektrólýta og sýru og basa: Í: Handbók í lyflæknisfræði. Jóhannesson AJ, Pálsson R. Ritstjórar. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2006: 30-52.

85.          Thomson AD, Cook CC, Guerrini I, Sheedy D, Harper C, Marshall EJ. Wernicke's encephalopathy: 'Plus ca change, plus c'est la meme chose'. Alcohol Alcohol 2008; 43: 180-6.

86.          Ambrose ML, Bowden SC, Whelan G. Thiamin treatment and working memory function of alcohol-dependent people: preliminary findings. Alcohol Clin Exp Res 2001; 25: 112-6.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica