12. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Fagvitund og fræðsluhlutverk landsmönnum til heilla

Um fyrsta árgang Læknablaðsins

Nú líður að lokum upprifjunar á efni fyrsta árgangs Læknablaðsins. Umfjöllunin hófst í upphafi árs á siðareglum lækna (Codex ethicus) sem skapa umgjörð alls starfs okkar og hafa verið endurskoðaðar í samræmi við stöðu þekkingar og vísinda síðan.

Tilgangur greinarskrifa í fyrsta árgangi Læknablaðsins var fræðsla og leiðsögn í bland við rýni á eigin verklag og þekkingu almennt. Frásagnir af meðferð við alvarlegum fæðingarkrampa og tilfellalýsingar, til dæmis á konum með utan-legsfóstur, sýna vel hvernig heilbrigðisþjónusta við konur á frjósemisskeiði voru mikilvægt verkefni lækna. Svo er vitanlega enn. Vangaveltur Guðmundar Hannessonar um skyr og hollustu þess í nóvemberblaðinu sýnir einnig opinn hug gagnvart takmörkum þekkingar lækna eða öllu heldur þörf fyrir að sannreyna. Birt var nafnlaust erindi frá yfirsetukonu þar sem kona leitaði læknis níu mánuðum eftir barnsburð og fékk skýringar á heilsubresti sem yfirsetukonan vildi fá álit fleiri lækna á. Þannig hefur blaðið nýst sem samráðsvettvangur einnig.

Í janúarhefti blaðsins var opið bréf til allra héraðslækna frá Guðmundi Björnssyni landlækni þar sem hann óskar eftir breytingum á verklagi á farsóttarskýrsl-um „án þess að vilja gera það að embættismáli að svo stöddu“. Með samþykki ritstjórnar var því birt í Læknablaðinu mánaðarleg heilsufarsskýrsla á landsvísu, fyrir 17 héruð þegar mest var. Ef heimtur voru dræmar virðist landlæknir hafa hringt til að afla upplýsinga. Fréttir af skipan lækna í stöður, lausar stöður og fleira er varðaði læknamönnun fylgdi með. Fyrir Reykjavíkurhérað og Sauðárkrókshérað birtust gögn strax í febrúar. Sjúkdómsgreiningar á latínu að mestu og töluvert ólíkur ritháttur frá því sem nú tíðkast. Frá 1911 var í innleiðingu skráning dánarmeina í samræmi við leiðbeiningar landlæknis. Í fyrstu skyldi gefa út dánarvottorð í kaupstöðum og var í gildi Hin íslenska aðalskrá fyrir dánarmein, 155 flokka sjúkdómaflokkunarkerfi.1 Nú skrá læknar sjúkdómsgreiningar eftir ICD-10 með allt að 14,000 kóðum.2 Vöktun landlæknis var undanfari vöktunar sóttvarnarlæknis sem nú vaktar 55 tilkynningaskylda sjúkdóma og 31 skráningarskyldan sjúkdóm.

Á forsíðu Læknablaðsins birtust hálfsíðuauglýsingar á tóbaki fyrstu þrjú árin sem blaðið kom út. Ekki þykir mikill sómi að þessu í dag en rímar við að reykingar hafi verið að festast í sessi hér á landi hjá þeim sem voru betur settir í samfélaginu. Fyrstu rannsóknir sýndu um 1950 að reykingar yllu krabbameini í lungum. Bann við auglýsingum á tóbaki hér á landi tók gildi 1970.

Í skýrslu Háskóla Íslands um stúdenta í læknadeild 1914-1915 eru nafngreindir 29 stúdentar í læknadeild. Kristín Ólafsdóttir frá Hjarðarholti er nafngreind meðal stúdenta, eina konan í hópnum. Hún hóf námið 1911 og var fyrsta konan sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands 1917.

Frumkvöðlar þeir sem rituðu fyrsta árgang Læknablaðsins voru ötulir að deila faglegri reynslu sinni og fjalla um hag lækna og aðbúnað þeirra. Þar kveður við kunnuglegt stef, meðal annars um skort á læknum á landsbyggðinni og að þeir komi frá námi með skuldir og ráði illa við aðrar skuldbindingar. Enn fremur um mikilvægi þess að læknar geti fylgst með nýjungum í læknisfræði, sótt endurmenntun og haft aðgang að nýbirtum fræðaritum. Rímar það vel við sterka fagvitund og samkennd lækna um sameiginlega ábyrgð gagnvart landsmönnum að þróa og viðhalda þekkingu til að veita góða heilbrigðisþjónustu og nýta hana landsmönnum til heilla.

Lokaorð Læknablaðsins 1915 eru á þessa leið og gætu enn sómt sér vel: „Næsti árgangur Læknablaðsins ætti að verða í ýmsum atriðum betri en hinn fyrsti, ef allt fer með feldu.“

Heimildir

1. Leiðbeiningar um dánarvottorð og dánarskýrslur. : (sbr. lög um dánarskýrslur 11. júlí 1911). Reykjavík, Landlæknir 1911.

2. Smedby B.Schiøler G. Health Classifications in the Nordic Countries. Historic development in a national and international perspective 2006. Kaupmannahöfn, Nordisk Medicinalstatistisk Komité 2006.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica