12. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Insúlíndælur í 20 ár
Árið í ár markar tímamót í sögu meðferðar við sykursýki. Göngudeild innkirtlasjúkdóma á Landspítala fagnar hálfrar aldar afmæli, auk þess sem 20 ár eru liðin frá því að insúlíndælur voru teknar í notkun á Landspítalanum. Að því stóð Arna Guðmundsdóttir, sem með hug og dáð réðst í að fá þær samþykktar og hóf innleiðslu þeirra á göngudeild innkirtlasjúkdóma vorið 2004, með dyggum stuðningi yfirlæknis göngudeildarinnar.
Arna lærði almennar lyflækningar í 3 ár (residency) og síðan innkirtalækningar (fellowship) í önnur 3 ár í Iowa í Bandaríkjunum. Undir lok námsins, árið 2002, kynntist hún notkun insúlíndæla við sykursýki af gerð 1, en þá voru fáir sjúklingar komnir á dælur. Það vildi þannig til að sérnámslæknir einn sem var á deild Örnu var með dælu og þannig gafst henni tækifæri til þess að sjá með eigin augum hvernig viðkomandi stýrði sinni sykursýki, án þess að þurfa að sprauta sig oft á dag með insúlíni. Arna áttaði sig fljótt á að þarna væri komið upphafið að byltingu í meðferð einstaklinga með sykursýki.
Þegar heim var komið byrjaði Arna að leita fyrir sér varðandi innflutning. Hún var svo heppin að komast í kynni við Kristján Zofaníasson hjá AZ Medica sem þjónustaði vörur og lækningatæki frá bandaríska stórfyrirtækinu Medtronic. Medtronic hafði vorið 2001 keypt Minimed sem var ráðandi í hönnun og framleiðslu á tækjabúnaði fyrir sykursýki.
Kristján tók strax vel í hugmyndina að flytja inn og þjónusta insúlíndælur. En afar mikilvægt er þegar kemur að lækningatækjum sem þessum, að þjónusta við búnaðinn sé fyrsta flokks. Ekki er nóg að tækin séu fullkomin.
Síðan þurfti að semja við ríkið um greiðsluþátttöku en eftir ófáa fundi samþykkti Tryggingastofnun ríkisins að veita leyfi fyrir 10 dælum. Meðferðin hófst á Göngudeild innkirtlasjúkdóma, Landspítala, vorið 2004 og er því 20 ára afmæli fagnað í ár. Dælurnar voru orðnar tólf ári síðar og eftir þriðja árið fimmtán. Varlega var farið af stað og Arna gerði sér fulla grein fyrir því að það mætti ekkert klikka því þá kæmi bakslag sem myndi seinka þróuninni hérlendis en það hafði einmitt gerst í Danmörku. Upphaflega lagði hún áherslu á að spítalinn ætti dælurnar þannig að ef eitthvað kæmi uppá, gæti hún afturkallað tækið. Þess má geta að Arna hafði ávallt góðan stuðning Ástráðs B. Hreiðarssonar yfirlæknis göngudeildarinnar. Það var hins vegar engin þekking í landinu á þessum tíma meðal annarra kollega hennar. Barnadeildin hélt með í þessa vegferð 3-4 árum síðar.
Hjúkrunarfræðingar deildarinnar voru strax mjög opnir fyrir þessari nýjung. Fyrst var kennt á dælurnar maður á mann, en þegar fjöldinn jókst, fór Arna til Mayo Clinic í Rochester og kynnti sér fyrirkomulag á dælunámskeiðum. Þar var fimm til tíu einstaklingum kennt saman í hóp og var það fyrirkomulag tekið upp á Landspítala. Árið 2006 komu svo á markað síritar, sem sýndu blóðsykurgildi á skjá dælunnar og loks, árið 2019, komu dælur með gervigreind sem urðu enn fullkomnari með núverandi útgáfu árið 2021.
Nú, 20 árum síðar, eru yfir fimmtíu prósent fullorðinna með insúlínháða sykursýki, eða ríflega áttahundruð Íslendingar, að nota insúlíndælur og enn hærra hlutfall meðal barna. Fleiri innflutningsaðilar hafa komið á markaðinn því hér á landi er einnig hægt að fá þráðlausar dælur, Omnipod-dælur. Auk þess er fjöldi fólks að nota blóðsykursírita samhliða meðferð með hefðbundnum insúlínpennum eða snjallpennum. Ljóst er að alger bylting hefur orðið í meðferð við sykursýki með þeim gríðarlegu tækninýjungum sem orðið hafa.
Straumhvörf urðu þegar fyrir-komulagi eignarhaldins var breytt. Nú á innflutningsaðilinn tækjabúnaðinn og leigir hann til Sjúkratrygginga Íslands. Dælurnar eru í ábyrgð í fjögur ár og þegar eitthvað fer úrskeiðis fær einstaklingurinn nýja dælu frá fyrirtækinu samdægurs. Önnur lönd hafa tekið upp þetta fyrirkomulag að okkar forskrift.
Mikilvægt er að draga lærdóm af sögum sem þessari og velta fyrir sér hvernig nýjungar berast til landsins. Hverjir bera þá ábyrgð? Eru það læknar, Landspítalinn, ríkið, einstaklingar eða sjúklingasamtök? Arna segir afar mikilvægt að læknar fái að minnsta kosti hluta sinnar menntunar erlendis eða fái tækifæri til að fara til námsdvalar á erlend sjúkrahús, hvort sem er til lengri eða skemmri dvalar. Að lokum segir hún að nú, þegar læknar taka sérnám sitt í auknum mæli hér á landi, þurfi að huga sérstaklega vel að þessu ef við ætlum að vera áfram í fremstu röð.