12. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Fann nýtt afbrigði af heilaæxli með rannsóknarhóp sínum
Halldór Bjarki Einarsson heila- og taugaskurðlæknir, í viðtali í hlaðvarpi Læknablaðsins
Halldór Bjarki Einarsson er heila- og taugaskurðlæknir sem starfar við háskólasjúkrahúsið í Álaborg, en hefur frá því í júní tekið að sér afleysingar á Landspítalanum. Nýverið flutti hann erindi um uppgötvun sína á nýju afbrigði heilaæxlis en það var á fundi Félags um innkirtlafræði um sjúkdóma í heiladingli og nýrnahettum, sem haldinn var í sjötta sinn hér á landi í október síðastliðnum.
Ætlaði að verða sjómaður
Ég gerði mér það nú aldrei í hugarlund að ég yrði læknir. Ég sá fyrir mér að verða sjómaður og byrjaði í stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum, samhliða framhaldskólanámi. En þannig fór á þeim tíma að frændi minn, sem var mér sem lítill bróðir, dó af völdum heilaæxlis aðeins níu ára gamall. Það var þá sem ég ákvað að fara í læknisfræði; til þess að geta hjálpað sjúklingum sem þurfa að ganga í gegnum sömu þjáningar og hann þurfti að gera.
Ég lærði læknisfræði við háskólann í Árósum og Álaborg með viðkomu í Bandaríkjunum. Árin 2004-2005 stóð mér til boða að klára læknisfræðina í New Haven. Lífið þar var býsna gott og maður lærði í sjálfu sér að háskólasamfélagið er alls staðar eins. Þarna var franskur háskólaprófessor minn helsti leiðbeinandi og mikil goðsögn í heimi frumurannsókna. Þar kynntist ég öðrum frönskum manni sem leigði mér herbergi, sem ég þurfti fljótlega að flýja sökum mikillar söfnunaráráttu hans. Í íbúðinni var ekki hægt að þverfóta fyrir drasli! Hann kenndi mér þó að það er hægt að finna röð og reglu í entrópíu (óreiðu kerfisins). Ég átti þar mjög lærdómsríkan tíma og ætlunin var alltaf að læra nýja aðferðarfræði innan frumurannsókna og það tókst. Hvað sem því líður þá tókst mér ekki að finna mig í New Haven og langaði aftur til Árósa og kom aftur til Danmerkur reynslunni ríkari.
Hefur framkvæmt um 1000 krufningar – hitti svo sjúkling sem snéri huga hans
Ég var alltaf viðloðandi meinafræðirannsóknir við hálskólasjúkrahúsið í Árósum og tók ég mikinn þátt í krufningum og telst til að ég hafi framkvæmt um þúsund. Ég hef alltaf litið á meinafræði sem þungamiðju læknisfræðinnar og var kominn þangað með annan fótinn. Mér hefur ávallt þótt áhugavert að sameina grunnrannsóknir og sjúkdómsgreiningu og er þeirrar skoðunar að meinafræðin sé grunnurinn að læknisfræðinni sem við stundum; og þannig grunnur fyrir meðhöndlun þeirra sjúkdóma sem við fáumst við.
Á sjötta ári mínu í læknisfræðinni, þegar ég var í verknámi við heila- og taugaskurðdeildina í Álaborg hitti ég 55 ára gamlan mann sem hafði nýlega greinst með heilaæxli (glioblastoma). Hann þekkti sínar batahorfur og ótti hans kveikti minningar um litla frænda minn sem hafði dáið svo mörgum árum fyrr. Þetta varð til þess að mér snérist hugur og ég ákvað að fara í heila- og taugaskurðlækningar.
Í upphafi ætlaði ég mér alls ekki í þessa sérgrein, því ég var búinn að ákveða að fara í meinafræði, en þökk sé Guðrúnu Guðmundsdóttur yfirlækni á heila- og taugaskurðlækningadeildinni við háskólasjúkrahúsið í Árósum; því hún hjálpaði mér að velja sérfræðinám sem passaði mér og að ég kæmist í sérnámið í Danmörku.
Doktorsritgerðin kláruð fyrir sérnámið í heila- og taugaskurðlækningum
Ég fór reyndar í rannsóknir áður en ég byrjaði formlega hjá Guðrúnu í Árósum. Kláraði þar af leiðandi fyrst doktorsnámið mitt. Þá rannsakaði ég áhrif plastefnasambanda eða pólýesterefnasambanda á líkamann. Ég vildi kanna hvernig ónæmiskerfið bregst við þegar ígrætt er pólýester í líkamann. Ég rannsakaði bæði in vitro og in vivo (bæði utan og innan lifandi lífveru). Eftir doktorsnámið fór ég í sérnámið. Árlega hitti ég kollega frá Svíþjóð, Noregi og Finnlandi; en einu sinni á ári sat ég kúrs með þeim sem ávallt var haldinn norðan við Osló. Það var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. Í dag starfa ég í Álaborg.
Halldór Bjarki í bráðaskurðaðgerð vegna sjálfsprottinnar heilavefsblæðingar. Með honum á myndinni er Mathias Møller Thygesen (mynd Halldór Bjarki Einarsson)
Flutti erindi um nýtt afbrigði heilaæxlis uppgötvað af hans rannsóknarhóp
Heilaæxlið sem ég fjallaði um er afbrigði heilaæxlis sem er uppgötvun okkar rannsóknarhóps, sem samanstóð af meinafræðingum, röntgenlæknum, erfðafræðingum auk innkirtlasérfræðinga. Við rannsökuðum áhrif MEN1-heilkennisins (Multiple Endocrine Neoplasia Type 1) á krabbameinsmyndun í miðtaugakerfinu. Um er að ræða arfgengt heilkenni sem þekkt er fyrir að auka líkurnar á krabbameini í brisi og kalkkirtlum og æxli í fremri hluta heiladinguls; þar sem helsta birtingarmyndin er æxli í brisi (pancreatic neuroendocrine tumor) og kalkvakaóhóf (primary hyperparathyroidism). Þessi rannsókn byrjaði í kjölfar fyrri rannsókna sem varða hina erfðafræðilegu staðfestingu á því að heila- og mænuþelsæxli (ependymoma), getur orsakast af völdum MEN1-heilkennisins. En rannsóknir okkar sýndu fram á annars konar krabbameinsfrumur með MEN1--kímlínubreytileika, og sem líkjast PXA-krabbameinsfrumum (pleomorphic xanthoastrocytoma). Við fundum allt aðrar stökkbreytingar en sjást í tilfelli heila- og mænuþelsæxlis. Sjáist slíkar stökkbreytingar er vert að íhuga skimun MEN1-sjúklinga fyrir birtingarmyndun heilaæxla. Þær skimunaraðferðir sem í dag eru notaðar, varða ekki myndgreiningu á höfði og það er ekki fyrr en sjúklingurinn fær einkenni frá miðtaugakerfinu sem gripið er til þeirra.
Breytt greiningarskilmerki – uppgötvunin í stjarnfræðilegu samhengi
Við framkvæmdum yfirgenaerfðafræðirannsóknir (whole genome analysis og DNA methylation profiling) og fundum með öðrum orðum allt öðruvísi birtingarmynd metýlunar miðað við það sem sést hjá PXA-krabbameinssjúklingum. Þannig vorum við sem sagt búin að finna nýtt afbrigði. Til þess að útskýra uppgötvun okkar betur, má grípa til líkingar við himingeiminn; því flokkun krabbameina í dag er allt öðruvísi en hún var í upphafi. Þetta nýja afbrigði sem við fundum er ein lítil stjarna í stjörnuskýinu.
Æxlið nefnt með upphafsstöfum litla frænda
Mér þykir vænt um að við fengum leyfi til þess að kalla æxlið PDP en það stendur fyrir Pétur Davíð Pétursson sem er litli frændi minn sem dó úr heilakrabba. Ég hef reyndar aldrei komist að því af hvaða tegund hans æxli var og blessuð sé minning hans.
Ég hef alltaf verið í rannsóknum með-fram læknanámi og klínískri vinnu. Rann-sóknir er mikið áhugamál hjá mér og ég eyði miklum frítíma í þær og reynd-ar fæ ég leyfi hjá yfirmönnum að taka nokkra tíma í rannsóknir. Núna er ég fyrst og fremst að einbeita mér að því að vera góður skurðlæknir.
Ráðleggur yngri læknum að njóta ferðalags vísindanna
Það er ekki hægt að vera 100% í klínískum störfum og rannsóknum á sama tíma. En ef tækifæri gefst að taka leyfi frá klínískum störfum, til þess að fara í rannsóknir, þá myndi ég ráðleggja þeim yngri að muna að njóta ferðalagsins og finna verkefni sem kallar á þau, sem er hjartanu nær, og að rannsóknin eigi ekki að snúast um fjölda vísindagreina og að vera í einhverju stigveldisbraski. Verið forvitin; rannsóknarstörf eru gefandi og fræðandi í senn en geta líka verið mjög strembin. Enginn nær árangri í starfi, og hvaða starfi sem það nú er, án þess að þurfa að þola mótbyr. Þannig eru líka vísindarannsóknir og því meiri mótstaða, þeim mun betra!
Heiður að koma til Íslands og hjálpa
Ég setti mig í samband við Steen Magnús Friðriksson, yfirlækni á heila- og taugaskurðsviði, og hann gaf mér tækifæri til þess að koma og hjálpa landanum undir handleiðslu þeirra sem eru mun reyndari og á ég þeim öllum þakkarskuld að gjalda. Það er dásamlegt að vera kominn aftur til Íslands og það er mér mikill heiður að fá að hjálpa. En þetta snýst allt um samvinnu og Landspítalinn er stútfullur af frábæru starfsfólki. Hér er mannauður sem lyftir grettistaki á hverjum einasta degi og stenst fullkomlega samanburð við meginlandið og Bandaríkin. Hér höfum við lækna sem hafa starfað út um allan heim og það er mikill fjársjóður fyrir íslenskt samfélag.
Skrifar og les í frítíma sínum
Þegar Halldóri Bjarka gefst kostur á að líta upp frá læknisverkum sínum, situr hann ekki auðum höndum og frítímanum eyðir hann helst í bókmenntir og hefur sérstakan áhuga á Íslendingasögunum. Hann hefur til að mynda skrifað vísindagrein um Egil Skallagrímsson fyrir okkur á Læknablaðinu með nafninu „Visna Egils Skallagrímssonar“ (05. tbl. 105. árg. 2019). Einnig var hjá FADL´s bókaforlaginu í Kaupmannahöfn gefin út barnabók hans Epilepsitårnet. Nýjasta afurð skrifa hans er skáldsagan Hængur, en hún er rituð með stíl frásagnarlæknisfræðinnar (narrative medicine) og hefur fengið jákvæða skoðun hjá forlagi á Íslandi. Ekki er úr vegi að ljúka þessu viðtali með orðum aðalsögupersónunnar Hængs: ,,Sjúkdóma skal lækna, þjáðum hjúkra og þeim er sorgleg örlögin opinberast, hugga“.