11. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Liprir pennar. Á ÉG að votta það? Indriði Einar Reynisson
Okkar virðulega vottorðabákn er mikið á milli tanna meðal lækna. Ekki að ástæðulausu. Á tímabilinu 2018-2021 rituðu læknar á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 504.670 vottorð. Tilfinning mín er að þetta sé sífellt að aukast. En hvaða vottorð eru þetta? Til dæmis þetta klassíska vinnuveitandavottorð vegna nokkurra daga kvefpestar eða magakveisu, því einungis læknirinn á að geta sagt til um hvort starfsmaður með gubbupest sé hæfur í vinnu. Einnig vottorð fyrir leikfimi því barnið gengur með gips sem enginn annar sér nema læknirinn. Að ógleymdum vottorðum til félagsþjónustunnar um að viðkomandi sé óvinnufær í þúsundasta skiptið eða verði að fá akstursþjónustu aldraðra. Bara af því við höfum ekkert betra að gera.
En hver þarf þessi vottorð? Mörg þeirra fara til vinnuveitenda sem óbeint óska eftir því að læknirinn starfi líka sem barnapía skjólstæðingsins svo hann sé nú örugglega ekki að skrökva. Þegar ég var yngri hélt ég að einkafyrirtækin væru þau einu sem væru með vesen. En þar skjátlaðist mér. Vottorðafjallið sem við sendum á ríkisstofnanir stækkar með ári hverju. Hjálpartækjabeiðnir, örorkuvottorð, sjúkradagpeningavottorð, beiðni til sjúkraþjálfara, iðjuþjálfara, talmeinafræðings og sálfræðings til niðurgreiðslu, stæðiskort og lyfjaskírteini, bara sem dæmi. Oft þarf að senda sömu beiðnina ítrekað sama árið og á mismunandi formum. Gott dæmi um slíkt eru endurhæfingarvottorð Tryggingastofnunar ríkisins sem kröfðust einnig afrits af áætlunum læknisins fyrir sjúklinginn á sér eyðublaði sem var einungis að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar ríkisins. Bara af því við höfum ekkert betra að gera
Fyrir nokkru sendi ég endurnýjun á lyfjaskírteini fyrir frægt sykursýkislyf sem er þekkt fyrir að valda miklu þyngdartapi. Skjólstæðingurinn hafði verið á lyfinu í þrjú ár með góðum árangri, langtímasykurinn var rétt orðinn eðlilegur og hann hafði misst mikið magn af líkamsfitu sem stuðlaði að bættum lífsgæðum og þar af leiðandi bættum lífslíkum. Sjúkratryggingar Íslands héldu nú ekki. Hafnaði stofnunin endurnýjun á þeirri forsendu að lyfið sé einungis notað hjá sykursjúkum með arfaslakt blóðsykurgildi og vildu bjúrókratar fara að stýra meðferðinni beint frá Vínlandsleið. Eftir ókurteisislegt bréf frá undirrituðum, þar sem meðal annars var tíundað að stofnunin muni stuðla beint að versnun sjúkdómsins hjá viðkomandi með ákvörðun sinni, fékkst skírteinið loks samþykkt. Þetta var ekki í síðasta skiptið sem SÍ skipuðu sér í sæti beins meðferðaraðila skjólstæðinga minna. Bara af því við höfum ekkert betra að gera.
Endurnýjun örorkuvottorðs langveiks einstaklings er annað sem ég skil ekki. Hvers vegna þarf að votta að viðkomandi sé enn þá með auka litning eða þjáist af langvinnum skorti á útlim? Væri ekki ódýrara og fljótlegra að senda beiðni um breytingu á fastri meðferð þegar og ef lækningar við enn ólæknandi einkennum verða raunhæfar? Stund-um hugsa ég að skynsemi aflærist á ríkisstofnunum landsins þar sem ekkert gengur að tengja milli tveggja punkta í málefnum skjólstæðinga. Það þykir greinilega ekki sjálfsagt að viðkomandi eigi sjálfkrafa rétt á hjálpartækjum og ákveðnum lyfjum fyrir sinn vanda þegar örorkuvottorð er sent. Þess í stað verður að senda beiðnir og skírteini oft, ítrekað og endurtekið á hverju ári. Bara af því við höfum ekkert betra að gera.
Að endingu verður að minnast á vottorð til lögmanna og tryggingafélaga. Ég hlæ og græt í senn þegar beiðni um vottorð berst áður en vika er liðin frá fyrstu komu skjólstæðings eftir slys og óskað eftir áliti og batahorfum á áverkanum áður en mögulegar afleiðingar verða ljósar. Í viðbót kemur fram beiðni um afrit af sjúkraskrá (aftur til getnaðar viðkomandi) um öll þau atriði sem gætu tengst áverkanum og haft áhrif á niðurstöðu skjólstæðingsins. Skýrsluna verður læknir að lesa stafanna á milli áður en hún er afhend. Bara af því við höfum ekkert betra að gera.
En vil ég votta allt? Þarf ég að votta allt? Verð ég að votta allt? Ég kannast ekki við að vottorðin mín hafi bjargað mannslífum með beinum hætti. Á sama tíma kvarta skjólstæðingar mínir yfir tímaskorti á heilsugæslunni. Á sama tíma eldist þjóðin og fjölgar hratt meðan heimilislæknum fjölgar varla. Á sama tíma og geðheilsa barna og unglinga hefur verið með versta móti. Á sama tíma hækkar líkamsþyngdarstuðull þjóðarinnar í veldisvexti.
Við höfum nóg annað að gera!