11. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Læknablaðið í 110 ár. Frumkvöðlar í læknastétt. Upphaf nýrnaskilunar á Íslandi. Runólfur Pálsson
Þann 15. ágúst árið 1968 hófst nýrnaskilun (dialysis) hér á landi er fyrsta blóðskilunarmeðferðin var veitt á Landspítala. Um var að ræða stórviðburð sem markaði upphaf sérhæfðrar þjónustu við nýrnasjúka á Íslandi. Ekkert var fjallað um þessi tímamót í Læknablaðinu á þessum tíma en greint var frá þeim í öllum fjölmiðlum. Áratugum síðar birtust greinar í Læknablaðinu í tilefni af því að 30 og 50 ár voru liðin frá þessum stóra áfanga.1,2
Í frétt Morgunblaðsins 17. ágúst 19683 sagði:
Síðastliðinn fimmtudag fór fram á lyflækningadeild Landspítala fyrsta aðgerð með gerfinýra. Aðgerð þessi er í því fólgin að hreinsa úr blóðinu úrgangsefni sem myndast hafa vegna alvarlegra nýrnasjúkdóma.
Aðdragandi þessarar þjónustu Landspítalans er heimkoma tveggja nýrnasjúklinga sem undanfarið hafa dvalið á Hammersmith sjúkrahúsinu í London og fengið þar hliðstæða meðferð. Þegar þessir tveir sjúklingar voru sendir til sjúkrahússins í London var þess vænst að þeir myndu fá áframhaldandi meðferð í London eða á Norðurlöndum. Vegna mjög takmarkaðs sjúkrarýmis fyrir þessa þjónustu og fjölda nýrnasjúklinga í þessum löndum, reyndist ekki mögulegt að fá áframhaldandi hjálp í þessu efni.
Síðar segir:
Yfirlæknir lyflækningadeildar Landspítalans, prófessor Sigurður Samúelsson, sneri sér þá til eins af frumkvöðlum gerfinýrameðferðar í heiminum, prófessors Nils Alwall við nýrnadeildina í Háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Prófessor Alwall brást vel og drengilega við þessari beiðni, og gaf þau ráð að Landspítalinn fengi að láni frá sjúkrahúsinu í Lundi gerfinýra ásamt tilheyrandi búnaði, ennfremur aðstoð íslenzks læknis, Þórs Halldórssonar, eins tæknifræðings og sérmenntaðrar hjúkrunarkonu. Þór Halldórsson hefur starfað hjá prófessor Alwall í Lundi síðastliðið eitt og hálft ár.
Til að byrja með er gert ráð fyrir að Þór Halldórsson verði hér í 2 mánuði, og er á meðan í orlofi á sjúkrahúsinu í Lundi. Um framhald á þessari þjónustu í Landspítalanum má geta þess, að sótt hefur verið um leyfi til stjórnvalda að ráða að spítalanum sérfræðing í nýrnasjúkdómum og sköpuð verði nauðsynleg starfsaðstaða.
Loks segir í þessari frétt Morgunblaðsins:
Þeir tveir nýrnasjúklingar, sem komu heim frá London síðastliðinn þriðjudag og ganga undir þessa meðferð, liggja ekki á sjúkrahúsinu. Hver einstök gerfinýrameðferð stendur yfir í um það bil sjö klukkustundir og er gert ráð fyrir að hvor sjúklingur gangi undir slíka meðferð tvisvar í viku. Sjúklingurinn kemur í spítalann að morgni til, en fer síðan heim til sín að kvöldi til.
Sjúklingarnir tveir sem greint er frá hér að framan voru 23 ára kona og 33 ára karl sem bæði þjáðust af nýrnabilun á lokastigi og gekkst konan undir fyrstu blóðskilunarmeðferðina sem heppnaðist vel.
Þór Halldórsson hélt aftur til Lundar í október til að halda áfram sérnámi sínu í nýrnalækningum og tók Páll Ásmundsson við af honum. Hafði þá fengist samþykki fyrir stöðu nýrnalæknis við lyflækningadeild Landspítala og hlaut Páll starfið. Hann hafði stundað sérnám í nýrnalækningum við Georgetown-háskólasjúkrahúsið í Washington-borg í Bandaríkjunum og var fyrstur til að hljóta sérfræðiviðurkenningu í lyflækningum og nýrnalækningum á Íslandi. Það féll því Páli í skaut að byggja upp nýrnaþjónustu Landspítala en árum saman var hann eini nýrnalæknirinn og var síðar ráðinn fyrsti yfirlæknir nýrnalækninga við spítalann. Þór átti hins vegar ekki kost á starfi við nýrnalækningar hérlendis að loknu námi og sneri hann sér að öldrunarlækningum þar sem hann vann brautryðjendastarf.
Mikilvægt þótti að finna gott íslenskt orð yfir dialysis sem í fyrstu kallaðist gervinýrameðferð. Páll Ásmundsson lagði til orðið skilun og voru skilunaraðferðirnar tvær því nefndar blóðskilun og kviðskilun. Þessi orð festu sig smám saman í sessi.
Blóðskilunarvélin sem fengin var að láni var frá fyrirtækinu Gambro í Lundi. Í kjölfarið voru fest kaup á vélinni en hún var meðal fyrstu gerða Gambro-blóðskilunarvéla og mun hafa verið sú fyrsta sem fyrirtækið seldi úr landi. Vélin var vel á annan metra há og einnota skilunarhylkið (gervinýrað) vó 7,5 kg en það var af svokallaðri plötugerð þar sem mörg lög af himnum og plastþynnum mynduðu tvö hólf aðskilin af hálfgegndræpri himnu úr kúprófani. Vélin dældi blóði frá sjúklingi um annað hólf skilunarhylkisins og skilunarvökva um hitt hólfið. Skilun byggist á því að um hálfgegndræpu himnuna flytjast efni niður þéttnihalla úr blóði yfir í skilunarvökvann eða öfugt. Þannig flytjast úrgangsefni frá blóði yfir í skilunarvökvann og berast burt með honum. Skilunarvökvinn var blandaður í 300 lítra plasttanki fyrir hverja blóðskilun og svo var tankurinn þveginn vandlega á eftir. Stöðug þróun í blóðskilunarbúnaði átti sér stað næstu áratugi með aukinni sjálfvirkni í vélbúnaði sem hin síðari ár hefur haldist í hendur við ört vaxandi tölvutækni. Skilunarhylkin hafa orðið virkari jafnframt því sem þau hafa minnkað mikið og vega nú aðeins 105-150 grömm.
Saga blóðskilunarmeðferðar nær aftur til fimmta áratugar síðustu aldar. Fyrsta nothæfa gervinýrað var sett saman árið 1943 af hollenska lækninum Willem Kolff og tveimur árum síðar tókst honum að framkvæma fyrstu árangursríku blóðskilunarmeðferðina á sjúklingi með nýrnabilun. Árið 1947 kynnti áðurnefndur Nils Alwall þróaðra blóðskilunartæki sem bauð upp á bæði skilun og örsíun vökva. Skortur á varanlegu aðgengi að æðakerfi sjúklinga hamlaði þó meðferð til langframa. Bandaríski læknirinn Belding Scribner leysti þennan vanda árið 1960 með því að þróa útvortis æðaskammhlaup úr teflóni sem við hann var kennt og þar með var lagður grunnur að árangursríkri meðferð við lokastigsnýrnabilun. Nokkrum árum síðar var kynntur til sögunnar slagæðar- og bláæðarfistill (arterio-venous fistula), myndaður með skurðaðgerð, sem lengst af hefur verið algengasta tegund æðaaðgengis fyrir blóðskilun.
Blóðskilunarmeðferð hafði verið að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum í liðlega áratug áður en fyrsta meðferðin var veitt hér á landi. En þótt aðrar þjóðir stæðu okkur Íslendingum framar, var framboð skilunarmeðferðar mjög takmarkað á þessum árum vegna ónógs tækjakosts, auk þess sem hver meðferð var mjög tímafrek. Því áttu ekki nærri allir sem á þurftu að halda kost á þessari lífsbjargandi meðferð. Sums staðar höfðu sérstakar nefndir það hlutverk að velja sjúklinga til meðferðar og fól það í sér ákvörðun um líf eða dauða fyrir hlutaðeigandi einstaklinga.
Fyrsta blóðskilunarmeðferðin á Landspítala markaði upphaf nýrnalækninga sem sérgreinar í læknisfræði á Íslandi. Á þeirri hálfu öld sem síðan er liðin hafa náðst stórir áfangar í viðureigninni við nýrnabilun. Í desember 1970 var fyrst grætt nýra í Íslending og var það sama konan og gekkst undir fyrstu blóðskilunarmeðferðina. Ígræðsluaðgerðin fór fram á sjúkrahúsi í London og nýrað sem konan fékk frá bróður sínum starfar enn með ágætum. Árið 1985 hófst kviðskilun sem meðferðarúrræði við lokastigsnýrnabilun. Loks var framkvæmd ígræðsla nýra frá lifandi gjafa í fyrsta sinn á Landspítala árið 2003 og frá látnum gjafa árið 2019. Á Landspítala er í dag veitt alhliða þjónusta vegna nýrnasjúkdóma, auk umfangsmikillar kennslu og blómlegrar vísindastarfsemi. Óhætt er að segja að vonir og væntingar frumkvöðlanna hafi ræst og gott betur.
Heimildir
1. Ásmundsson P, Pálsson R. Meðferð við lokastigsnýrnabilun á Íslandi 1968-1997. Læknablaðið 1999; 85:9-24.
2. Ásmundsson P. Upphaf nútímanýrnalækninga á Íslandi. Læknablaðið 2018; 104:422-425.
3. Frá skrifstofu ríkisspítalanna, „Landspítalinn fær gerfinýra að láni frá Lundi.“ Morgunblaðið, 17. ágúst 1968. https://timarit.is/page/1396098, október 2024.