11. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Læknablaðið í 110 ár. Ecclampsia - leiftur. Þóra Steingrímsdóttir
Læknablaðið 1915; 4:52-53
Matthías Einarsson: Ecclampsia gravidarum
[…]
1). R. L., 30 ára gömul kona hefir fætt tvisvar, bæði skiftin hefir fæðingin verið mjög erfið, varað í 2 – 3 sólarhringa, og börnin fæðst andvana. Hún hefir aldrei fengið krampa.
24. okt. 1913 kom eg til sjúklingsins, var hún þá með mikinn bjúg um allan líkamann, eggjahvítu í þvaginu, Esbach 3 p.m. Morguninn eftir var hún búin að fá höfuðverk, um hádegið fékk hún fyrsta krampakastið, og hálfri klukkustund síðar annað. Þá fékk hún inj. Morph., 0.015; klukkustund síðar fékk hún þriðja krampakastið, og þá þegar klysma með 2 gr. chloral. Síðan fær hún með þriggja stunda milli bili á víxl 0.015 morph., og 2 gr. af chloral. Um hádegi næsta dag fór að brydda hríðum og lét eg þá strjála meðalgjafir þannig, að 4 – 6 stundir liðu á milli.
27. okt um hádegi fór legvatnið, var hún þá full-greidd, en höfuðið ekki búið að festa sig, en um nónbil sama dag fær hún tvö vond krampaköst með hálfrar stundar millibili. Þá var hert á meðalagjöfinni, gefið sem fyr með þriggja stunda millibili. Kl. 10 um kvöldið er höfuðið orðið fast, en stendur nokkuð hátt, og næsta morgun er ástandið sama, þá er í chloroform narc. lögð töng, lifandi sveinbarn. Placenta sjálfkrafa. Meðalagjöfinni haldið áfram til kvölds.
2). J. J., 48 ára gömlu kona, hafði átt barn fyrir 10 árum síðan, og var það tekið með töngum. Síðastliðna viku hefir hún legið rúmföst með mikinn bjúg í öllum kroppnum, og eggjahvítu í þvaginu. Fékk fyrst mikinn bjúg i öllum kroppnum, og eggjahvítu í þvaginu. Fékk fyrst solutio salisylat. natrico –coff., síðan mixt. acetat. kal., og dig. dialysatum en það hafði engin áhrif. Þann 7. jan. 1915 sýnir Esback 6 p.m. Sólarhringsþvag 3/4 lítra. Sama Kvöld um kl. 6, byrjuðu nokkuð snarpar hríðir, og rétt á eftir fékk hún krampakast. Hún fékk þá þegar inj. morph., 0.02. Tveim stundum síðar fékk hún annað krampakast, og þegar í stað klysma með 2 gr. chloral. Þriðja krampakastið fékk hún um miðnætti, og var það vægara. Meðalagjöfinni var haldið áfram með þriggja stunda millibili næstu tvo sólarhringa. En að kvöldi hins 9. er farið að strjála meðalagjöfina. Undir morgun næsta dag harðna hríðirnar, og hún fæðir sjálfkrafa lifandi meybarn um hádegið.
Allan tímann frá því að fyrst inj. var gefin, þar til fæðingin var afstaðin, lágu sjúklingarnir í móki, og vöknuðu aðeins öðruhvoru til þess að drekka og kasta af sér þvagi. Þeim virtist líða vel og vera þjáningalausir ; náttúrulega bar dálítið á óróa á undan krampaköstunum. Diuresis óx og albumen-kvantum og bjúgur minkaði eftir því sem nær dró fæðingunni, (svo ekki virðist það benda á að þetta sé mjög skaðlegt fyrir nýrun, eins og sumir hafa ætlað).
[…]
Eg minnist sjúklings, sem líkt var ástatt um fyrir 8 árum síðan. Hún fékk líka krampana áður en nokkrar hríðir byrjuðu ; þá víkkaði eg cervix, og lagði inn „ballon“ eftir þeirra tíma sið, náði öðru barninu lifandi (tvíburar), en hinu látnu, kramparnir héldu jafnt áfram eftir fæðinguna, og konan dó.
Við meðferðina á jafn-alvarlegri og jafn-lítt viðráðanlegri veiki og ecclampsia er, er gott að hafa einhvera fasta reglu að fylgja, einkum í byrjun veikinnar, og þá ekki sízt-reglu, sem gefst eins vel og raun varð á í þessum tveimur dæmum.
Eklampsía – Leiftur
Þóra Steingrímsdóttir, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, prófessor emerita
Matthías Einarsson (1879-1948), læknir í Reykjavík, skrifaði stutta en innihaldsríka grein í fyrsta tölublað Læknablaðsins árið 1915 um eklampsíu (burðarmálskrampa). Hann segir frá þremur sjúkratilfellum, sem hann hafði sjálfur meðhöndlað. Þau voru dramatísk og honum var umhugað um að koma nýrri vitneskju til kolleganna um þetta lífshættulega ástand. Hann lýsir lyfjameðferð, úr smiðju Rússans Stroganoff, með morfíni og klórali, skammtastærðir og tíðni lyfjagjafa eru tilteknar og meðferðinni skal fram haldið þótt krömpum linni.
Á þessum tíma var mönnum orðið ljóst að lækningin væri fólgin í því að meðgöngunni lyki, með fæðingu barns og fylgju. Matthías lýsir því hve staðan þyngist þegar eklampsían verður áður en hríðir hefjast; þá er lengra í hina náttúrulegu lækningu, og aðferðir til að ljúka meðgöngu, gangsetning eða keisaraskurður voru ekki nærtækar á þeim tíma. Matthías vissi líka að þótt fæðingin gæti orðið lækning, þá kæmi batinn ekki undireins fram, og enn í dag gerum við ráð fyrir að hættan á eklampsíu, í svæsnum tilvikum preeklampsíu (meðgöngueitrunar), líði ekki hjá fyrr en þrem til fjórum sólarhringum eftir fæðingu.
Það varð ekki fyrr en nokkrum árum seinna að notkun magnesíum súlfats (MgSO4) breiddist út sem örugg og árangursrík meðferð, og er það efnasamband reyndar enn í dag fyrsta val og þýðingarmesta lyfið þegar við meðhöndlum og fyrirbyggjum eklampsíu. Auk tilkomu magnesíum súlfats eru framfarir síðustu aldar annars vegar fólgnar í fyrirbyggjandi meðferð, aðallega þeirri að ljúka meðgöngu hjá áhættukonum með framköllun fæðingar eða keisaraskurði, og hins vegar í gjörgæslu- og blóðþrýstingsmeðferðinni, sem og nýbura- og fyrirburagjörgæslu. Fyrirbyggjandi meðferðin hefur án efa forðað margri þungaðri konunni frá krömpum, en nú finnst okkur að eklampsíurnar, sem við sjáum nú til dags, komi svolítið aftan að okkur; við erum búin að ljúka meðgöngu hjá þeim sem hafa dæmigerð hægt versnandi einkenni og teikn preeklampsíu en eftir standa þær sem veikjast svo leifturhratt að ekki verður vörnum við komið. Sannarlega ber sjúkdómurinn þá nafn með rentu, en eklampsía er gríska frekar en latína og merkir elding, leiftur, blossi eða hróp. Eklampsía hefur fengið íslenska heitið burðarmálskrampi og preeklampsia heitið meðgöngueitrun. Augljóst er af grísk-latnesku heitunum að annað er forstig hins og freistandi er í pistli sem þessum að halda sig við aldagamla útlensku.
Hjá síðustu konunni sem Matthías segir frá, var sótt ekki hafin og hann brá á það ráð að framkalla fæðingu, með því að hann „víkkaði [eg] cervix, og lagði inn „ballon“…“. Þessi lýsing fangar athygli fæðingalæknis samstundis, af því að þessar gömlu mekanísku gangsetningaraðferðir lögðust af með tilkomu prostaglandína og samdráttarlyfja á síðustu öld, en eru nú tíðkaðar á ný í fæðingalækningum nútímans.
Í sjúkratilfellunum þremur komu við sögu þrjár konur og alls sjö börn þeirra; ein kvennanna dó og þrjú barnanna. Preeklampsía og eklampsía eru enn algeng og mikilvæg orsök mæðradauða og burðarmálsdauða í heiminum, en í okkar heimshluta er dauði af völdum þessara sjúkdóma orðinn sjaldgæfur. Í nýlegri samantekt í BS ritgerð Sunnevu Roinesdóttur við læknadeild HÍ kemur fram að 30-40 konur hafa greinst með eklampsíu á landinu frá árinu 1982; engin kona hefur látist af hennar völdum, og öll börnin fæddust lifandi og náðu að minnsta kosti sjö daga aldri.
Matthías lýsir klínískri mynd svæsinnar preeklampsíu og eklampsíu, miklum bjúg um allan líkamann og krömpum; höfuðverk; hann mælir eggjahvítu í þvagi á Esbach- kvarða. Hann getur ekki um kviðverki (epigastrial) og hvorki um blóðþrýstingsmælingar né heldur mat á sinaviðbrögðum (hyperreflexía), enda sennilega löngu seinna sem hið síðastnefnda kemur til sögunnar. Á þessum tíma var heiminum að verða ljóst að um háþrýstingssjúkdóma var að ræða en blóðþrýstingsmælingar „bedside“ í heimahúsi þó líklega sjaldséðar.
Til gamans má geta þess að sú sem þetta ritar er sonardóttir yngsta bróður Matthíasar, fædd áratug eftir lát hans, en er eins og nærri má geta alin upp við frásagnir af dugnaði hans, ósérhlífni, lítillæti, færni og manngæsku. Það var mér því ljúft að verða við beiðni ritstjóra Læknablaðsins um að skrifa þennan pistil og spegla aldargamla grein afabróður míns.
Heimildir:
A Historical Overview of Preeclampsia-Eclampsia [pdf-skjal] National Institute of health. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2951301/pdf/nihms219432.pdf
Roinesdóttir, S.. (2023). Burðarmálskrampar á Íslandi. Klínísk, tölfræðileg lýsing á tímabilinu 1982-2022 á Landspítala. [Bakkalárritgerð, Háskóli Íslands]. Skemman. https://skemman.is/handle/1946/44224
Geirsson, R. T., Arngrimsson, R., Apalset, E., et.al. (1994). Falling population incidence of eclampsia. A case-control study of short term.
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/8042457/