11. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen
Fyrsta doktorsvörn meðal íslenskra bráðalækna og fyrsti læknirinn sem ver doktorsritgerð innan innkirtlafræðinnar við Háskóla Íslands
Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen varði doktorsritgerð sína „Afleiðing heilahristings hjá íþróttakonum – möguleg vanstarfsemi í heiladingli og áhrif á andlega líðan og taugasálfræðilega virkni,“ þann 17. október síðastliðinn. Leiðbeinendur hennar voru Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor og umsjónakennari, og Ragnar Bjarnason prófessor, bæði við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd hennar voru einnig María K. Jónsdóttir og Hafrún Kristjánsdóttir, prófessorar við Háskólann í Reykjavík, og Sigrún Helga Lund við Háskóla Íslands. Andmælendur voru Ulla Feldt-Rasmussen, prófessor emeritus við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, og Per Dahlqvist, dósent við Umeå Universitet í Svíþjóð.
Ritgerðin fjallar um langvarandi áhrif heilahristings hjá íþróttakonum og mögulega vanstarfsemi heiladinguls í kjölfar heilahristings.
Lára lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2016.
Almennar upplýsingar um ritgerðina
Heilahristingur og þá sérstaklega langvarandi áhrif heilahristings hefur undanfarið fengið síaukna athygli. Vanstarfsemi í heiladingli er ein af mögulegum afleiðingum heilahristings en flestar rannsóknir um þetta viðfangsefni hafa verið gerðar á körlum þrátt fyrir að nýgengi heilahristings sé hærra hjá konum og bataferlið sé lengra.
Markmiðið með rannsóknarverkefninu var því að meta algengi og finna mögulega forspárþætti fyrir vanstarfsemi í heiladingli eftir heilahristing hjá íþróttakonum. Að auki voru taugasálfræðileg frammistaða, andleg líðan og lífsgæði skoðuð og borin saman á milli íþróttakvenna með vanstarfsemi í heiladingli eftir heilahristing og íþróttakvenna með eðlilega starfsemi heila-dinguls eftir heilahristing. Samkvæmt bestu vitund höfunda er rannsóknin sú fyrsta sem fjallar um algengi vanstarfsemi í heiladingli, taugasálfræðilega frammistöðu, andlega líðan og lífsgæði íþróttakvenna sem hafa fengið heilahristing og hefur því verulegt vísindalegt gildi.
Eftir ítarlega hormónauppvinnslu greindust 12,2% íþróttakvenna með vanstarfsemi í heiladingli eftir heilahristing. Yngri konur og konur með aukin einkenni heilahristings voru líklegri til þess að vera með skimunarblóðprufur utan viðmiðunarmarka. Niðurstöður taugasálfræðilegra prófa bentu til áhrifa á getu til að viðhalda athygli eða á hömlur hjá konum með vanstarfsemi í heiladingli eftir heilahristing. Ekki var marktækur munur á andlegri líðan eða lífsgæðum á milli íþróttakvenna með vanstarfemi í heiladingli og þeirra sem voru með eðlilega heiladingulsstarfsemi eftir heilahristing.
Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika mikilvægi þess að meta starfsemi heiladinguls eftir heilahristing þar sem talsverður fjöldi íþróttakvenna reyndist vera með vanstarfsemi í heiladingli eftir heilahristing.
Hvað segir nýdoktorinn?
Afhverju vildir þú verða læknir?
Ég fékk snemma innsýn í störf heilbrigðisstarfsmanna í gegnum móður mína sem er læknir og föður minn sem er sjúkraflutningamaður. Eftir menntaskóla var því stefnan tekin á læknisfræði.
Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?
Erfiðleikastigið í doktorsnáminu er mjög sveiflukennt. Grunnerfiðleikastigið myndi ég segja að væri í kringum 4-5 en svo koma álagstímar þar sem álagið fer alveg upp í 10. Doktorsnámið hefur samt verið mjög lærdómsríkt og það hefur verið gaman að líta um öxl og sjá hvað maður er búinn að læra ótrúlega mikið á þessum tíma.
Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?
Ég myndi vilja fara yfir meðferðarúrræði einstaklinga sem eru að glíma við langvarandi einkenni eftir heilahristing. Heimilislæknar og sjúkraþjálfarar eru fyrstu meðferðaraðilar einstaklinga sem hafa fengið heilahristing, auk þess sem Grensás og Reykjalundur hafa sinnt þessari endurhæfingu vel. Víða erlendis eru hinsvegar stofnanir sem sérhæfa sig í meðferð heilahristings með áherslu á íþróttafólk svo það geti snúið aftur í sína íþrótt á sem öruggastan hátt. Það væri gaman að geta boðið upp á svona úrræði á Íslandi.
Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?
Skemmtilegast er auðvitað að slæpast með manninum mínum og dætrum okkar. Ég hreyfi mig líka mikið og finnst mjög gaman að prjóna. Allir doktorsnemar ættu að læra að prjóna því það er frábær leið til að róa hugann þegar erfiðleikastigið er komið upp í 10.