11. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

BRÉF TIL BLAÐSINS. Vitundarvakning um sýklalyfjaónæmi og ný aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi alþjóðlegt vandamál og ein stærsta heilbrigðisógnin sem heimurinn stendur frammi fyrir. Raunveruleg hætta er á að í framtíðinni verði hvorki hægt að meðhöndla einfaldar né alvarlegar sýkingar með sýklalyfjum. Þetta hefði alvarlegar heilsufars- og efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðir heims. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst því yfir að sýklalyfja-ónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðji að mannkyni í dag og alþjóðastofnanir hafa lagt vaxandi áherslu á aðgerðir til að sporna við útbreiðslu þess.

Þótt hlutfall ónæmra baktería hjá mönnum sé enn lágt á Íslandi miðað við flest önnur lönd, þá fjölgar ónæmum bakteríum hér eins og annars staðar.1 Því er mikilvægt að vera á verði og spyrna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með viðeigandi og víðtækum aðgerðum.

Hérlendis var skipaður starfshópur um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería fyrir tveimur árum. Starfshópurinn skilaði tillögum að aðgerðaáætlun í byrjun ársins og í ágúst undirrituðu þrír ráðherrar aðgerðaáætlun Íslands gegn sýklalyfjaónæmi. Áætlunin nær til áranna 2025-2029 og inniheldur sex aðgerðir og kostnaðarmat við framkvæmd þeirra alls 24 markmiða og 75 verkefna sem áætlunin byggir á.2

Þær sex aðgerðir sem aðgerðaáætlunin byggir á eru:

 

  1.  Stuðla að markvissri og skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum.
  2.  Takmarka útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með upplýsingagjöf, fræðslu og forvörnum.
  3.  Bæta þekkingu á sýklalyfjaónæmi með vöktun og vísindarannsóknum.
  4.  Hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með íhlutandi aðgerðum.
  5.  Auka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi.
  6.  Tryggja samhæfingu og stjórn aðgerða gegn sýklalyfjaónæmi til framtíðar.

 

Aðgerðaáætlunin byggir á hugmyndafræði „Einnar heilsu“ (One Health) og felur því í sér aðgerðir sem snerta menn, dýr, matvæli og umhverfi. Meginþungi áætlunarinnar varðar aðgerðir sem stuðla að bættri notkun sýklalyfja. Notkun Íslendinga á sýklalyfjum fyrir menn er meiri en hjá öðrum Norðurlandaþjóðum en er í meðallagi miðað við lönd ESB/EES. Notkunin fyrir dýr hérlendis er hins vegar ein sú minnsta í allri Evrópu.2

Nú þegar er vinna hafin við ýmis verkefni sem tilgreind eru í áætluninni en til að koma öllum verkefnum í framkvæmd á árunum 2025-2029 er áætlað að þörf sé á rúmlega 1200 milljónum króna til viðbótar. Stefnt er að því að sem flestum verkefnum verði hrint í framkvæmd á tilgreindum tíma og þeim tryggt nauðsynlegt fjármagn. Gert er ráð fyrir að öll verkefni og kostnaður vegna þeirra verði endurmetin minnst árlega á gildistíma áætlunarinnar.

Innan ramma EU4Health hefur ESB veitt fjármunum til baráttunnar gegn sýklalyfjaónæmi en Ísland er meðal þrjátíu Evrópulanda sem taka þátt í EU--JAMRAI 2 verkefninu (European Joint Action on Antimicrobial Resistance and Healthcare Associated Infections-2). Sóttvarnalæknir leiðir vinnuna á Íslandi en markmið EU-JAMRAI 2 er að innleiða skilvirkar aðgerðir gegn sýklalyfja-ónæmi hjá fólki, í dýrum, í matvælum og umhverfi. Verkefnið nær til áranna 2024-2027 og skiptist í vinnupakka um sýklalyfjagæslu, sýkingavarnir, vöktun, aðgengi að sýklalyfjum og vitundarvakningu um sýklalyfjaónæmi. Auk þess styður sérstakur vinnupakki við landsbundnar aðgerðaáætlanir gegn sýklalyfjaónæmi.

Þann 26. september síðastliðinn var samþykkt á 79. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sameiginleg pólitísk yfirlýsing um sýklalyfjaónæmi sem fól í sér hvatningu og skuldbindingu aðildarþjóða um skýr markmið og aðgerðir til að hindra útbreiðslu sýklalyfjaónæmis en árið 2019 var árlegur fjöldi dauðsfalla sem tengdist sýklalyfjaónæmum bakteríum áætlaður um 4,95 milljónir manna á heimsvísu. Meðal markmiða er að öll lönd hafi sett fram og hafið innleiðingu á landsbundnum og þverfaglegum aðgerðaáætlunum um sýklalyfjaónæmi fyrir árið 2030.

Aðeins með markvissum og víðtækum aðgerðum ásamt eftirfylgni verður mögulegt að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

 

Heimildir

1. Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2023. Skýrsla unnin í samstarfi við Lyfjastofnun, Landspítala, Matvælastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Umhverfisstofnun. Ritstjóri: Anna Margrét Halldórsdóttir. Rafræn útg.:
Embætti landlæknis - sóttvarnalæknir. September 2024. https://island.is/syklalyfjaanaemi-og-syklalyfjanotkun/skyrslur.

2. Aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Heilbrigðisráðuneytið. Júlí 2024. https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2024/08/09/Adgerdaaaetlun-gegn-utbreidslu-syklalyfjaonaemis/

 

 

Á þessu ári staðfesti ríkisstjórnin aðgerðaráætlun til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi.2



Þetta vefsvæði byggir á Eplica