10. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Læknablaðið 1915: Insufficientia cordis relativa chronica. Hjartabilun þá og nú

Eg hygg, að insuff. cordis relativa chron. sé nokkuð tíðari heldur en alment er álitið, einkanlega mun henni ekki vera veitt nægileg eftirtekt, þegar hún er á lágu stigi, þótt þá sé ef til vill helzt hægt eitthvað að gera við henni. Það eru líka mjög mismunandi kröfur, sem menn gera til þreks hjartans. Aflraunamaðurinn er kröfuharðari en t. d. skrifari. Merð öðrum orðum, til þess að cor. geti kallast sufficiens, verður srtarfsþol þess að svara til þeirrar áreynslu, sem hver maður leggur á sig. Það verður að hafa nægan vara-kraft. Þoli nú hjartað ekki þá áreynslu, sem annars er samboðin líkamsvexti og þreki, þá er um insufficienta relat. að ræða, sé ekki svo langt komið, að komin sé insufficientia a b s o l u t a […] Meðferð. Fyrst og fremst er að hugsa um að insuff. verði ekki absoluta. Stafi hjartanu hætta af sjúkleik annara líffæra, þá er að lækna þau, ef þess er kostur. Hjartanu verður að forða frá allri ofraun, hvort sem hún stafar af sjúkd., líkaml. eða andl. erfiði, óhófi í mat eða drykk, tóbaki, kaffi, geðshræringum eða exress. sexual. H j a r t a ð v e r ð u r a ð f á h v í l d. Specifik hjartameðöl koma ekki að miklum notum. Þó nota margir í viðlögum inf. fol. digit 1–280, nota það þá venjulega stöðugt í langan tíma, en hafa gát á eitrunareinkennum. Að öðru leyti er notuð fysiotherapi. Sjúkl. er fyrst látinn liggja í rúminu nokkrar vikur, síðan notuð kolsýruböð, rafmagn, ljóslækning, sjúkraleikfimi eða nudd. Áreynslan er smám saman aukin eftir þoli hvers sjúklings.


Það hefur verið áhugaverður fyrirlesturinn um hjartabilun sem Jón Kristjánsson flutti á fundi Læknafélags Reykjavíkur 11. október 1915 og sem greinin í Læknablaðinu byggir á, enda hefur Jón verið nýlega heim kominn eftir dvöl við Finsens Institut. Það er merkilegt að sjá að hann byrjar á að tala um að sennilega sé sjúkdómurinn vangreindur, einkum á fyrri stigum, og má færa rök fyrir því að svo sé enn í dag, þrátt fyrir allar framfarir í greiningatækni og þá yfirgripsmiklu þekkingu sem við búum yfir í dag.

Skilgreiningin á hjartabilun sem sett er fram í greininni gengur út frá því að styrkur og þrek hjartans ráði ekki við þá áreynslu sem því er ætlað að standa undir. Greinarmunur er gerður á hvort hjartabilunin er hlutfallsleg eða alger (absoluta). Það má skynja tilraun með þessari skilgreiningu til tengingar við sjúkdómsmeinafræðina sem fjallað er um í næsta kafla í grein Jóns og raunar er hún ekki svo fjarri þeirri skilgreiningu sem stuðst hefur verið við fram til þessa.

Eftir því sem skilningur okkar á undirliggjandi áhættuþáttum, sjúkdómum og lífeðlisfræðilegum ferlum sem liggja að baki hjartabilunar hefur aukist, hefur skilgreining orðið flóknari. Í dag byggir greiningin þannig ekki einvörðungu á einkennum og teiknum, heldur þarf að liggja fyrir staðfesting á skertri hjartastarfsemi, hvort heldur er í hvíld eða við áreynslu.

Jón fjallar einnig um orsakir hjartabilunar og gerir þar allnokkuð úr álagi á hjarta, hvort heldur það er tengt sýkingum í öðrum líffærakerfum, eins og lungum og meltingarvegi, eða hverslags andlegu álagi. Hann nefnir „exress.sexual“ og dettur mér í hug að ósæðarlokuleki af völdum sárasóttar liggi að baki, en það kann að vera langsótt. Offita og áfengisdrykkja er orsök hjartabilunar, en síður snapsar en bjór. Greinilega höfðu læknar á þessum tímapunti dregið þá ályktun að það væri vökvamagnið fremur en áfengið sem ylli vandanum. Sjúkdómar í sjálfu hjartanu, eins og til að mynda kransæðasjúkdómur, æðaþelsbólga, hjartavöðvabólga eða gollurshússjúkdómur, koma nokkuð aftarlega í upptalningunni.

Það er athyglivert að menn gera sér vel grein fyrir að nýrnasjúkdómur og háþrýstingur sé algeng orsök hjartabilunar, en töldu hins vegar að háþrýstingur væri oftast orsakaður af nýrnasjúkdómi. Raunar má leiða líkur að því að oft hafi verið erfitt að greina á milli hvort hjarta- eða nýrnasjúkdómur lægi að baki bjúgsöfnunar og þreytu.

Síðan fylgir greinargóð lýsing á einkennum og kvörtunum sjúklings við hjartabilun og má til sanns vegar færa að sú framsetning stenst ágætlega tímans tönn, en þó blandast þar inn einkenni sem lýsa fremur hjartaöng en vökvaofhleðslu. Jón er víðsýnn og varar við að dæma sjúklinga sem taugaveiklaða, enda þótt einkennin séu lítil og óljós til að byrja með. Fyrir utan mæði, bjúg og orkuleysi, lýsir hann einkennum eins og lifrarbjúg, meltingartruflunum, megrun og bláma við áreynslu. Hjartahlustun kveður hann fremur gagnslausa til greiningar.

Það má til sanns vegar færa að mikil framþróun hefur orðið í greiningartækni hjartabilunar, þar sem ekki er lengur einvörðungu stuðst við sjúkrasögu og skoðun. Mestu framfarirnar urðu með tilkomu hjartaómskoðunar sem hefur þróast gríðarlega og gerir kleift að leggja mat á flesta þætti hjartastarfseminnar. Einnig getur segulómun af hjarta veitt viðbótarupplýsingar, meðal annars um bólgur, drep, ífarandi sjúkdóma, útstreymisbrot og fleira, að ógleymdum hjartaþræðingum og öðrum lífeðlisfræðilegum athugunum og myndgreiningu.

Ekki voru digrir meðferðarmöguleikar í boði á þessum tíma. Áhersla var lögð á að forða hjartanu frá allri ofraun, hvað svo sem henni olli, með rúmlegu og hvíld, endurhæfingu ásamt óhefðbundnari lækningum með ljósum, kolsýruböðum og rafmagni. Eina lyfið sem hægt var að grípa til var digitalis. Í dag höfum við yfir að ráða fjölþættri og gagnreyndri meðferð með ACE-hemlum, beta-hindrurum, aldósterón-hemlum, ARNI (valsartan/sakubitril), SGLT2-hemlum, þvagræsilyfjum, tvíslegla gang-og bjargráðum og ef allt um þrýtur ígræðslu hjálparhjarta eða gjafahjarta.

Eftir stendur mikilvægi endurhæfingar og þverfaglegra göngu-deilda, en fjöldi einstaklinga sem lifa með hjartabilun eykst ár frá ári með viðeigandi álagi á heilbrigðiskerfið og skerðingu á lífsgæðum. Þannig hlýtur markmið okkar að vera að hindra tilkomu hjartabilunar með öflugri meðferð áhættuþátta eins og háþrýstings, sykursýki, hreyfingaleysis og offitu, en þar er kannski mestan ávinninginn að finna.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica