10. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Læknablaðið í 110 ár. Frumkvöðlar í læknastétt. Orthopedic medicine – stoðkerfisfræði á Íslandi. Jón Steinar Jónsson
Árið 1984 tók Jósep Ó. Blöndal læknir við stöðu yfirlæknis við heilsugæslustöðina og sjúkrahúsið á Patreksfirði eftir að hafa lokið læknanámi í Kaupmannahöfn og sérfræðinámi í almennum skurðlækningum í Svíþjóð. Eins og tíðkaðist á þeim tíma starfaði hann, eins og flestir skurðlæknar á litlum sjúkrahúsum á landsbyggðinni einnig sem heilsugæslulæknir. Stoðkerfisverkir eru eitt algengasta tilefni komu til heilsugæslulækna. Jósep áttaði sig snemma á því að kunnátta hans við greiningu og meðferð stoðkerfisverkja almennt, var takmörkuð og hafði áhuga á að læra meira um hreyfikerfi og stoðkerfi mannsins. Hann hafði vitað af störfum breska læknisins James Cyriax sem hafði skrifað merkar, brautryðjandi bækur um stoðkerfisfræði (orthopedic medicine), sem fyrst voru gefnar út á fæðingarári Jóseps 1947. Í aðdraganda þeirrar útgáfu hafði Cyriax unnið markvisst að þróun stoðkerfisfræði í 10-15 ár og er af mörgum talinn helsti frumkvöðull á þessu sviði og aðferðir hans sérstaklega varðandi sjúkdómsgreiningu, taldar hafa staðist vel tímans tönn.
Jósep komst í samband við Patricia (Patsy) Cyriax ekkju James Cyriax, en hann lést árið 1985. Hún bauð Jósep að koma til London og þar var hann næstu árin, með hléum í þjálfun og námi á sjúkraþjálfunardeild St. Thomas‘ Hospital og St. Andrews‘ Hospital, en einnig hjá sérfræðingi í stoðkerfisfræði í Harley Street. Hann sótti öll námskeið Cyriax Foundation (CF) í London og lauk þaðan diplomaprófi 1989 og kennaraprófi í stoðkerfisfræði. Í kjölfarið kom hann um tíma að kennslu við stofnunina.
Eftir því sem undirritaður kemst næst var Jósep þannig fyrsti læknirinn á Íslandi til að ljúka svo viðamiklu, formlegu námi í stoðkerfisfræði og mun vera fyrstur til að halda fyrirlestur á Íslandi um stoðkerfisfræði fyrir sjúkraþjálfara og lækna árið 1991. Á þessum tíma voru frumkvöðlar í nágrannalöndunum sem ruddu þar braut fyrir stoðkerfisfræði og stuðluðu að aukinni þekkingu, betri þjálfun, rannsóknum og þróun á greiningu og meðferð.
Jósep réðst sem yfirlæknir við St. Franciskuspítalann (SFS) í Stykkishólmi árið 1990. Honum var þá löngu orðin ljós sú brýna þörf sem var fyrir bætta þekkingu fagfólks í stoðkerfisfræði og fjölbreyttari úrræði fyrir sjúklinga með stoðkerfisverki, sérstaklega verki frá hálsi og baki. Með sína þekkingu og þjálfun í stoðkerfisfræði og skýra hugsjón að vopni hófst hann handa við að byggja upp Háls- og bakdeild við St. Franciskuspítalann í Stykkishólmi ásamt Luciu de Korte yfirsjúkraþjálfara á spítalanum, auk þess sem hann hófst handa við að koma á laggirnar námskeiðum fyrir fagfólk í stoðkerfisfræði.
Þekkingu miðlað –
námskeið í stoðkerfisfræði
Það dugði ekki Jósep að hafa náð sér í staðgóða þekkingu og þjálfun í stoðkerfisfræði sem nýttist honum vel í daglegum störfum, heldur sá hann þörfina fyrir að miðla af þekkingu sinni og annarra til íslenskra lækna og sjúkraþjálfara. Af mikilli elju stóð Jósep fyrir árlegum námskeiðum, samtals í átta ár, í stoðkerfisfræði fyrir lækna og sjúkraþjálfara á tíunda áratug síðustu aldar. Skipuleggjendur og kennarar námskeiðanna voru frá Cyriax stofnuninni í London (CF), ásamt Jósep sjálfum. Námskeiðin sóttu samtals um það bil 200 læknar og sjúkraþjálfarar en þau voru haldin í íþróttahúsinu í Stykkishólmi við nokkuð góðar aðstæður þar sem þrautreynt kennaralið skilaði mjög öflugri fræðslu og þjálfun. Jósep hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni að í aukinni samvinnu sjúkraþjálfara og lækna felist mikil tækifæri til að bæta þjónustu og ná betri árangri við greiningu og meðferð sjúklinga með stoðkerfisvandamál. En slík samvinna var einmitt leiðarljós Cyriax-stofnunarinnar í London. Undirritaður leyfir sér að fullyrða að Stykkishólmsnámskeiðin hafi aukið þekkingu og færni þeirra sem þau sóttu, á stoðkerfisfræði, og það hafi leitt til betri og markvissari þjónustu við skjólstæðinga þeirra með stoðkerfisvandamál.
Ný meðferðarúrræði –
Háls- og bakdeildin í Stykkishólmi
Með viðamikla þekkingu og eldmóð að vopni, ásamt hagstæðum aðstæðum á SFS sá Jósep tækifæri til að byggja upp meðferðarúrræði fyrir sjúklinga með verki og vandamál tengda hryggsúlu. Deildin á SFS var stofnuð árið 1992 og var hún frá byrjun byggð á teymisvinnu læknis, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðinga (þar á meðal geðhjúkrunarfræðings) og sjúkraliða. Fyrirmynd starfseminnar var í upphafi sótt til San Francisco Spine Institute (SFSI) sem á þeim tíma var leiðandi í meðferð háls- og bakvanda. Grunnstef í starfi deildarinnar var mikið og náið samstarf Jóseps og sjúkraþjálfara deildarinnar sem hafa flestir unnið lengi á deildinni, öðlast mikla reynslu og tekið virkan þátt í þróun starfseminnar. Leiðarljós og kjarni í stoðkerfisfræði er að greina eins vel og auðið er hina raunverulegu orsök fyrir verk sjúklingsins, fyrst og fremst með sögu og markvissri klínískri skoðun. Það leiðarljós hefur einkennt starfsemi deildarinnar alla tíð og til viðbótar við klíníska skoðun hefur þróast og byggst upp þekking og færni í ómskoðun á vöðvum í hryggsúlu, sem byggðist á mikilvægum rannsóknum og reynslu frá Queensland University í Brisbane. Sprautuverk, sem staðbundin verkjameðferð, aðallega í bogaliði hryggjar hefur verið hluti af aðferðum deildarinnar. Þessi samsetning nákvæmrar greiningar, markvissrar meðferðar og staðbundinnar verkjameðferðar með það að markmiði að minnka verki, sérstaklega meðan sjúklingar stunda þjálfun og æfingar á deildinni, hefur einkennt starfsemina. Aðferðir deildarinnar hafa í gegnum árin þróast í takt við nýja þekkingu sem Jósep og hans samstarfsfólk hefur tileinkað sér, þar sem víðtækt tengslanet erlendis hefur skipt miklu máli.
Erlent tengslanet
Þekkingarleit Jóseps í stoðkerfisfræði, sérstaklega með áherslu á háls- og bakvandamál er fjölbreytt og viðmikil og hefur skapað grunn að þróun starfsemi Háls- og bakdeildar, svo og fyrir fræðslu til almennings og fagfólks. Hann hefur verið virkur meðlimur í International Spine Intervention Society og American Association of Orthopedic Medicine, sótt námskeið og námsdvalir hjá leiðandi fagfólki á sviði stoðkerfisfræði beggja vegna Atlantsála og í Ástralíu. Jósep hefur lengi haft mikinn áhuga á eðli bakverkja, orsökum og áhættuþáttum ekki síst út frá mannfræðilegum og þróunarfræðilegum þáttum. Á því sviði hefur hann einnig verið í alþjóðlegu samstarfi, sérstaklega við prófessor Robert T. Anderson mannfræðing í Kaliforníu.
Fræðsla til almennings
Jósep hefur verið óþreytandi að fjalla um og miðla af þekkingu sinni á verkjum tengdum hryggsúlu, bæði í ræðu, riti og viðtölum sérstaklega með áherslu á fræðslu til almennings, lesenda og hlustenda fjölmiðla, bæði hérlendis og erlendis.
Rannsóknir á hryggsúlu
Röntgenrannsóknir á hryggsúlu hafa þróast mjög mikið á undanförnum áratugum með tilkomu sneiðmynda og segulómrannsókna. Slíkar rannsóknir á hryggsúlu eru notaðar í miklum mæli og sennilega ofnotaðar. Jósep er einn þeirra lækna sem lengi og ötullega hefur bent á takmarkað gagn af þessum rannsóknum í eins miklum mæli og raun ber vitni, svo og hættuna á að niðurstöður þeirra geti jafnvel verið til ógagns. Röntgenrannsóknir af hryggsúlu geta ekki komið í stað markvissrar sjúkrasögu og klínískrar skoðunar og í dag tengist þessi umræða nálgun eins og „Choosing Wisely“ – Viturt val, verkefni sem mörg læknafélög á Vesturlöndum standa að, svo og því sem kallað er sjálfbærni í heilbrigðisþjónustu.
Framtíð stoðkerfisfræði á Íslandi
– enn skal ryðja braut
Stoðkerfisverkir eru og munu verða stórt viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar en rannsóknir benda til að fimmti hver fullorðinn glími við langvinna verki, oftast í stoðkerfi og mjög oft tengda hryggsúlu. Bráðir, hálfbráðir verkir og endurteknir verkir eru mjög algeng viðfangsefni, ekki síst í heilsugæslu. Haldgóð þekking og þjálfun lækna, sérstaklega heimilislækna svo og sjúkraþjálfara, í stoðkerfisfræði en einnig aukin samvinna þessara fagstétta, eru mikilvæg forsenda fyrir bættum árangri í greiningu og meðferð stoðkerfisverkja. Þverfagleg meðferðarúrræði af fjölbreyttum toga, sérstaklega þegar um er að ræða langvinna og endurtekna verki, er mikilvægt að halda áfram að þróa hér á landi, ekki síst með áherslu á snemmtæka íhlutun. Háls- og bakdeildin í Stykkishólmi hefur haslað sér völl sem afar mikilvægur hlekkur í meðferð, þjálfun og endurhæfingu einstaklinga með langvinna verki frá hálsi og baki. Með ævistarfi sínu hefur Jósep Blöndal sannarlega rutt braut stoðkerfisfræði með fræðslu til almennings, þjálfun fagfólks og uppbyggingu mikilvægs meðferðarúrræðis og þannig skapað jarðveg til áframhaldandi þróunar stoðkerfisfræði á Íslandi. Þann jarðveg þarf að yrkja vel og efla enn frekar kennslu í stoðkerfisfræði bæði í grunnnámi í Læknadeild og í sérnámi, sérstaklega í heimilislækningum, en einnig að stuðla að áframhaldandi tilvist og þróun á Háls- og bakdeild SFS.