10. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Bóluefnin björguðu mannslífum í Evrópu í COVID-19 faraldrinum
Nýlega birt rannsókn
COVID-19 bóluefnin fækkuðu dauðsföllum af völdum COVID-19 um 60% samkvæmt nýlegri rannsókn sem 34 af 54 Evrópuríkjum tóku þátt í. Rannsóknin leiddi í ljós að þau 2,2 milljón COVID-19 dauðsföll, sem vitað er um á Evrópusvæðinu, hefðu orðið allt að 4 milljónir án bólusetninganna. Er þetta í samræmi við aðrar fyrri rannsóknir en nær yfir lengra tímabil.
Á tímabilinu desember 2020 til mars 2023, meðal 25 ára og eldri, er áætlað að COVID-19 bóluefnin hafi bjargað 1,6 milljónum mannslífa (bil 1,5-1,7 milljónum). Flestum mannslífum var bjargað á tímabilinu þegar Omicron-afbrigðið var ríkjandi, frá desember 2021 til mars 2023. Mikill meirihluti voru 60 ára eða eldri, eða 96%, og 52% voru 80 ára eða eldri, en þetta eru þeir aldurshópar sem eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum og dauða af völdum COVID-19.
Rannsóknin var birt 7. ágúst síðastliðinn í tímaritinu The Lancet Respiratory Medicine og var samstarf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og stofnana í 34 Evrópuríkjum, löndum og svæðum.
Sex aldurshópar voru skoðaðir (25-49 ára, 50-59 ára, ≥60 ára, 60–69 ára, 70-79 ára og ≥80 ára). Þátttökuþjóðir þurftu að hafa greint frá bæði COVID-19 bólusetningum og dánartíðni fyrir að minnsta kosti ≥60 ára eða nánar eftir eldri aldurshópunum og skilað vikulegum gögnum eftir aldri fyrir lágmark 90% tímabilsins. Prósentulækkun á fjölda dauðsfalla sem búast mátti við miðað við tilkynnt dauðsföll var reiknuð.
Á Íslandi komu COVID-19 bóluefnin í veg fyrir 542 dauðsföll á þessu 2,5 ára tímabili samkvæmt rannsókninni og meirihluti þeirra hefði verið í aldurshópnum eldri en 60 ára. Bólusetning-ar fækkuðu því dauðsföllum vegna COVID-19 um 70% hérlendis.
Í löndum þar sem bólusetningaráætlanir voru innleiddar snemma í faraldrinum og náðu til stórs hluta 60 ára og eldri varð hvað mestur ávinningur í fjölda mannslífa bjargað. Þetta á við Ísland og einnig Belgíu, Danmörku, Írland, Ísrael, Möltu, Holland og Bretland. Í þessum ríkjum varð fækkun meiri en 60%.
Taflan sýnir þau tíu ríki þar sem mest fækkun var á dauðsföllum meðal 25 ára og eldri.
Gagnsemi og öryggi bólusetninga
Almennar bólusetningar koma í veg fyrir 3,5 til 5 milljónir dauðsfalla af völdum sjúkdóma eins og barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mislinga á hverju ári á heimsvísu. Auk þess að koma í veg fyrir dauðsföll vernda bólusetningar gegn veikindum og alvarlegum fylgikvillum sjúkdóma, svo sem lungnabólgu, heilabólgu, blindu, heyrnarleysi og fleira.
Áður en bóluefni eru tekin í notkun undirgangast þau viðamiklar og strangar rannsóknir hjá mörg þúsund einstaklingum varðandi öryggi og árangur. Áfram er síðan fylgst náið með hugsanlegum aukaverkunum eftir að bóluefni eru tekin í notkun. Milljónum bólusetninga er því fylgt eftir við raunverulegar aðstæður til að finna mjög sjaldgæfar aukaverkanir. Niðurstöður slíkra rannsókna hafa sýnt að alvarlegar aukaverkanir bóluefna sem notuð eru í almennum bólusetningum eru afskaplega fátíðar. Með ónógri þátttöku í bólusetningum er hins vegar hætta á að smit breiðist út.
Framundan
Við erum nú komin út úr COVID-19 heimsfaraldrinum, en SARS-CoV-2 heldur áfram að smita fólk og leiða til sjúkrahúsinnlagna og dauðsfalla í Evrópu og heiminum.
WHO hvetur ríki til að halda áfram COVID-19 bólusetningum fyrir viðkvæma hópa og hvetur einstaklinga í áhættuhópum til að þiggja uppfært COVID-19 bóluefni nú í haust. Sömu ráðleggingar eiga við hérlendis.
Heimildir
1. Meslé MM, Brown J, Mook P, et al. Estimated number of lives directly saved by COVID-19 vaccination programmes in the WHO European Region from December, 2020, to March, 2023: a retrospective surveillance study. The Lancet Respiratory Medicine, 12(9), 714-727.
2. Meslé MM, Brown J, Mook P, et al. Estimated number of deaths directly averted in people 60 years and older as a result of COVID-19 vaccination in the WHO European Region, December 2020 to November 2021. Eurosurveillance, 2021;26(47), 2101021.
3. Ehreth, J. The value of vaccination: a global perspective. Vaccine, 21(27-30), 4105-4117.
4. WHO: https://www.who.int/health-topics/vaccines-and-immunization#tab=tab_1, sótt 18. sept, 2024.