09. tbl. 110. árg. 2024

Ritstjórnargrein

#ADHD

Elvar Daníelsson geðlæknir | yfirlæknir Geðheilsuteymis Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins - ADHD fullorðinna

10.17992/lbl.2024.09.802

Lengi hefur það verið á huldu hvert algengi athyglis-brests og ofvirkni (ensk skammstöfun: ADHD) sé í raun hér á Íslandi og því ber að fagna þeirri grein sem birtist hér í Læknablaðinu þar sem reynt er að kasta ljósi á þá spurningu með eins nákvæmum hætti og mögulegt er.

Í umræðum fagaðila á mismunandi vettvangi kemur skýrt fram mismunandi afstaða til þess hvað sé ADHD og hvað ekki. Allt frá því að ADHD sé oftar en ekki frumástæða birtingarmyndar hinna ýmsu annarra geðraskana, að í grunninn sé vandinn oftar en ekki vangreint ADHD, yfir í þá skoðun að ADHD sé verulega sjaldgæf röskun og þegar það sé til staðar fari það ekkert á milli mála strax frá fyrstu stund og jafnvel ekki þörf á lengra en 4 mínútna viðtali til að setja greininguna. Einhversstaðar á rófinu milli þessarra tveggja öfga gerum við ráð fyrir að sannleikurinn liggi.

Þegar ríflega 20% drengja og karla hafa á einhverjum tíma tekið ADHD-lyf, ávísað af lækni, má gera ráð fyrir því að greiningin ADHD hafi verið sett áður en lyfjameðferð hófst. Eins og höfundar greinarinnar benda á, taka þessar tölur ekki með þá sem greinst hafa með ADHD og ekki farið á lyf eða fengið greiningu hjá sálfræðingi og eru að bíða eftir viðtali hjá geðlækni, og má því gera ráð fyrir að hlutfallið sé eitthvað hærra. Þá styttist óhugnanlega í að ADHD verði ekki frávikið.

Það er mat undirritaðs að ADHD sé verulega ofgreint og ofmeðhöndlað hér á landi og niðurstöður þessarar rannsóknar renna enn frekari stoðum undir það mat. Ásókn í greiningarferli er enn gríðarleg og mikill þrýstingur á að greiningar séu unnar hraðar og afköst aukin. Eftirlit og eftirfylgd með hæfnikröfum og vinnubrögðum greiningar- og meðferðaraðila hefur verið lítil sem engin og því í raun ekkert gæðaeftirlit með þeim greiningum sem settar hafa verið og/eða meðferð sem hafin hefur verið.

Það er ljóst að málaflokkurinn, greining og meðferð ADHD á Íslandi, er kominn í óefni og því þörf á ærlegri uppstokkun í því kerfi sem sinna ber greiningum og meðferð ADHD. Það getur verið stór umbylting á lífsgæðum fyrir einstakling með ADHD að fá greiningu og rétta meðferð og málaflokkurinn því gríðarlega mikilvægur. Við þurfum hins vegar að tryggja að við greiningarvinnu sé klínískum leiðbeiningum Landlæknis fylgt, að greiningarvinna sé ítarleg og þverfagleg ásamt því að greiningaraðilar séu með reynslu og hæfni til að framkvæma slíkar greiningar.

Ennfremur þurfum við, fagaðilar sem komum að málaflokknum, að hafa uppbyggileg og leiðréttandi áhrif á umræðu í almennu rými um hvað ADHD er en ekki síður hvað sé ekki ADHD. Ég leyfi mér að fullyrða að engin röskun/sjúkdómur fær eins mikla umfjöllun á netmiðlum og samfélagsmiðlum og ADHD, oft umfjöllun þar sem vankunnáttan er allsráðandi þó vissulega leynist gullmolar innan um rykið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica