09. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Úr sögu Læknablaðsins. Broytingatíðir og önnur færeyska

110 árgangar þriðja elsta tímarits landsmanna skannaðir1985-1994

Árið 1985 verða þau tímamót í sögu Læknablaðsins að þar er fyrsta konan ráðin til starfa, en fram að því hafði engin kona starfað þar eða setið í ritstjórn blaðsins. Og það var engin venjuleg kona heldur Birna Þórðardóttir, sem starfaði við blaðið fram yfir aldamót. Hún hafði starfað á skrifstofu Læknafélags Íslands um nokkurt skeið en var þarna ráðin sem ritstjóri Fréttabréfs lækna. Þessi ráðning var í anda þeirrar jafnréttisbaráttu sem var í gangi á þessum tíma, Vigdís forseti og Kvennaframboð og -listi á fullu, allt að gerast.

En læknafélögin höfðu þó ekki látið glepjast af þessari nýjung, ef svo má að orði komast. Það var ekki bara í ritstjórn blaðsins sem konur voru fjarverandi. Í fundargerð af aðalfundi LÍ árið 1985 eru taldir upp ótal karlar sem skipuðu forystusveit samtakanna. Þar má finna eina konu, Vilhelmínu Haraldsdóttur, sem hafði náð kjöri sem varafulltrúi á aðalfundi LÍ. Árið eftir er önnur kona varafulltrúi á aðalfundi, Bergþóra Sigurðardóttir frá Vestfjörðum, og árið 1987 eru hvorki fleiri né færri en tvær konur fulltrúar á formannaráðstefnu, önnur frá heimilislæknum og hin frá unglæknum. Það ár gerast svo undur og stórmerki: Katrín Fjeldsted skrifar leiðara um heilsugæsluna í Læknablaðið, fyrst kvenna.

Þarna var lestin hrokkin af stað. Nú gegna konur embættum ritstjóra og ritstjórnarfulltrúa og fimm af sjö ritnefndarmönnum eru konur. Auk þess má nefna að bæði formaður og framkvæmdastjóri LÍ eru konur.

Útlenskan á undanhaldi

Þarna er Örn Bjarnason kominn á fullan skrið í uppbyggingarstarfi sínu á blaðinu. Eitt af hans hjartans málum er að leggja af útlenskuna sem hefur verið mjög áberandi í málfari Læknablaðsins. Orðanefnd er sett á laggirnar og tekur strax til við að setja saman orðabók fyrir lækna. Þar er valin sú athyglisverða leið að gefa hana út í litlum heftum, byrjað á bókstafnum A sem kemur út sumarið 1986, en þá kemur fram að höfundarnir séu komnir í H. Tveimur árum síðar er búið að gefa út N og O.

Árangurinn af þessu orðastarfi lætur ekki á sér standa. Þannig er strax árið 1986 búið að útrýma öllum útlendum sjúkdómaheitum úr fyrirsögnum greina blaðsins, utan hvað þau eru sums staðar birt í svigum til skýringar. Af og til birtast þemahefti um tiltekin málefni, að fylgiritum ónefndum. Lokahefti ársins 1985 fjallar allt um upplýsingamiðlun í læknisfræði og þar er upplýst að ritstjórn hafi ákveðið að taka upp ritrýni á greinum sem blaðið birtir. Með þeirri ákvörðun má segja að sjötugt blaðið sé loks komið á fullorðinsaldur. Þá má nefna sérrit um siðamál lækna sem allt er eftir Örn Bjarnason ritstjóra, alls 80 blaðsíður.

Færeysk mjaðmaskipti

Ekki er þó allt efni blaðsins á íslensku. Til dæmis birtast á fyrstu árum þess áratugs sem hér er undir tvær greinar á færeysku samkvæmt samkomulagi ritstjórnar við samtök færeyskra lækna. Fjallar önnur um „keikingu í albogaliðum“ sem er „eitt omdøme um ein sjúkratilburð“ og hin um „mjadnaallopiastikur“ sem mun vera færeyskt nafn á mjaðmarliðaskiptum.

Önnur erlend áhrif koma við sögu og stafa af samstarfinu við danska lækna. Sitthvað vill skolast til í samskiptum blaðsins við fjarstadda prentara sem virðast ekki alltaf skilja fyrirmælin ofan af Íslandi, samanber þessa afsökunarbeiðni:

„Lesendur Læknablaðsins hafa eflaust tekið eftir hinum ótrúlegustu ævintýrum varðandi myndir og myndatexta í nokkrum undanförnum tölublöðum og sem engan enda virðast ætla að taka. Hefur ýmist verið farið rangt með nöfn manna eða myndir speglast og myndatexti því orðið lítt marktækur. Um leið og við hörmum þá meðferð sem ýmsir hafa mátt þola vonum við að einhverjir hafi kannski getað haft lúmskt gaman af.“

Hringborð og heimsóknir

Með því að ráðnir eru blaðamenn til starfa við blaðið fara að birtast þættir sem ekki hafa áður verið á dagskrá. Sem dæmi má nefna að efnt er til hringborðsumræðna þar sem kallaðir eru til læknar og utanbúðarmenn til að ræða mikilvæg málefni. Þær fyrstu fjölluðu um tölvur og þagnarskyldu þar sem þrír læknar og tveir menn úr Tölvunefnd, forvera Persónuverndar, ræddu hina nýju tækni. Þá ber að nefna hringborð um svonefnda Appleton-yfirlýsingu sem birt er í blaðinu árið 1989, en í henni er fjallað um það hvenær láta megi hjá líða að veita læknisfræðilega meðferð. Það merkir með öðrum orðum hvenær hætta eigi meðferð og veita jafnvel dánaraðstoð. Í framhaldi af þessari umfjöllun birtast fleiri greinar um líknardauða og dauðahugtakið.

Einnig eru blaðamenn sendir í heimsóknir til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og lýsa því sem fyrir augu ber, hvort sem það er á Akureyri, Egilsstöðum eða Akranesi.

Fleiri nýjungum er bryddað upp á. Í janúarblaðinu 1987 eru birt erindi sem flutt voru á aðalfundi LÍ um samskipti lækna við almannatryggingar, heilbrigðis-stefnu og spáð í atvinnuhorfur fyrir íslenska lækna fram til ársins 2010. Heilbrigðismál eru skiljanlega oft á dagskrá í aðsendum greinum lækna og fjallað um þau frá ýmsum hliðum.

Gróska í fræðigreinum

Fræðigreinar blaðsins fjalla eins og fyrri daginn um helstu kvilla sem landsmenn glíma við. Þar eru að sjálfsögðu ýmsar nýjungar, eyðni eða alnæmi koma þar fyrst við sögu árið 1990, kannabis er tekið til kostanna og fjallað um eitranir af völdum ólöglegra ávana- og fíkniefna. Ólíkt því sem nú er raunin, geta læknar fjallað um undanhald klamydíu og annarra kynsjúkdóma. Á þessum árum er starfsemi Hjartaverndar líka farin að bera árangur og kemur við sögu í mörgum greinum.

Í þessum pistli er ekkert fjallað um Fréttabréf lækna og heldur ekki um fylgiritin, enda nóg við að vera í Læknablaðinu sjálfu sem tútnar út á þessum árum. Árið 1985 eru blaðsíðurnar í 10 tölublöðum alls 378 og hefur fjölgað talsvert. En þegar líður á áratuginn fer síðufjöldinn upp fyrir 400 bls. Árið 1990 fer það fyrst yfir 500 síður og síðasti árgangurinn 1994 upp í 610 blaðsíður. Þarna eru auglýsingasíður ekki taldar með og fræðigreinar eru oftast sex til átta að tölu.

Ritgerðir, golf og heimflutningur

En það er fleira en fræðigreinar á síðum blaðsins. Í tilefni af 75 ára afmæli blaðsins árið 1989 og til heiðurs stofnanda blaðsins, Guðmundi Hannessyni, er efnt til ritgerðasamkeppni um efnið Mannvist í þéttbýli. Þar hlaut Trausti Valsson arkitekt fyrstu verðlaun, 250.000 kr., en þrjár konur skiptu með sér 2. verðlaunum, Sigrún Helgadóttir kennari og líffræðingur og arkitektarnir Bergljót Sigríður Einarsdóttir og Margrét Þormar. Eru báðar ritgerðirnar birtar í 7. tbl. þess árs.

Tómstundir lækna ber einnig á góma. Í 1. tölublaði ársins 1988 birtist greinin „Upphaf golfs á Íslandi“ eftir Ragnheiði Guðmundsdóttur. Þar segir frá því að það hafi verið læknarnir Gunnlaugur Einarsson og Valtýr Albertsson sem áttu frumkvæðið að stofnun Golfklúbbs Íslands árið 1934 með þátttöku, að mér sýnist, tveggja verðandi forseta landsins. Nafnið breyttist í Golfklúbbur Reykjavíkur þegar klúbbum fór að fjölga. Og það var ekki tvínónað við neitt, stofnfundur haldinn í desember 1934, kennsla hefst í janúar 1935, í byrjun maí sama ár er búið að gera golfvöll og reisa klúbbhús í Austurhlíðarlandi þar sem klúbburinn hefur keypt 6 hektara land, nokkurn veginn þar sem Veðurstofan er núna.

 

Á sviði fræðigreina er einn höfundur öðrum tíðari gestur á þessum áratug og skrifar einkum um vinnuvernd og krankleika ýmissa starfsstétta. Sá heitir Vilhjálmur Rafnsson og dettur inn í ritstjórnina árið 1987. Á lokaári þessa áratugar verður hann ritstjóri þegar Örn hættir og í grein sem hann birtir í ágúst 1994 tilkynnir hann að nú sé Danmerkurævintýri blaðsins lokið, prentunin flutt í Kópavoginn og Fréttabréfið sameinað Læknablaðinu. Þar með lýkur þessum áratug og annar tekur við í næsta blaði.

Í tilefni af 75 ára afmæli Læknablaðsins var tekinn upp sá siður að birta ljósmyndir af verkum íslenskra myndlistarmanna á forstíðu blaðsins og stóð sú hefð í aldrafjórðung eða svo. Meðal verkanna sem prýddu forsíður fyrsta áratugarins voru bæði stórmeistarar á borð við Kjarval og verk ungra listamanna sem voru að kveða sér hljóðs. Þessi mynd er eftir Tolla og ber heitið Jól undir rauðum mána.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica