04. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín. Svo lengi lærir sem lifir. Haukur Hjaltason taugalæknir
Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?
Vogaskóli og MS, gekk 13 ár sömu leið í skólann. Hvað ef ég hefði átt heima í sveit? Hefði ég þá orðið bóndi eða mjólkurbílstjóri? Tæpast smiður en kannski málari. Foreldrar mínir fluttu á mölina úr sveitum Suðurlands. Pabbi varð olíubílstjóri, mamma rak heimilið ásamt ýmsu öðru. Hvert átti ég að stefna? Las mikið af allskonar og andlegu efni á menntaskólaárunum enda voru þá eftir-hippa tímar, jóga, Guðspekifélagið og annað í þeim anda. Árni móðurbróðir var nýburalæknir í Sviss; vissulega hugsaði ég um læknisfræði í menntaskóla en sálfræðinám í HÍ varð lokaniðurstaða.
Árin sem fylgdu hef ég stundum kallað „golden years of university“. Sálfræði er hóll á milli raungreina og hugvísinda sem er hollt og gott að standa á og litast um. Í náminu tók ég ýmis hliðarspor og sat námskeið í heimspeki, stjórnmálafræði og mannfræði, innritaði mig í þau mörg, sagði mig svo bara frá prófi ef ég taldi mig tæpan. Féll í mannfræði, gleymdi að segja mig úr prófinu. Heimspekin hafði kannski mest áhrif á mig með frábærum kennurum: Páli Skúlasyni, Þorsteini Gylfasyni, Mike Marlies (Mikael Marlies Karlssyni), og ekki síst Arnóri Hannibalssyni, þeim gefandi og fjölfróða manni. Ekki að sálfræðikennararnir væru síðri, Sigurjón Björnsson, Erlendur Haraldsson, Jón Torfi Jónasson, og ekki síst Magnús Kristjánsson. Hvað þessir kennarar lögðu inn á minn þekkingarreikning! Og hafa þó margir góðir kennarar gert slíkt hið sama fyrr og síðar.
Áður en annað ár sálfræðinnar hófst haustið ´79 var ég vaklandi um framhaldið þrátt fyrir að hafa staðið mig vel! Byrjaði í læknisfræði eins og Ernir Snorrason, þá taugasálfræðingur á Grensásdeild. Eftir þrjár vikur hvarf ég aftur til sálfræðinnar en Ernir hélt áfram. Auk þess að vera læknanemi kenndi Ernir taugasálfræði (með sínum hætti) á 2. ári sálfræðinnar. Þar hittumst við aftur og úr varð einhver taugagaldur í huga mínum sem hafði leiðandi áhrif á starfsval mitt síðar.
Eftir BA í sálfræði hafði ég fullan hug á framhaldsnámi, sérstaklega í Bandaríkjunum. Ég stóð á hól og virti fyrir mér tauga-, sálar-, og hugfræðivísindi (information processing), jafnvel tölvusálfræði (artificial intelligence/computer simulation). Á þessum tíma, um 1980, var mikil gróska í þessum fræðum og, ekki síst í Bandaríkjunum, boðið upp á námsleiðir sem voru samsuða þeirra og skyldra greina. En, ég var áfram hikandi. Vann í framhaldinu á geðdeild Landspítala í tæpt ár, lærði þar margt umfram það sem ég lærði síðar. Svo, haustið ´82, byrjaði ég aftur í læknisfræði og hélt nú áfram. Ákvörðunin var öllu heldur að fara í taugalækningar og þrátt fyrir skemmtilegar og áhugaverðar aðrar greinar í náminu breytti það engu um áform mín. Gunnar Guðmundsson prófessor var í leyfi þegar kom að taugakúrsus á fimmta ári og því leiddi Sverrir Bergmann kennsluna, og það gerði hann vel.
Að læknanámi mínu loknu var Þóra mín á förum til Uppsala í framhaldsnám í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum. Hvað gerir maður annað en að fylgja Þóru? Úr varð kandídatsár í Uppsölum og nágrenni; við bjuggum þar næstu tíu árin, ´88-´98. Afrek okkar Þóru voru nokkur á þessum áratug; dæturnar þrjár, sérnám okkar beggja og tvær doktorsritgerðir. Svo eignuðumst við líka vini fyrir lífstíð. Að kandídatsári loknu var ekki pláss að fá á taugadeild á Akademíska sjúkrahúsinu í Uppsölum og því hringdi ég í Lennart Grimby klíníkchef á taugadeildinni á Karolinska í Stokkhólmi. Jú, þangað var ég velkominn (hann réð mig í fyrsta símtali (hvorki CV né meðmælabréf) og segir það nú sitthvað um orðspor íslenskra fyrirrennara minna á þeim stað). Þangað fór ég og ferðaðist milli Uppsala og Stokkhólms næstu átta árin, daglegur ferðatími tæpir tveir tímar í lest, og svo hjól á báðum stöðum. Það sem íslenskir læknar leggja á sig! Margir íslenskir taugalæknar eiga Grimby og hans fólki á taugadeild Karolinska mikið að þakka. Grimby er heiðursfélagi Taugalæknafélags Íslands. Góður maður og læknir svo vægt sé til orða tekið. Áður en ég steig fæti inn á Karolinska í júní ´90 hitti ég Richard Tegnér taugalækni þar á bæ. Á þeim fundi var ákveðið að hann myndi handleiða mig í doktorsnámi sem ég lauk svo ´97. Hann hafði doktorerað í neuropatíu tengdri nýrnabilun en ákveðið að skipta yfir í taugasálfræðilegar rannsóknir, nefnilega unilateral (hemispatial) neglect eða gaumstol eins og það heitir á íslensku. Richard hafði ekki mörg orð um hlutina en hann var sannarlega mikilvægur áhrifavaldur í mínu rannsókna- og háskólastarfi. Gaumstol flokkast sem taugasálfræðileg truflun (eins og málstol) og mér fannst á þessum tímapunkti að nú væri ég búinn bæði með framhaldsnámið í sálfræði og læknisfræði!
Bara svo þið vitið, þá hélt mitt sérnám áfram eftir að ég kom heim til Íslands sem taugalæknir. Svo lengi lærir sem lifir. Sjúklingar og félagar mínir taugalæknar (sumir af mínum bestu vinum) hafa viðhaldið og aukið þekkingu mína. Takk Karolinska fyrir að taka við ungum læknum frá okkur, takk fyrir að ég hef alltaf fengið að tala við ykkur þegar mig hefur vantað ráð. Persónuleg tengsl við lærifeður og öflugar stofnanir utan Íslands skipta meira máli en margur hyggur.