12. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín: röntgenlækningar. Lengi má sneiða. Birna Jónsdóttir
Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?
Þegar ég lauk námi í læknadeild Háskóla Íslands langaði mig mest að fara aðra umferð, því allt hafði mér þótt skemmtilegt að læra. Þar var einn kennari sem ég öfundaði af vinnuaðstöðu sinni. Sá var Kolbeinn Kristófersson, sérfræðingur í geislalækningum.
Röntgenlæknir er þátttakandi í greiningarvinnu langflestra annarra sérgreina. Við eigum mest samskipti við aðra lækna en minni við sjúklingana sjálfa.
Þegar kom að því að velja námsstað valdi ég Uppsali í Svíþjóð. Svíar stóðu framarlega í röntgen og í Uppsölum voru á þessum tíma tugir íslenskra unglækna í sérnámi. Við grínuðumst með það að á midsommar væri Akademiska Sjukhuset rekið af Íslendingum.
Vísindavinna var hluti af sérnáminu og allir tóku þátt. Rannsóknarverkefni mitt var mat og meðferð á lifrarmetastösum.
Miklar framfarir urðu á námstíma mínum 1980-1985, tölvuöld reið í garð og ein af fyrstu segulómsjám á Norðurlöndum var sett upp í Uppsölum. Þarna var ég svo heppin að hafa frábæran kennara í tölvusneiðmyndatækni, Anders Magnusson. Undir hans handleiðslu lærði ég að keyra tækin sjálf.
Þegar heim kom fór ég að vinna á Borgarspítalanum. Þar var meðal annarra góður kennari, Kristján Sigurjónsson, einkum miðlaði hann vel samskiptum við bæði samstarfsfólk og sjúklinga. Komin heim bjóst ég við að vinna á Borgarspítalanum þar til ég kæmist á eftirlaun, sú varð þó ekki raunin. Árið 1991 flutti ég mig á Landakot sem var, undir lok tuttugustu aldar, eitt þriggja bráðasjúkrahúsa í Reykjavík sem skiptu með sér vöktum. Hin tvö voru Landspítali Hringbraut og Borgarspítali. Nokkur sérhæfing var milli þessara húsa en öll höfðu almenna lyf- og skurðdeild, rannsókn og röntgen.
Sameiningar sjúkrahúsa fóru af stað undir aldamót þar sem byrjað var á því að leggja niður Landakot. Þarna skapaðist grundvöllur fyrir okkur, fimm sérfræðilækna í myndgreiningu sem sagt var upp, að setja á stofn eigið fyrirtæki. Undir forystu gamla yfirlæknisins okkar, Þorkels Bjarnasonar, varð Röntgen Domus til. Við byrjuðum með röntgentæki, ómsjá, tölvusneiðmyndatæki og ísótópatæki. Tveimur árum seinna bættist við „hin ólöglega“ segulómsjá Domus. Sjúkratryggingar stefndu okkur fyrir að nota gjaldskrá sem þeir höfðu samið við okkur um en ætluðust til að yrði ekki notuð. Við unnum málið.
Um aldamót fékk ég styrk til vísindastarfa og fylgdi fjölskyldunni til Washington DC í Bandaríkjunum. Þar er dásamlegt safn, Smithsonian Institute. Á mannfræðideildinni var tölvusneiðmyndatæki og þarna tók ég að mér að skoða 70 múmíur frá Aljúta-eyjum í Alaska. Um er að ræða gróðursnauðar eldfjallaeyjar, leifar af Barentseiðinu, sem kafteinn Cook sigldi til um miðja átjándu öld og fann þar fyrir 20.000 frumbyggja sem töldu sig vera eina fólkið í heiminum. Niðurstöður úr þessari rannsókn kynnti ég á þingi í múmíufræðum sem haldið var í Nuuk á Grænlandi árið 2002.
Ég seldi hlut minn í Röntgen Domus þegar ég var 67 ára og fór á eftirlaun. Þegar ég lít til baka er ég hæstánægð með sérgreinarvalið. Skemmtilegast var að fylgja þróun tölvusneiðmynda. Hæst ber stofnun Röntgen Domus og þá öðlinga sem þar unnu saman.