12. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Dagur í lífi gigtarlæknis á Reykjalundi. Lovísa Leifsdóttir

06:00 Vakna, kem mér fram úr, set í gang sturtuna og bíð í margar mínútur að því mér finnst allavega, eftir að vatnið hitni sæmilega. Ég er ekki fyrir kaldar sturtur og hef ekki getað tileinkað mér köld böð, mér verður bara svo kalt! Kannski einhvern tímann.

Eftir sturtu er það fyrsti kaffibollinn sem ég nýt í ró og næði, restin af fjölskyldunni ekki vöknuð. Ég renni yfir fjölmiðlana, það er ekki farið að gjósa, ég hef heldur varla fundið fyrir neinum skjálftum síðustu daga hérna í Hafnarfirði, en það var alveg ágætis hristingur hérna fyrir nokkrum dögum, þegar götur og eignir fóru sundur í Grindavík.

06:45 Morgunverkin hefjast, ég vek soninn og svo fljótlega eftir það dótturina.

07:25 Ég legg af stað í vinnuna, í dag er ég á bíl og get því lagt af stað frekar seint.

Lovísa tók þessa mynd af sér þriðjudaginn 21. nóvember 2023,
– og skýjafarið yfir Reykjalundi stillir sér upp og gefur ekkert eftir.

08:00 Dagurinn byrjar á Grensásdeild þar sem er sameiginlegur vikulegur fræðslufundur lækna á Reykjalundi og Grensás. Í dag er Anna Lilja Gísladóttir með fræðslu. Hún er kennslustjóri sérnámslækna í endurhæfingarlækningum og hún fræðir okkur um kennslu og marklýsingu endurhæfingarlæknisfræði á Íslandi.

09:00 Ég keyri upp á Reykjalund. Sólin er að koma upp í austri og það er falleg ljóstýra við sjóndeildarhringinn fyrir utan Grensásdeild.

09:30 Móttaka hefst, ég hitti hluta af þeim sjúklingum sem eru að koma til endurhæfingar á gigtarsvið í þessari viku.

11:00 Teymisfundur gigtarteymis hefst, við tökum stöðuna á þeim sem eru í endurhæfingu á okkar vegum, hverjir eru að koma inn, hverjir eru að útskrifast í vikulok, hvernig hefur gengið, hvort breyta þurfi meðferð einhvers staðar, senda fólk ef til vill í fleiri rannsóknir.

12:15 Teymisfundur dróst aðeins á langinn, hádegishlé fer í útréttingar vegna mála í Svíþjóð, ég missi af Wallenbergare-bollunum í matsalnum.

13:00 Móttaka heldur áfram, ég hitti einn sjúkling til innskriftar í viðbót.

14:00 Pappírsvinna og vottorðaskrif. Ég þarf enn og aftur að leita að vottorði í Sögukerfinu. Man svo að ég er ekki logguð inn á réttum stað, ég kemst ekki inn á öll vottorð í blessuðu kerfinu nema vera logguð inn á heila Reykjalund. Alveg óþarfa flækjustig, finnst mér!

15:30 Ég skýst upp á Miðgarð sem er hjúkrunardeild á Reykjalundi fyrir þá sem þurfa meiri endurhæfingu og aðhlynningu en boðið er upp á á dagdeildunum 8-16, ég er á vaktinni, athuga hvort eitthvað sé sem þurfi að fylgja eftir í kvöld.

16:15 Ég legg af stað heim. Umferðin er verulega treg, það tekur mig alveg um 40 mínútur að komast í Hafnarfjörðinn. Ég hleyp inn í tónlistarskólann og sæki selló sonarins sem skilur það eftir þar eftir tíma þegar hann hjólar beint í fótboltann, kem við í Krónunni.

17:30 Skutla dótturinni í félagsmiðstöðina, sem reyndar þarf yfirleitt ekki. Mér finnst alveg dásamlegt að vera hér í Hafnarfirði þar sem allt er einhvern veginn innan seilingar og í göngufæri, þvílíkur munur frá því sem var í Gautaborg þar sem skutlin gátu verið mjög löng.

18:30 Ég elda mat, sonurinn óskaði eftir því að fá taco, honum verður að ósk sinni.

19:30 Whats-appa við eiginmanninn í Svíþjóð.

Dagur að kveldi kominn og það líður að háttatíma.

Ágætis dagur.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica