12. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Við starfslok. Björn Árdal barnalæknir skrifar

Við starfslok er gaman að rifja upp starfsferilinn. Ég var búinn að vera lengi að. Ég var farinn að sjá þriðja ættlið, hafði séð mömmuna sem barn og ömmuna líka sem barn! Eftir að ég kom heim frá námi í Bandaríkjunum og Kanada réðst ég til starfa á Barnaspítalanum og starfaði þar í ein 34 ár. Þar var mikið af góðu og samviskusömu fólki sem gott var að vinna með. Þar var líka oft léttleiki og góðir húmoristar sem léttu störfin og gerðu þau skemmtilegri. Jafnvel á röntgenfundum var oft hlegið að bröndurum þeirra. Þá heyrðust hlátrasköllin fram á gang á röntgendeildinni og kollegar af öðrum deildum gengu framhjá stofunni og sögðu kímnir á svip: „Þessir barnalæknar!“ Ég var með göngudeild og fékk ég tíma frá kl 9-11 á þriðjudagsmorgnum. Fljótlega fjölgaði bókunum mjög á göngudeildina og einn morguninn þegar ég mætti þar var búið að bóka hjá mér 16 einstaklinga. Þá gafst ég upp, sagði upp hluta af 100% stöðu minni og opnaði stofu úti í bæ.

Ég starfaði á stofu þangað til um síðustu áramót. Lengst af hafði ég ritara, hana Sirrý, sem var frábær, þekkti skjólstæðinga mína og undirbjó tíma minn vel. Ýmislegt skemmtilegt hefur komið uppá. Kona var með ungabarn hjá mér, nokkuð fullorðin til að vera mamman og hélt ég að hún væri amman. Það segir maður að sjálfsögðu ekki og var ég afar varkár. Þegar ég spurði um meðgönguna hló konan og sagðist vera langamman! Hún hafði haft gaman af því hvað ég var varkár. Vinna mín var alltaf áhugaverð og aldrei leiðinleg. Börnin oft afar skemmtileg. Ekki voru þó allir ánægðir með störf mín. Ég ráðlagði fólki sem átti kött að losa sig við hann. Barn þeirra var með ofnæmi fyrir köttum og var oft með einkenni, meira að segja astma af þess völdum. Þau enduðu á að losa sig við köttinn! Nokkru síðar var ég á tónleikum. Í hléi heyrði ég mér til skelfingar sagt með hárri sópranröddu: „Þú þarna kattarmorðinginn þinn“! Þetta var þá afkomandi hennar kattar.

Þegar ég kom til starfa hér heima 1977 var álit margra að astmi og ofnæmi væri fátítt meðal barna á Íslandi. Annað kom í ljós og er tíðni astma og ofnæmis svipað hér á landi og hjá nágrönnum okkar. Tíðni þessara vandamála jókst mjög í lok síðustu aldar en aukningin hefur ekki verið eins mikil síðan.

Það er mikilsvert að barnalæknir komi rétt fram við foreldra. Og eru kollegar mínir upp til hópa góðir í því. Einhvern tíma heyrði ég unglækni segja við móður þegar hún hafði sagt skoðun sína á vandamáli barnsins: „Jæja góða heldurðu það“. Hann vissi ekki að sagt er að mamman viti best og barnalæknar virða alltaf skoðun foreldranna. Auðvitað þarf stundum að leiðrétta málin og útskýra. Oft er starf okkar fyrst og fremst í því fólgið að róa foreldra, til dæmis getur fólk orðið hrætt við mikil útbrot sem eru hættulaus, að maður tali nú ekki um hitakrampa. Þá er fólk oft mjög óttaslegið. Ég sagði stundum við foreldrana að þau væru í meiri hættu af ofsahræðslu en barnið sem fékk krampann. Ég verð að segja að ég skil þessa foreldra vel. Ég vandist aldrei að sjá barn með krampa, mér fannst það alltaf óþægilegt.

Nú er ég hættur störfum og er frjáls eins og fuglinn en sakna samt svolítið starfsins. Ég sný mér þá að öðru í ríkara mæli og talandi um fugla, hef ég gaman af að fylgjast með þeim. Rúsína var svartþrastarkerling sem vandi komur sínar til okkar í sumarbústaðinn. Hún borðaði rúsínur nánast úr lófa, vildi þó frekar að ég setti þær fyrir framan hana. Þegar ég kom í sumarbústaðinn minn mætti hún tístandi og tvívegis elti hún mig inn í hús þegar ég fór að sækja rúsínur. Skógarþröstur sem ég kallaði Orm elti mig upp í móa þegar ég gekk út með skóflu til taka holur fyrir trjáplöntur. Hann tíndi upp ormana sem komu úr holunni og varð ég að vera varkár með skófluna.

Himbrimi, sá magnaði fugl, er í uppáhaldi. Ég var á bátnum mínum að fylgjast með þegar ungi var að fara úr hreiðri. Mávarnir hringsóluðu yfir. Báðir foreldrarnir voru til staðar og fylgdust með mávunum og létu heyrast hátt í sér. Þegar unginn var kominn á vatnið flugu mávarnir í burtu. Þá sneri karlinn sér að mér, buslaði upp á afturendann með gogginn fram. Ég greip árarnar og flúði!

Það er líf eftir starfslok, trjárækt, fuglaskoðun og tónlist, bæði tónleikar og kórsöngur.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica