12. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Íris Kristinsdóttir
Íris Kristinsdóttir varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands þann 27. október 2023. Ritgerðin ber heitið: Sjúkdómar sem fyrirbyggja má með bólusetningum hjá börnum, unglingum og ungu fólki á Íslandi – rótaveira, meningókokkar og inflúensa: Er þörf á umbótum?
Andmælendur voru Hanna Nohynek, yfirlæknir og staðgengill forstöðumanns við Finnish Institute for Health and Welfare í Finnlandi og Nigel Curtis, prófessor og yfirlæknir við Royal Children‘s Hospital Melbourne og Murdoch Research Institute Melbourne. Umsjónarkennari var Ásgeir Haraldsson prófessor, leiðbeinandi var Valtýr Stefánsson Thors, lektor og meðleiðbeinandi var Karl G. Kristinsson prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Magnús Gottfreðsson prófessor og Þórólfur Guðnason sérfræðingur.
Úr ágripinu
Bólusetningar eru á meðal mikilvægustu uppgötvana læknavísindanna. Mikilvægt er að bólusetningarskemu taki mið af framförum í þróun bóluefna og faraldsfræði smitsjúkdóma. Markmið doktorsverkefnisins var að meta þörf á umbótum á bólusetningum barna, unglinga og ungs fólks á Íslandi, með tilliti til rótaveiru, meningókokka og inflúensu. Doktors-verkefnið samanstóð af fjórum rannsóknum.
Doktorinn
Íris Kristinsdóttir er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands. Íris lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2019 og hóf doktorsnám í læknavísindum við HÍ sama ár. Íris starfar sem læknir á Landspítala.
Hvað segir nýdoktorinn?
Af hverju vildir þú verða læknir?
Mig langaði til að starfa við eitthvað þar sem ég gæti látið gott af mér leiða, íhugaði ýmsa möguleika en endaði í læknisfræði.
Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?
Það er nokkuð breytilegt eftir tímabilum, oftast er þetta bæði krefjandi og skemmtilegt, stundum fyrst og fremst skemmtilegt og á köflum aðallega erfitt. Ætli meðaltalið sé ekki um 7.
Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?
Að bæta rótaveirubólusetningum við bólusetningarskemað!
Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?
Bók: When Breath Becomes Air eftir Paul Kalanithi kemur fyrst upp í hugann, mjög fallega skrifuð bók um hverfulleika lífsins.
Þættir: Ég er ekki alveg með puttann á púlsinum hvað þætti varðar en Gilmore Girls hafa verið í uppáhaldi í gegnum tíðina, enda þættir um konur sem elska bækur, tónlist og kaffi (veit þó ekki hversu vel þeir hafa elst). Annars finnst mér gaman að horfa á The Great British Bake Off.
Músík: Best er að hafa tónlistina fjölbreytta en Arctic Monkeys eru uppáhalds. Ég hlusta líka mikið á Bríeti, Gabríel Ólafs og Tame Impala.
Líkamsrækt: Skvass hefur vinninginn þar, ekki spurning.
Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?
Glamra á píanóið, fara á tónleika og sötra kaffi í góðum félagsskap.