12. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Bókin mín. „...En eilíft líf er ekki til, því miður“. Ólafur Skúli Indriðason
Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?
En Magga, ég les eiginlega aldrei neitt, varð mér að orði þegar skorað var á mig. Ja, það er ekki spurt um lestur heldur bækur sagði hún. Og það verður svosum að viðurkennast að bækur hafa spilað hlutverk í mínu lífi. Faðir minn var mikill bókasafnari og hefði hann ekki eytt peningunum í bækur hefði fjölskyldan kannski gert eitthvað annað. En kannski ekki. Mér datt þetta bara í hug þegar ég fór að huxa um bækur. Hann var mjög stoltur af safninu sínu. Sérsmíðaður bókaskápur sem tók yfir nær alla langhliðina í stofunni þótti prýði. Man eftir að hann benti mér einhverntímann á eina hilluna og sagði: hér er ein milljón (sem þótti nokkur peningur í þá daga). Held hann hafi litið á þetta sem ákveðna fjárfestingu og gott að hann var ekki hér þegar við systkinin vorum að ganga frá safni foreldra okkar fyrir tveimur árum.
Ég las reyndar nokkuð mikið í æsku, enda þessi bókaáhugi á mínu heimili. Oft var farið í bókasafnið, Bókamarkaðurinn vinsæll og bækur voru tíðar gjafir. Ég man sérstaklega eftir tveimur bókum frá þessum árum, Tómas miðframherji og Kolskeggur. Tómas var nýr í liðinu og mjög góður í fótbolta en líka góður strákur. Eimreiðin, sem svo var kallaður vegna hraða, var keppinauturinn. Hann lenti í því að drekka gosdrykk í hálfleik og kastaði upp í framhaldinu, gosinu kennt um. Kannski er það þessvegna sem ég hef haft vissan ímugust á gosdrykkjum. Ýtarleg lýsing á hjólhestaspyrnu Tómasar er líka sennilegasta skýringin á að ég hef margoft reynt slíka spyrnu á ferlinum, held ég hafi rifbrotnað í einni slíkri fyrir nokkrum árum. Þeir urðu samt vinir og sigruðu að lokum. Kolskeggur er skemmtileg saga um strák og hest, góð samsetning.
Ég var reyndar alltaf frekar leingi að lesa og tók myndasögubókum því opnum örmum, Ástríks- og Tinnabækurnar þar í uppáhaldi. Sú bók sem ég held þó að hafi haft mest áhrif á mig er Skólaljóðin, bláa bókin sem ég kynntist í 10 ára bekk. Þar er safnað saman vísum og ljóðum eftir marga höfunda og þegar vel er að gáð er um að ræða mörg betri ljóða þeirra. Þarna hreifst ég af hrynjandi og því hvernig myndir og hugsanir eru settar fram í hnitmiðuðu máli. Ekki laust við að ég „…leitaði að ljóði, lærði að smíða stöku“ („Þá var ég ungur“ eftir Örn Arnarson). Mörg af þeim ljóðum sem ég las þarna og lærði hafa fylgt mér síðan.
Í menntó var það svo Steinn Steinarr – Kvæðasafn og greinar, sem fangaði hugann og mikið spáð í ljóð Steins með félögunum. Í framhaldinu hef ég hrifist af ljóðum Hannesar Péturssonar, sem einkennast af einstakri hrynjandi og mýkt, auk annarra skálda. Ljóðin hafa sumsé verið það form bókmennta sem hefur höfðað mest til mín og á náttborðinu eru alltaf einhverjar ljóðabækur (auk Skólaljóðanna). Ég fékk nær allar ljóðabækurnar úr safni foreldra minna og gríp ég af og til bók úr skápnum og les ljóð af handahófi. Þeim fylgir líka lyktin úr stofunni í Barmahlíð sem vekur ýmis hughrif. Úr því safni eru nú á náttborðinu meðal annars skáldkonurnar Halla frá Laugabóli og Erla, skil ekki alveg hversvegna þær náðu ekki inn í Skólaljóðin, en það er annað mál.
Jónas og Jón Helgason eru þarna reyndar líka en sú bók sem er þar og ég les á hverju ári er Passíusálmarnir. Hana fékk ég frá föður mínum til lestrar meðan ég var í sérnámi í Bandaríkjunum, að hans sögn vegna þess að „einatt er með þeim illu einföldum búið slys“ (11. sálmur).
Passíusálmarnir eru skemmtilegur aldarspegill, þar sem takast á trú og siður. Þeir leiða hugann að hinu eilífa lífi. „...En eilíft líf er ekki til, því miður.“ („Þriðja bréf Páls postula til Korintumanna“ eftir Stein Steinarr.)
Ég skora á Hans Jakob Beck lungna- og endurhæfingarlæknir að skrifa næsta pistil!