12. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Blóðprufur við Alzheimer breyta leiknum - rætt við Zetterberg

Sænski vísindamaðurinn Henrik Zetterberg hefur með teymi sínu tekist að greina Alzheimer með blóðprufum. Strax eftir áramót verði þær notaðar klínískt í stað mænustungna. Hann vonar að hægt verði að byrja á Íslandi á sama tíma og í Svíþjóð

„Afsakið að ég gat ekki tekið símann fyrr. Ég var að koma frá Silvíu drottningu hér í Stokkhólmi sem verðlaunaði ungan vísindamann, Jacob Vogel, fyrir hönd sænsku Alzheimer-samtakanna. En ég er kominn út og rölti hérna að lestarstöðinni,“ segir Henrik Zetterberg, prófessor í taugaefnafræði við Háskólann í Gautaborg og yfirlæknir í klínískri efnafræði við Sahlgrenska. Hann er einnig gestaprófessor við Wisconsin-Madison háskólann. „Já, þetta er ekki venjulegur dagur. Hann er yfirleitt þéttsetinn hefðbundnum fundum.“

Henrik Zetterberg er Íslandsvinur og hefur margoft komið til landsins. „Er farið gjósa?“ spyr hann hressilega. „Ég elska útsýnið, andrúmsloftið og hef unnið með íslenskum kollegum, eins og Jóni Snædal.“ Hann stefnir á að leigja bíl og keyra um. Vera nokkra daga. Mynd/ Elin Lindström, Göteborgs Universitet

Zetterberg er afslappaður í miðjum umferðarkliðnum þegar Læknablaðið hringir. Þarna eru aðeins 10 dagar í fyrirlestur hans á fræðslufundi lyflækninga í Blásölum um þetta vísindaafrek að þróa blóðprufur til að greina glöp. Zetterberg vonast til að efla samstarfið við íslenska kollega.

Verðlaun drottningarinnar hafa árlega frá 2014 verið afhent ungum Alzheimer-vísindamanni en drottningin hefur verið bandamaður vísindamannanna enda þjáðist móðir hennar af heilabilun og bróðir hennar lést úr Alzheimer.

Zetterberg, sem einnig fékk viðurkenningu á dögunum þegar hann fékk afhent Ingvars-verðlaun Sænska læknafélagsins fyrir framúrskarandi rannsóknir á vitsmunalegum sjúkdómum, hefur náð miklum árangri. Teymið hans, sem samanstendur af 80 sérfræðingum, hefur umbreytt mænuvökvaprófunum fyrir Alzheimer í blóðprufu eftir fyrstu vísbendingarnar fyrir 10 árum. Hann stefnir á að mæla aðra heilabilunarsjúkdóma með þessum hætti.

„Þessi blóðlífmerki virka merkilega vel fyrir Alzheimer,“ segir Zetterberg og leggur áherslu á að með blóðprufunum verði hægt að grípa Alzheimer fyrr og því fyrr sem sjúkdómurinn greinist sé útkoma meðferða betri.

„Lífmerkin greinast strax og amyloid-skellur byrja að myndast,“ segir hann. Hann segir blóðprufurnar sýna hvort einstaklingur þjáist af elliglöpum en þær greina ekki hverrar gerðar, séu þau önnur en Alzheimer. Helmingur elliglapa flokkist til Alzheimer en hinn ekki en hann vonist til að ná einnig þeim áfanga að grípa Lewy body-glöp og framheilaskaða (frontotemporal dementia), sem sjá megi á prótínum, með blóðprufum.

„Bíddu nú aðeins á meðan ég stekk inn í lestina,“ segir hann. „Hvar vorum við?“ Viðtalið heldur áfram og Zetterberg segir frá því að hann stefni á að nota blóðgreininguna í klínísku starfi strax eftir áramót. Almennt þurfi aðeins klínískt efnafræðigreiningartæki til. „Við þurfum engin sérúrræði, sem er mjög gott,“ segir hann og því auðvelt að hefja leika í Evrópu.

„Svo búumst við við því að byrja í Bandaríkjunum í kjölfarið. En við getum byrjað strax í Svíþjóð og Íslandi,“ segir hann. „Við þurfum ekki að bíða eftir staðfestingu yfirvalda“ og hann muni á fundinum hvetja íslenska kollega til að vera með frá byrjun.

En hverju breyta blóðprufur í stað mænustunga fyrir sjúklinga? „Þetta er auðveldara greiningarferli,“ segir hann og að almennir læknar geti þá greint glöpin. „Já, við sjáum að leikar eru að breytast um þessar mundir þegar kemur að klínískri vinnu.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica