12. tbl. 109. árg. 2023

Fræðigrein

Brjóstagjöf íslenskra kvenna, tímalengd og þróun á heilli öld

Breastfeeding in Iceland: Changes in prevalence and duration over a century

doi 10.17992/lbl.2023.12.771

Ágrip

INNGANGUR
Heilsueflandi áhrif brjóstagjafar á börn og mæður þeirra eru ótvíræð, hvar sem er í heiminum. Tíðni og tímalengd brjóstagjafar eru mjög breytilegar á alþjóðavísu en birtar rannsóknarniðurstöður um algengi og áhrifaþætti brjóstagjafar íslenskra kvenna eru fáar og fjalla um litla hópa en markmiðið með þessari rannsókn er að lýsa faraldsfræði brjóstagjafar og áhrifaþáttum með stóru úrtaki heillar þjóðar í næstum heila öld.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Rannsóknin er lýsandi og faraldsfræðileg á gögnum sem safnað var á afturskyggnan hátt með spurningalistum fyrir Heilsusögubanka Krabbameinsfélags Íslands 1964-2008, um brjóstagjöf 81.889 barna, 36.537 frumburða og 45.352 yngri systkina þeirra. Tíðni og tímalengd brjóstagjafar voru skoðaðar með tilliti til aldurs, líkamsþyngdarstuðuls (n=4950, gögnum safnað 1979-2008) og reykinga (n=32.087, gögnum safnað 1995-2008) móður, fæðingarárs barns og raðar þess í systkinahópi.

NIÐURSTÖÐUR
Börnin fæddust á árunum 1917-2008. Skömmu fyrir 1980 tók meðaltímalengd brjóstagjafar að aukast, í öllum aldurshópum mæðra, og jókst hratt úr þremur mánuðum í 7-8 mánuði. Um svipað leyti lengdist brjóstagjöf eftir fæðingarröð barnanna, yngri börn fengu brjóst í lengri tíma en eldri systkini þeirra. Konur í kjörþyngd höfðu börn sín lengst á brjósti en offeitar konur styst. Konur sem reyktu, eða höfðu reykt, höfðu börn sín skemur á brjósti en hinar sem aldrei höfðu reykt.

ÁLYKTUN
Aukningin sem varð á lengri brjóstagjöf á síðustu áratugum á Íslandi er í samræmi við samantekt rannsóknaniðurstaðna í gagnagrunni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá Evrópulöndum 1975-2000, þar sem Norðurlöndin og flest Norður-Evrópulönd efldu brjóstagjöf á svipuðum tíma. Hár líkamsþyngdarstuðull og reykingar móður eru mikilvægar áhrifsbreytur í rannsóknum á brjóstagjöf og í þessari rannsókn eru vísbendingar um neikvæð áhrif þeirra á tímalengd brjóstagjafar.

Greinin barst til blaðsins 27. júní 2023, samþykkt til birtingar 2. nóvember 2023.

INNGANGUR

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) ráðleggja þjóðum heims að börn séu lögð á brjóst innan klukkustundar frá fæðingu og fái eingöngu brjóstamjólk fyrstu sex ævimánuðina, hvorki vatn né aðra fæðu. Frá sex mánaða aldri fái þau holla fæðu með brjóstamjólkinni og brjóstagjöf sé fram haldið til tveggja ára aldurs eða enn lengur.1-3 Þessar ráðleggingar gilda fyrir allar þjóðir, óháð efnahag, og eru byggðar á niðurstöðum rannsókna á heilsueflandi áhrifum brjóstagjafar á börn og mæður þeirra. Brjóstamjólkin sem næring og orkugjafi heldur lífi í börnunum og er sá þáttur líklega þýðingarmeiri í fátækum löndum, en ónæmiseflandi áhrif eru jafnmikilvæg í öllum heimshlutum. Brjóstagjöfin gefur meira en nærandi og ónæmisstyrkjandi mjólk: athöfnin sjálf, oft á dag í mánuði og ár, styrkir tengslamyndun móður og barns og bætir með því líkur á góðri andlegri heilsu beggja.4,5 Ráðleggingarnar eiga við um öll börn, heilbrigð og sjúk, fyrirbura og fullburða börn.1,2,5 Fjölmargar alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif brjóstagjafar á heilsu barna í bráð og lengd. Þar er helst um að ræða lægri tíðni dauðsfalla, sýkinga, astma og ofnæmissjúkdóma, sykursýki og offitu.6-12 Áhrif á vitrænan þroska og hjarta- og æðasjúkdóma eru óljósari6,11,13 og margt er enn lítt rannsakað.11,12 Rannsóknir á áhrifum brjóstagjafar á heilsu móður hafa meðal annars leitt í ljós minni hættu á brjóstakrabbameini, eggjastokkakrabbameini og sykursýki og vel er þekkt að brjóstagjöf tefur egglos og er þannig mikilvæg getnaðarvörn.12,14-16 Niðurstöður um tengsl við þunglyndi12,14,16 og beinrýrnun12,13 eru síður afgerandi.12-14,16

Í umræðu um lýðheilsu hefur verið bent á að brjóstagjöf er mikilvægur uppbyggjandi þáttur sem gerir öllum börnum gagn og minnkar heilsufarslegt misvægi milli ríkra og fátækra.7

Tíðni og tímalengd brjóstagjafar eru mjög breytilegar í heiminum. Ef horft er til hátekjulanda er algengið einna hæst á Norðurlöndum, öðrum Evrópulöndum og Ástralíu, en aftur á móti er það lágt í Bretlandi og Bandaríkjunum.7,9,10,17 Í flestum lágtekjulöndum er brjóstagjöf algeng og víðtæk.7,12 Helstu áhrifaþættir í hverju landi og heimshluta eru aldur, menntun, bæri (parity), fjárhagur og hjúskaparstaða kvennanna og heilbrigði og sjúkleiki barnanna.12,14-16,18

Í nýlegu riti Norrænu ráðherranefndarinnar er gerð grein fyrir birtum kerfisbundnum yfirlitum og ráðleggingum um næringu og er þar fjallað um brjóstagjöf í einum kafla. Segja má að þar komi fram staðfesting á jákvæðum heilsufarslegum áhrifum brjóstagjafar á mæður og börn.19

Birtar heimildir um algengi brjóstagjafar íslenskra kvenna eru fáar og byggja á litlum hópum.20-25 Ein allra fyrsta rannsóknin á brjóstagjöf á Íslandi birtist 1993 og fjallaði um þróun brjóstagjafar í Reykjavík í tvo áratugi þar á undan.24

Einstakar aðstæður eru á Íslandi þar sem gögnum um brjóstagjöf var safnað hjá Krabbameinsfélagi Íslands fyrir nánast heila þjóð yfir langt tímabil. Með þeim er sögð saga brjóstagjafar á landinu í marga áratugi.

Markmiðið með þessari rannsókn er að lýsa breytingum á brjóstagjöf á Íslandi á næstum einni öld, tengslum tímalengdar brjóstagjafar við áhrifaþættina aldur móður, líkamsþyngdarstuðul og reykingar, fæðingarár barns og röð þess í systkinahópi. Hér er því um að ræða lýsandi, faraldsfræðilega rannsókn.

Efni og aðferðir

Notuð voru gögn úr Heilsusögubanka Krabbameinsfélagsins, en í hann var upplýsingum safnað þegar konur komu í legháls- og brjóstakrabbameinsleit á árunum 1964-2008 og svöruðu spurningum um áhættuþætti brjóstakrabbameins. Gagnasöfnun var afturskyggn og spurningarnar lagðar fram með spurningalistum. Gögnin sem unnið var með í þessari rannsókn, um tímalengd brjóstagjafar, fóru inn í bankann á árunum 1979-2008. Hver kona getur átt fleiri en eitt svar. Mæður sem höfðu svarað um brjóstagjöf frumburða sinna voru 39.967 talsins. Fyrir 103 þeirra barna vantaði upplýsingar um fæðingarár og voru þau því útilokuð úr rannsóknarhópnum, sem og þau börn (n=3327) sem fæddust árið sem svarað var, eða árið á undan, þar sem mögulegt er að brjóstagjöf hafi ekki verið lokið þegar svarað var. Heildarfjöldi mæðra í rannsókninni var 36.537 og heildarfjöldi barna 81.889 en börnin fæddust 1917-2006.

Árin 1979-1994 var ekki spurt um aðskilda tímalengd brjóstagjafar fyrir hvert barn og því einungis hægt að skoða tímalengdina fyrir konur sem höfðu ekki átt önnur börn en frumburðinn er þær svöruðu. Árin 1995-2008 var tímalengdin hins vegar gefin upp fyrir sérhvert barn og þar eru til aðskildar upplýsingar um tvö til átta börn fyrir 24.997 konur (68% rannsóknarhópsins).

Breytur sem notaðar voru úr Heilsusögubankanum eru: Fæðingarár barns, aldur móður við fæðingu fyrsta barns, tímalengd brjóstagjafar, líkamsþyngdarstuðull móður og hvort móðir hefði reykt á lífsleiðinni. Unnið var með tímalengd brjóstagjafar í heilum mánuðum, þar sem mánuður er talinn fjórar vikur. Brjóstagjöf undir einni viku flokkaðist sem engin brjóstagjöf. Brjóstagjöf í 1-6 vikur var talin standa í einn heilan mánuð, 7-10 vikur voru taldar tveir mánuðir og svo framvegis. Upplýsingum um hæð og þyngd hafði verið safnað í Heilsusögubankann á árunum 1979-2008. Eingöngu voru notaðar upplýsingar um líkamsþyngdarstuðul innan fimm ára fyrir fæðingu fyrsta barns. Hefðbundin þyngdarflokkun (26) var viðhöfð: Offita: ≥30; ofþyngd: 25-29,9; kjörþyngd 18,5-24,9; undirþyngd <18,5. Konur voru flokkaðar eftir reykingasögu í tvo hópa: Aldrei reykt eða einhvern tíma reykt. Aðeins ein færsla, sú nýjasta, var notuð fyrir reykingasögu hverrar konu. Upplýsingum um reykingasögu var safnað á árunum 1995-2008.

Tölfræðiúrvinnsla

Samanburður á meðaltölum tímalengdar brjóstagjafar var gerður með t-prófi og í fjölbreytugreiningu var tvíkosta (lógistískri) aðhvarfsgreiningu beitt til að meta gagnlíkindahlutfall (OR) og 95% öryggisbil. Öll próf voru tvíhliða og p-gildi <0,05 metið marktækt. Lýsandi tölfræði var unnin í STATA/IC 14.2 fyrir Windows.

Vísindasiðanefnd veitti leyfi fyrir rannsókninni 2012. Tilkynning var send Persónuvernd sama ár. Leyfi Krabbameinsfélags Íslands fékkst einnig sama ár fyrir aðgangi að gögnum úr Heilsusögubankanum.

Niðurstöður

Heildarfjöldi mæðra og frumburða í rannsókninni var 36.537 og árin 1995-2008 voru skráðar upplýsingar fyrir 45.352 síðar fædd börn, samtals 81.889 börn. Í töflu I eru skráðar tölulegar niðurstöður fyrir allar breyturnar. Þar sést að 81% barnanna fæddist árin 1969-1998.

Mynd 1a sýnir breytingar með tímanum á hlutfalli kvenna sem gáfu brjóst í tiltekinn mánaðafjölda fyrir sérhvert barn konu, frumburði og yngri börn fædd 1929-2006. Meðaltími brjóstagjafar frumburða lengdist kringum fæðingarárið 1979 og er marktækt lengri árin 1979-2007 heldur en árabilið 1917-1978 (6,1 mánuður á móti 3,3 mánuðum; p<0,001). Fram til árabilsins 1979 til 1988 höfðu milli 50% og 65% kvenna börn sín á brjósti í aðeins þrjá mánuði. Undir lok rannsóknartímans, á fæðingarárum barnanna 1999-2006, voru 72% þeirra á brjósti við 6 mánaða, 45% við 9 mánaða og 20% við 12 mánaða aldur. Þetta er sýnt á mynd 1b í samanburði við heimildir um brjóstagjöf á Íslandi á síðasta aldarfjórðungi.20-23,25

Mynd 1a. Mynd 1a. Breytingar með tímanum á hlutfalli kvenna sem gáfu brjóst í tiltekinn mánaðafjölda fyrir sérhvert barn konu, frumburði og yngri börn. Börn fædd á fyrstu árunum (1917-1928) eru undanskilin vegna fárra svara um brjóstagjöf þeirra. Heildarfjöldi kvenna, n=36.529.

 

Mynd 1b. Hlutfall barna (fædd 1995-2021) á brjósti við 6 og 12 mánaða aldur á Íslandi. Dökkbleiku súlurnar sýna hlutaniðurstöður þessarar rannsóknar fyrir fæðingarárin 1999-2006, ljósbleiku súlurnar sýna stöðuna fyrir aldamótin (21) (fæðingarár 1995-1997) en ljósgulu súlurnar stöðuna eftir aldamót (26) (fæðingarár 2005-2006) og gráu súlurnar endurspegla birtar tölur Embættis landlæknis (22, 23) (fæðingarár 2004-2008) og þær bláu endurspegla nýjustu tölur Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu (24) (fæðingarár 2018-2021).

Í töflu I og á mynd 2, sem einungis á við um frumburði, má einnig sjá að meðaltíminn var fram undir 1980 nokkuð stöðugur, þrír til fjórir mánuðir, en eftir það jókst hann jafnt og þétt og náði 7 til 8 mánuðum eftir 1990. Stystur var tíminn, undir þremur mánuðum, á árunum 1960-1974.

Mynd 2. Meðaltími brjóstagjafar fyrsta barns, eftir fæðingarári þess, á 60 ára tímabili á síðustu öld. Börn fædd fyrir 1945 og eftir 2004 voru fá í rannsóknarhópnum og eru því undanskilin hér. (n=36.016)

Á mynd 3 og í töflu I er aldri frumbyrja gerð skil sem áhrifsbreytu. Þar er tímabilinu skipt um árið 1980. Fyrir 1980 er ekki marktækt samband milli aldurs móður og tímalengdar brjóstagjafar frumburðar, sem er þá nálægt þremur mánuðum. Eftir 1980 er brjóstagjöfin lengri (p<0,001), fjórir til 10 mánuðir í öllum aldurshópum mæðra, auk þess sem brjóstagjöf lengdist með hækkandi aldri móður (p<0,001).

Mynd 3. Meðaltímalengd brjóstagjafar og aldur móður við fæðingu fyrsta barns, frumburði fædda 1917-1979 annars vegar (n=16.784) og 1980-2008 hins vegar (n=19.686). Mæður yngri en 15 ára og eldri en 42 ára voru fáar og eru því undanskildar hér.

Á mynd 4a og í töflu I sést að meðal offeitra var hæst hlutfall (35%) sem hafði börn sín á brjósti aðeins í einn til þrjá mánuði. Konur í kjörþyngd höfðu börn sín lengst á brjósti en konur í undir- og ofþyngd fylgja þeim fast á eftir. Meðaltími brjóstagjafar var lengstur hjá konum í kjörþyngd og stystur hjá offeitum konum (7,3 mánuðir á móti 5,9 mánuðum; p<0,001).

Mynd 4a. Hlutfallsleg dreifing meðaltíma brjóstagjafar frumburða í hverjum hinna fjögurra flokka líkamsþyngdarstuðuls mæðra. n alls=4950; n í undirþyngd=269 (5%); n í kjörþyngd=3825 (77%); n í ofþyngd=696 (14%); n í offituhópi=160 (3%).

Mynd 4b og tafla I sýna að hæst hlutfall kvenna, sem höfðu einhvern tímann reykt, gaf börnum sínum brjóst í skamman tíma, og hærra hlutfall kvenna, sem aldrei höfðu reykt gaf þeim brjóst í lengri tíma. Meðaltíminn var lengri hjá þeim sem aldrei höfðu reykt en þeim sem einhvern tímann höfðu reykt (5,8 mánuðir á móti 4,5 mánuðum; p<0,001).

Mynd 4b. Hlutfallsleg dreifing meðaltíma brjóstagjafar frumburða eftir reykingasögu móður. n=32.087; aldrei reykt n=12.290 (38%); einhvern tímann reykt n=19.797 (62%).

Mynd 5 og tafla I sýna meðaltímalengd brjóstagjafar barna eftir fæðingarröð í systkinahópi og fæðingarári hvers barns. Lítill munur var á lengd brjóstagjafar eftir fæðingarröð í syst-kinahópi á fyrri hluta tímabilsins, en þegar brjóstagjöfin jókst almennt eftir 1980 varð dreifingin meiri og yngri börn mæðranna fengu brjóst í lengri tíma en þau eldri. Meðaltími brjóstagjafar fyrir þriðja til fimmta barn var heldur lengri en fyrir færri og fleiri börn, en á myndinni má sjá tilhneigingu til aukinnar tímalengdar með auknum barnafjölda.

Mynd 5. Meðaltímalengd brjóstagjafar barna eftir fæðingarröð í systkinahópi og fæðingarári hvers barns. Börn fædd fyrir 1945 og eftir 2004 voru fá í rannsóknarhópnum og eru því undanskilin hér. (n=87.006).

Tafla ll sýnir niðurstöður fjölbreytugreiningar á áhrifaþáttum tímalengdar brjóstagjafar (>3 mánuðir á móti 0-3 mánuðum) fyrsta barns. Fjórfalt meiri líkur eru á að tímalengdin fari yfir þrjá mánuði hjá börnum fæddum 1980 eða síðar, miðað við fyrra tímabil, og jafnframt nær tvöfaldast líkurnar ef móðirin er 25 ára eða eldri. Hins vegar eru aðeins helmingslíkur á brjóstagjöf yfir þremur mánuðum ef móðir er offeit eða ef hún hefur reykt. Prófað var að leiðrétta enn frekar fyrir tíma með því að taka inn fæðingarár barns sem samfellda breytu, en það hafði engin áhrif á sambandið, hvorki milli ofþyngdar og brjóstagjafar né milli reykinga og brjóstagjafar.

Umræður

Rannsóknin leiddi í ljós að á áttunda áratugnum tók tímalengd brjóstagjafar að aukast í öllum aldurshópum mæðra, hjá frumbyrjum og fjölbyrjum. Meðaltíminn hækkaði á 15 árum úr þremur mánuðum upp í 7-8 mánuði og þessu fylgdi að brjóstagjöf lengdist eftir fæðingarröð í systkinahópi, þannig að yngri börn fengu brjóst í lengri tíma en eldri systkini þeirra. Óvíst er þó hvort systkinaröðin hafði raunverulega áhrif eða hvort tímaþátturinn, hin almenna aukning brjóstagjafar með tíma, var þar að verki. Líkamsþyngdarstuðull og reykingasaga tengdust brjóstagjöfinni þannig að konur í kjörþyngd höfðu börn sín lengst á brjósti en hinar offeitu skemmst. Konur með reykingasögu höfðu börn sín skemur á brjósti en þær sem aldrei höfðu reykt.

Í rannsókninni voru á öllu tímabilinu, 1917-2008, 25% barnanna (frumburðir) á brjósti sex mánaða, 11% 9 mánaða og 4% 12 mánaða gömul. Allar eru þessar tölur mun lægri en íslenskar rannsóknir hafa leitt í ljós enda eru hinar síðarnefndu gerðar á 21. öldinni eða um aldamót, en við sýndum fram á mikla aukningu brjóstagjafar á níunda áratug síðustu aldar, sem hefur síðan haldist í horfinu.20-23 Í okkar rannsókn eru síðustu 8 fæðingarárin (1999-2006) helst til samanburðar við birtar tölur um brjóstagjöf á Íslandi, sjá mynd 1b. Í yfir 20 ára gamalli rannsókn á slembivöldu úrtaki (n=250) íslenskra barna (fædd 1995-1997) kom fram að 77% voru á brjósti 6 mánaða og 13% við 12 mánaða aldur.20 Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala birti niðurstöður rannsóknar á mataræði ungbarna á öllu landinu, þar sem tölur um brjóstagjöf sýndu að á fæðingarárunum 2005-2006 (n=345) voru 73% barnanna á brjósti við sex mánaða aldur og 22% við 12 mánaða aldur.25 Á vef Embættis landlæknis má einnig finna samanburðartölur en þar er birt úttekt á skráningu Heilsugæslunnar á brjóstagjöf á höfuðborgarsvæðinu 2004-2008. Þar kemur fram að 75% fengu brjóstamjólk við sex mánaða aldur og 26% við 12 mánaða aldur.22 Nýjustu tölur er að finna í skýrslu Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu um brjóstagjöf á árunum 2018 til 2021 og þar kemur fram að 67-69% barna voru á brjósti sex mánaða gömul og 33-38% barna voru enn á brjósti við 12 mánaða aldur.23

Á mynd 1b eru okkar niðurstöður sýndar í samhengi við niðurstöður úr ofanskráðum íslenskum rannsóknum. Þar má sjá vísbendingu um hvernig tímalengd brjóstagjafar á Íslandi hefur breyst á síðasta aldarfjórðungi: brjóstagjöf við sex mánaða aldur virðist vera mikil og stöðug á þessu tímabili en núna eru fleiri börn á brjósti í lengri tíma, það er fram yfir eins árs aldur.

Aukningin sem varð á lengri brjóstagjöf á síðustu áratugum 20. aldar á Íslandi er í samræmi við samantekt rannsóknaniðurstaðna í gagnagrunni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá Evrópulöndum 1975-2000, þegar Norðurlöndin og flest Norður-Evrópulönd efldu brjóstagjöf (tíðni) á svipuðum tíma.27 Um þetta leyti voru settar fram ráðleggingar öflugra, ráðandi stofnana, sem beita sér í heilbrigðis- og velferðarmálum á heimsvísu. Innocenti-yfirlýsingin á vegum UNICEF 1990 fjallar um eflingu brjóstagjafar kvenna á vinnumarkaði og lagði grunninn að vitundarvakningu sem hleypt var af stokkunum árið 1991 og nefnt Barnvænt sjúkrahús (Baby Friendly Hospital). Barnvænt sjúkrahús byggir á 10 skrefum fyrir fæðingastofnanir sem miða að því að vernda, stuðla að og styðja við brjóstagjöf.5 Áður, eða 1981, hafði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin samþykkt reglur um markaðssetningu þurrmjólkur til að draga úr letjandi áhrifum hennar á brjóstagjöf.28 Á 9. áratugnum varð til ný stétt fagfólks, brjóstagjafarráðgjafar (IBLCE = International Board of Lactation Consultant Examiner) sem öðlast hafa samræmdan, alþjóðlegan sess og vinna að eflingu brjóstagjafar í öllum heimsálfum.29 Samhljóða okkar niðurstöðum, um eflingu brjóstagjafar á síðustu áratugum 20. aldar, er rannsókn Marga Thome, sem sýndi að brjóstagjöf í að minnsta kosti þrjá mánuði jókst úr 16% árið 1973 í 78% 1991, í Reykjavík. Marga þakkar þetta aukinni fræðslu heilbrigðisstétta til kvenna um brjóstagjöf, samfara aukinni uppbyggingu á þjónustu heilsugæslu og kvennadeildar Landspítala.24 Höfundar telja að í lok síðustu aldar hafi nokkur mikilvæg skref leitt til þessarar eflingar brjóstagjafar, einkum aukin samvera móður og barns, það er vöggustofur á fæðingadeildum voru lagðar niður, mæðurnar útskrifaðar af sjúkrahúsi skömmu eftir fæðingu, og ljósmæður og hjúkrunarfræðingar héldu ráðgjöf og fræðslu áfram í heimahúsi.

Niðurstöður rannsóknarinnar um samband brjóstagjafar og reykingasögu eru samhljóða allmörgum erlendum rannsóknum.30-33 Áhrif líkamsþyngdarstuðuls í þessari rannsókn eru einnig í góðu samræmi við niðurstöður annarra.7,8 Samanburður niðurstaðna á sér þó oft takmarkanir, þar sem þýði eru ekki alveg sambærileg og mismunandi skilgreiningar notaðar.

Styrkleika þessarar rannsóknar má telja að Heilsusögubanki Krabbameinsfélags Íslands er mikilsverður þar sem mikill meirihluti kvenna heillar þjóðar gaf upplýsingar í hann á tilteknu árabili. Til dæmis eru þarna svör frá rúmlega 90% íslenskra kvenna sem fæddust árin 1920-1958.34 Úrtakið er stórt og gögnum var safnað yfir langt tímabil. Niðurstöður gefa því raunhæfa mynd af sögu brjóstagjafar á Íslandi á síðastliðinni öld. Þó verður ekki fram hjá því litið, og verður að teljast til takmarkana rannsóknarinnar, að hún er afturskyggn og konurnar gáfu upplýsingar eftir minni, stundum langt aftur í tímann. Til dæmis gildir það um upplýsingar um þyngd og reykingar og þannig mætti búast við einhverri rangflokkun á þessum breytum. En slík rangflokkun er ekki líkleg til að tengjast tímalengd brjóstagjafar og þegar um slíkar tilviljanakenndar rangflokkanir er að ræða eru minni líkur á að við náum að finna samband sem þó er til staðar. Þannig má segja að sambandið sé líklega sterkara í raun en það sem við sjáum. Í úrtakinu eru konur sem komu í legháls- og brjóstakrabbameinsskimun. Ekki er vitað hversu vel sá hópur endurspeglar alla kvenþjóðina, en stærð úrtaksins vegur þar upp á móti. Á tímabilum voru hæð og þyngd mældar við komu en á öðrum tíma gáfu konurnar þær upplýsingar sjálfar, það er uppruni gagnanna er ekki alltaf einsleitur. Þessi rannsókn er langstærst þeirra fáu sem gerðar hafa verið á brjóstagjöf á Íslandi og einnig mjög stór á alþjóðavísu.

Mikilvægt er að haldið verði áfram að skrá gögn framskyggnt um tíðni og tímalengd brjóstagjafar á aðgengilegan hátt í heilbrigðiskerfinu og liggur þá beinast við að það verði í heilsugæslunni. Núorðið er skráning þar vissulega fyrir hendi en á vantar að auðvelt sé að taka þau gögn út og senda áfram í gagnagrunn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar svo hægt sé að nota þau í samanburðarrannsóknum innan lands og utan.

Einnig er fyllsta ástæða til að lýsa eftir stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda um brjóstagjöf og næringu barna, þar sem markaðsöflum eru settar skorður varðandi framleiðslu og dreifingu þurrmjólkur og annarra matvæla ætluðum ungbörnum. Í nýlegri þverskurðarrannsókn er ástandi á íslenska markaðnum lýst35 og í nýlegum greinaflokki í Lancet eru þessu málefni gerð skil, enda um alþjóðlegan vanda að ræða á sviði heilbrigðisstjórnmála.36

Heimildir

 

1. World Health Organization. Breastfeeding recommendation. World Health Organization, Genf 2020. who.int/health-topics/breastfeeding#tab=tab_ 2 - október 2023.
 
2. Kramer MS, Kakuma R. Optimal duration of exclusive breastfeeding. Cochrane Database Syst Rev 2012; 8: Cd003517.
https://doi.org/10.1002/14651858.CD003517.pub2
 
3. World Health Organization. Global strategy for infant and young child feeding. 2003.
 
4. Britton JR, Britton HL, Gronwaldt V. Breastfeeding, sensitivity, and attachment. Pediatrics 2006; 118: e1436-43.
https://doi.org/10.1542/peds.2005-2916
PMid:17079544
 
5. World Health Organization. Implementing guidance: Protecting, promoting and supporting breastfeeding in facilities providing maternity and newborn services: the reviseted Baby-Friendly Hospital Initiative. 2018.
 
6. Sankar MJ, Sinha B, Chowdhury R, et al. Optimal breastfeeding practices and infant and child mortality: a systematic review and meta-analysis. Acta Paediatr 2015; 104: 3-13.
https://doi.org/10.1111/apa.13147
PMid:26249674
 
7. Victora CG, Bahl R, Barros AJD, et al. Breastfeeding in the 21st century: epidemiology, mechanisms, and lifelong effect. Lancet 2016; 387: 475-90.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(15)01024-7
PMid:26869575
 
8. Horta BL, Loret de Mola C, Victora CG. Long-term consequences of breastfeeding on cholesterol, obesity, systolic blood pressure and type 2 diabetes: a systematic review and meta-analysis. Acta Paediatr 2015; 104: 30-7.
https://doi.org/10.1111/apa.13133
PMid:26192560
 
9. Hörnell A, Lagström H, Lande B, et al. Breastfeeding, introduction of other foods and effects on health: a systematic literature review for the 5th Nordic Nutrition Recommendations. Food Nutr Res 2013; 57:
https://doi.org/10.3402/fnr.v57i0.20823
PMid:23589711 PMCid:PMC3625706
 
10. Callen J, Pinelli J. Incidence and Duration of Breastfeeding for Term Infants in Canada, United States, Europe, and Australia: A Literature Review. Birth 2004; 31: 285-92.
https://doi.org/10.1111/j.0730-7659.2004.00321.x
PMid:15566341
 
11. Bowatte G, Tham R, Allen KJ, et al. Breastfeeding and childhood acute otitis media: a systematic review and meta-analysis. Acta Paediatr 2015; 104: 85-95.
https://doi.org/10.1111/apa.13151
PMid:26265016
 
12. Horta BL, Victora CG, World Health O. Short-term effects of breastfeeding: a systematic review on the benefits of breastfeeding on diarrhoea and pneumonia mortality. World Health Organization, Genf 2013.
 
13. Horta BL, Loret de Mola C, Victora CG. Breastfeeding and intelligence: a systematic review and meta-analysis. Acta Paediatrica 2015; 104: 14-9.
https://doi.org/10.1111/apa.13139
PMid:26211556
 
14. Chowdhury R, Sinha B, Sankar MJ, et al. Breastfeeding and maternal health outcomes: a systematic review and meta-analysis. Acta Paediatrica 2015; 104: 96-113.
https://doi.org/10.1111/apa.13102
PMid:26172878 PMCid:PMC4670483
 
15. Tryggvadóttir L, Tulinius H, Eyfjord JE, et al. Breastfeeding and Reduced Risk of Breast Cancer in an Icelandic Cohort Study. Am J Epidemiol 2001; 154: 37-42.
https://doi.org/10.1093/aje/154.1.37
PMid:11427403
 
16. Ip S, Chung M, Raman G, Chew P, et al. Breastfeeding and Maternal and Infant Health Outcomes In Developed Countries. AAP Grand Rounds 2007; 18: 15.
https://doi.org/10.1542/gr.18-2-15
 
17. Simpson DA, Quigley MA, Kurinczuk JJ, et al. Twenty-five-year trends in breastfeeding initiation: The effects of sociodemographic changes in Great Britain, 1985-2010. PLoS One 2019; 14: e0210838.
https://doi.org/10.1371/journal.pone.0210838
PMid:30653579 PMCid:PMC6336342
 
18. Dennis C-L. Breastfeeding Initiation and Duration: A 1990-2000 Literature Review. J Obstetr Gynecol Neonat Nurs 2002; 31: 12-32.
https://doi.org/10.1111/j.1552-6909.2002.tb00019.x
PMid:11843016
 
19. Blomhoff R, Andersen R, Arnesen EK, et al. Nordic Nutrition Recommendations 2023 : Integrating Environmental Aspects. Norræna ráðherranefndin, Kaupmannahöfn 2023: 388.
https://doi.org/10.6027/nord2023-003
 
20. Þórsdóttir I, Atladóttir H, Pálsson G. Matarræði Íslenskra ungbarna. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2000.
 
21. Gunnlaugsson G. Brjóstagjöf á Íslandi. Talnabrunnur, Embætti landlæknis, Reykjavík 2011.
 
22. Sigurbjörnsdóttir HB, Gunnarsdóttir BE. Brjóstagjöf og næring ungbarna á Íslandi sem fædd eru 2004-2008. Talnabrunnur, Embætti landlæknis, Reykjavík 2012.
 
23. Guðmundsdóttir S, Magnúsdóttir ÓK. Hlutfall barna á brjósti á öllum heilsugæslu-stöð-v-um landsins. 2018-2022 (óbirt skýrsla). 2022.
 
24. Thome M. Þróun brjóstagjafar í Reykjavík í tvo áratugi. Hjúkrun 1993; 69: 11-23.
 
25. Þórsdóttir I, Þórisdóttir ÁV, Pálsson GI. Mataræði íslenskra ungbarna. Niðurstöður
 
rannsóknar á mararæði, vexti og járnbúskap ungbarna 2005-2007. Rannsóknarstofa í
 
næringarfræði, Reykjavík 2008.
 
26. World Health Organization. Obesity and overweight 2006. who.int/en/news-room/fact-sheets/detail/obesity-and-overweight - október 2023.
 
27. Yngve A, Sjostrom M. Yngve A, et al. Breastfeeding in countries of the European Union and EFTA: current and proposed recommendations, rationale, prevalence, duration and trends [published erratum appears in Public Health Nutr 2001; 4: 1306]. Public Health Nutr 2001; 4: 631-45.
https://doi.org/10.1079/PHN2001147
PMid:11683556
 
28. Piwoz EG, Huffman SL. The Impact of Marketing of Breast-Milk Substitutes on WHO-Recommended Breastfeeding Practices. Food Nutr Bull 2015; 36: 373-86.
https://doi.org/10.1177/0379572115602174
PMid:26314734
 
29. Wambach K, Spencer B. Breastfeeding and human lactation. Jones & Bartlett Learning Burlington, MA 2021.
 
30. Horta BL, Victora CG, Menezes AM, et al. Environmental tobacco smoke and breastfeeding duration. Am J Epidemiol 1997; 146: 128-33.
https://doi.org/10.1093/oxfordjournals.aje.a009243
PMid:9230774
 
31. Amir LH, Donath SM. Does Maternal Smoking Have a Negative Physiological Effect on Breastfeeding? Epidemiol Evid Birth 2002; 29: 112-23.
https://doi.org/10.1046/j.1523-536X.2002.00152.x
PMid:12000412
 
32. Giglia R, Binns CW, Alfonso H. Maternal cigarette smoking and breastfeeding duration. Acta Paediatr 2006; 95: 1370-4.
https://doi.org/10.1080/08035250600771474
PMid:17062462
 
33. Brown CR, Dodds L, Legge A, et al. Factors influencing the reasons why mothers stop breastfeeding. Can J Public Health 2014; 105: e179-85.
https://doi.org/10.17269/cjph.105.4244
PMid:25165836 PMCid:PMC6972160
 
34. Thorbjarnardottir T, Olafsdottir EJ, Valdimarsdottir UA, et al. Oral contraceptives, hormone replacement therapy and breast cancer risk: a cohort study of 16 928 women 48 years and older. Acta Oncologica (Stockholm) 2014; 53: 752-8.
https://doi.org/10.3109/0284186X.2013.878471
PMid:24460068
 
35. Thorisdottir B, Odinsdottir T, Thorsdottir I. A repeated cross-sectional analysis of the Icelandic baby food market surveyed in 2016, 2019 and 2021. Matern Child Nutr 2023: e13476.
https://doi.org/10.1111/mcn.13476
PMid:36738133
 
36. Rollins N, Piwoz E, Baker P, et al. Marketing of commercial milk formula: a system to capture parents, communities, science, and policy. Lancet 2023; 401: 486-502.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(22)01931-6
PMid:36764314
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica