12. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Læknar hlusti á neyðaróp kollega á Gaza - eru hvatningarorð Lindu Óskar Árnadóttur
„Ég vil hvetja lækna til að halda áfram að hafa áhrif og hlusta á neyðaróp kollega sinna
sem standa í óhugsandi aðstæðum á Gaza að öllu leyti,“ segir Linda Ósk Árnadóttir læknir. 400 læknar hvetja stjórnvöld til aðgerða
„Mér finnst átakanlegt að sjá að ríkisstjórnin á Íslandi beitir sér ekki á neinn hátt fyrir friði,“ segir Linda Ósk Árnadóttir, sérnámslæknir í skurðlækningum á Västerås-sjúkrahúsinu í Svíþjóð.
Linda Ósk Árnadóttir er sérnámslæknir í skurðlækningum á Västerås-sjúkrahúsinu og verður fullnuma eftir eitt ár. Hún er meðal annarra í fararbroddi lækna sem fordæma árásir á Gaza. Mynd/aðsend
400 læknar og 254 hjúkrunarfræðingar sendu í nóvember hvor sitt bréfið til íslenskra stjórnvalda með þeirri einlægu ósk og kröfu um að óskað yrði eftir tafarlausu vopnahléi á Gaza. Þeir vilja að árásir Ísraels á óbreytta borgara og heilbrigðisþjónustu á Gaza verði fordæmdar og báðu stjórnvöld um að beita sér fyrir því að meintir stríðsglæpir Ísraela gagnvart íbúum Palestínu yrðu rannsakaðir. Þeir minntu einnig á ákvæði fjórða Genfarsáttmálans.
„Læknar og hjúkrunarfræðingar og aðrir þeir sem hjálpa fórnarlömbum stríðsins verða að geta unnið starf sitt. Ekki má ráðast á sjúkrabíla eða sjúkrahús eða annað húsnæði þar sem særðum er hjúkrað,“ er áréttað af læknunum 400.
Linda, Stella Rún Guðmundsdóttir og Ragna Sigurðardóttir hrundu ákalli læknanna af stað. Linda ferðast reglulega til Palestínu, var sjálfboðaliði þar árið 2009 með International Solidarity Movement, og var um nokkurra mánaða skeið sjálfboðaliði á meðal annars færanlegum heilsugæslustöðvum og vann sem læknanemi á skurðsjúkrahúsi í Nablus. Maðurinn hennar, Yousef Ingi Tamimi svæfingahjúkrunarfræðingur, er af palestínskum ættum og leiddi hvatningu hjúkrunarfræðinganna ásamt Önnu Tómasdóttur.
„Já, þessi staða hefur gífurleg áhrif á fjölskylduna,“ segir Linda en þau Yousef Ingi eiga tvo syni og hann föðurfjölskyldu á Vesturbakkanum og í Jerúsalem. „En við erum meðvituð um að þetta er ekki okkar harmleikur heldur þeirra sem standa í skotlínunni. En við reynum að vera sterk og gera eitthvað.“ Þau skipuleggi mótmæli, mæti í þau og skrifi greinar. „Heimilishaldið hefur því verið ólíkt því sem er vanalega undanfarinn mánuð,“ segir hún.
Forkólfar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hafa líkt norðurhluta Gaza við grafreit. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, sagði árás Ísraelshers á Al-Shifa, stærsta sjúkrahús Gaza, ólíðandi. Sjúkrahús væru ekki vígvellir. Fréttir eru sagðar af því að nær ómögulegt sé að reka sjúkrahús þar vegna átakanna og rafmagnsleysis.
Fréttastofa RÚV greindi frá því um miðjan mánuðinn að 200 manns lægju í fjöldagröf við Al-Shifa-spítalann, 2000 manns væru innlyksa á sjúkrahúsinu og kæmust hvergi. Rauði hálfmáninn segði 14.000 nú á næststærsta spítalanum, Al-Quds. Al-Sweidi-klíníkin hefði verið eyðilögð og þá 500 innandyra. Ekkert útlit væri fyrir að erfið staða á sjúkrahúsum Gaza breyttist í bráð.
Linda segir átökin snerta alla þætti læknisstarfsins. „Læknarnir gera aðgerðir án svæfinga og verkjalyfja. Þeir sjá um nýfædd börn og fyrirbura, og almenna borgara, án þess að geta veitt þeim rétta meðferð.“ Þá mæti meðferðir vegna krabbameina og annarra sjúkdóma afgangi. Heilbrigðisstarfsfólk og fjölskyldur þeirra séu jafnvel skotmörk. „Læknar ættu því að leggja sitt af mörkum til að hjálpa almennum borgurum í Palestínu.“
Linda segist strax hafa fundið mikinn stuðning lækna. „Ég upplifi það í þessum læknahópi og almennt í samfélaginu að fólk finni sig máttvana en vilji hafa áhrif. Það upplifi að geta ekkert gert til að hafa áhrif á ástandið. En ég er ósammála því. Við getum öll haft einhver áhrif og við læknar erum bæði í ábyrgðar- og forréttindastöðu til að hafa áhrif á stjórnvöld.“