11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Hugvekja almenns læknis til heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélags Íslands, flutt 20. október 2023

Hæstvirtur ráðherra, Willum Þór Þórsson

Heilbrigðiskerfið FC hefur verið að spila nánast stanslaust undanfarin ár án almennilegrar hvíldar og æfinga. Við erum eins og lið sem hefur spilað í endalausri framlengingu, hópurinn er orðin þreyttur og farinn að láta töluvert á sjá.

Vörnin okkar og markvörður, innviðir kerfisins, eru á harðahlaupum, henda sér fyrir og reyna að stöðva hvert skotið á fætur öðru en það er farið að verða þeim ofviða.

Miðjan okkar, læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk, hleypur nánast þindarlaust en þau eru við það að örmagnast og meiðslin hrannast upp.

Sóknin, sem táknar okkar sjúklinga, á erfitt með að skora mörk, er farin að missa trúna og vera svekkt.

Varamannabekkurinn stendur tómur og fjöldi leikmanna sem leika erlendis gefa ekki kost á sér í liðið.

Upplifun allra leikmanna er eins og við séum að missa stjórn á leiknum og við eigum á hættu að tapa.

Það er því ljóst að við þurfum ferskar lappir og skiptingar. Við þurfum að breyta um taktík, gefa okkar leikmönnum hvíld til að jafna sig og fylla á varamannabekkinn. Við þurfum að fara að skora mörk.

Við þurfum líka að fjárfesta í betri aðstöðu, æfingabúnaði og fótboltavöllum. Í fótbolta, þegar lið er á barmi hruns, er mikilvægt að taka skref til baka, gera nauðsynlegar breytingar og mæta sterkari aftur til leiks. Það er það sem við þurfum að gera með heilbrigðiskerfið okkar. Við megum ekki við því að missa trúna á liðinu. Við verðum að bregðast við til að tryggja heilbrigði og velferð Íslendinga.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica