11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Vitundarvakning: Aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi innanlands og utan

 Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) deyja að minnsta kosti 35.000 manns af völdum sýklalyfjaónæmra sýkinga í ESB/EES árlega.1 Óskynsamleg notkun sýklalyfja, óhófleg notkun eða rangt val á lyfjum, getur stuðlað að ónæmi baktería. Greiningar á vissum ónæmum bakteríum, svo sem ESBL-myndandi E. coli, hafa aukist hérlendis síðustu ár en á Íslandi er samt lágt hlutfall ónæmis miðað við Evrópulönd.2

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf út aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi árið 2015 og það sama gerði ECDC árið 2017.3,4 COVID-19 faraldurinn árin 2020 til 2022 setti þó strik í reikninginn og athygli alþjóðastofnana beindist að heimsfaraldrinum meðan önnur verkefni biðu.

Notkun sýklalyfja (J01) utan sjúkrahúsa á Norðurlöndunum árin 2012-2021 samkvæmt ESAC-Net, mæld sem dagsskammtar (DDD) á 1000 einstaklinga á dag.2

Nú beinast sjónir manna að sýklalyfjaónæmi á ný. Ráð ESB samþykkti á þessu ári tilmæli sem eiga að efla aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi, og stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum. Innan ramma EU4Health mun ESB veita fjármagni til evrópskra samstarfsverkefna til að styrkja vinnu í þessum málaflokki, til dæmis með landsaðgerðaáætlunum, samræmdri vöktun og fræðslu. Ísland er meðal 30 Evrópulanda sem eru aðilar að EU-JAMRAI 2 verkefninu (European Joint Action on Antimicrobial Resistance and Healthcare Associated Infections-2) sem hefst 2024.

Fyrir tæpu ári var skipaður starfshópur um aðgerðaáætlun fyrir Ísland í samstarfi þriggja ráðuneyta. Starfshópurinn hefur það hlutverk að móta framtíðarsýn til tíu ára og aðgerða- og framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára, auk þess að vinna að vitundarvakningu í samfélaginu.

Heildarsala sýklalyfja árið 2022 var svipuð og árið 2019. Salan náði hámarki árið 2017, en dróst svo saman, sérstaklega árin 2020 og 2021. COVID-19 faraldurinn hafði þau áhrif að draga úr tíðni annarra sýkinga og notkun sýklalyfja. Nú virðist staðan orðin svipuð og fyrir faraldurinn. Sýklalyfjanotkun á Íslandi er meiri en á hinum Norðurlöndunum (sjá mynd) en þau vinna þegar eftir landsaðgerðaáætlunum gegn sýklalyfjaónæmi. Þá eru ávísanir á tetracýklín-sýklalyf hérlendis sérstaklega margar í evrópskum samanburði.2

Miklu máli skiptir að vanda val á sýklalyfjum við meðhöndlun sýkinga og nota sem þröngvirkust sýklalyf. Hins vegar hefur skortur á sýklalyfjum, sérstaklega þröngvirkum penicillínum, verið tilfinnanlegur. Lyfjaskortur er alþjóðlegt vandamál og tekur Lyfjastofnun þátt í norrænu og evrópsku samstarfi til að bregðast við því. Framkvæmdastjórn ESB, samtök forstjóra Lyfjastofnana á EES-svæði og Lyfjastofnun Evrópu gáfu nýlega út ráðleggingar til að sporna við skorti á nauðsynlegum sýklalyfjum veturinn 2023-2024.2 Einungis með samstilltu átaki lækna, stofnana og stjórnvalda næst árangur gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Heimildir


1. European Centre for Disease Prevention and Control. Assessing the health burden of infections with antibiotic-resistant bacteria in the EU/EEA, 2016-2020. ECDC, Stokkhólmi 2022.

2. Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2022. Skýrsla unnin í samstarfi við Lyfjastofnun, Landspítala og Matvælastofnun. Ritstj.: Halldórsdóttir AM. island.is/syklalyfjaanaemi-og-syklalyfjanotkun/skyrslur - september 2023.

3. Global Action Plan on Antimicrobial Resistance. I. World Health Organization 2015. who.int/publications/i/item/9789241509763 - október 2023.

4. A European One Health Action Plan against Antimicrobial Resistance (AMR). European Commission 2017. health.ec.europa.eu/system/files/2020-01/amr_2017_action-plan_0.pdf - október 2023.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica