11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bókin mín. Ljóðrás ævi minnar. Margrét Birna Andrésdóttir

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

 

Það fór að bera á ljóðaáhuga mínum um það leyti sem ég byrjaði í menntaskóla. Ég sogaðist að ljóðforminu og fannst mjög mikilvægt að lesa ljóðin upphátt. Á þessum árum átti ég margar góðar stundir fyrir framan bókaskáp á heimilinu, þegar enginn var heima. Þar var af nógu að taka og ég prófaði marga höfunda. Mér fundust ljóðaþýðingar Magnúsar Ásgeirssonar hljóma vel, las líka Jóhannes úr Kötlum, Stefán Hörð Grímsson og marga fleiri. Ég hef tekið eftir því að ýmsar endurminningar mínar eru tengdar ljóðlistinni, og því ætla ég með ykkur í ljóðaferðalag.

Fyrsta ljóðastopp er í frönskutíma í MR. Kennarinn kom oftast í tímana með segulbandstæki undir hendi, skellti því á púltið og setti af stað. Það voru gjarna samtöl úr kennslubókinni Rendez-vous en France, en einn daginn hljómaði ljóðið Déjeuner du matin eftir Jacques Prévert. Það var fallegasti lestur sem ég hafði heyrt, ljóðið svo einfalt og hversdagslegt að ég gat skilið það, en á sama tíma hádramatískt. Morgunverður fjallar um mann sem hellir kaffi í bolla, setur mjólk í kaffið, sykur út í og hrærir í með teskeið, fær sér sopa og leggur bollann niður, án þess að yrða á mig. Hann á síðan eftir að fá sér sígarettu, slá öskuna af og búa til hringi úr reyknum, standa upp, fara í regnkápuna, af því það rignir, og yfirgefa staðinn án þess að líta á mig. Þessi ljóðaflutningur Serge Reggiani varð til þess að ég kom við í Bóksölu stúdenta á leiðinni heim úr skólanum og keypti Paroles eftir höfundinn franska og er það þvældasta og mest lesna bók í minni eigu.

Næsta ljóðastopp er í Liverpool, þar sem læknanemar voru á krufningaferðalagi. Við kynntum okkur anatómíu mannslíkamans á daginn en könnuðum borgarlífið á kvöldin. Pönkið var byrjað og við fórum margar ferðir í næturklúbbinn fræga, Cavern, til að heyra nýjustu tónlistarstraumana. Ég vatt mér inn í bókabúð þar til að spyrjast fyrir um staðarskáld og var þá bent á The Mersey Sound, þrjú skáld frá bítlatímanum. Ég valdi nokkrar bækur eftir Roger McGough. Hann orti meðal annars ljóðið um grænmetisæturnar, Vegetarians. Þar fjallar hann um sársauka sem hinar ýmsu tegundir ávaxta og grænmetis upplifa þegar hýðið er rifið af þeim, þær soðnar lifandi og svo framvegis. Everybody knows that a carrot screams when grated, that a peach bleeds when torn apart, do you believe that tomatoes spill their brains painlessly? Mér fannst gaman hvernig hann lék sér að orðum og sýndi hversdagslega hluti í nýju og óvæntu ljósi, oft með hæðni og húmor.

Næsta ljóðastopp er á Spáni. Við Anna vinkona mín tókum okkur ársleyfi úr læknadeild og héldum til Spánar. Við fengum pláss á spítala í Barcelona en héldum svo til Granada í lokin. Þar komumst við í meira návígi við fortíðina en ég hefði haldið að væri hægt. Það var skáldið Rafael Alberti sem tróð upp í háskólagarðinum og rakti sögur af vini sínum, Federico García Lorca. Ég þurfti að melta þetta, fyrir mér var Lorca svo mikil þátíð, en hann var sem kunnugt er drepinn af falangistum árið 1936. Ég þekkti Lorca af þýðingum Magnúsar Ásgeirssonar og hafði lesið hann fyrir bókaskápinn hér áður. Nú vorum við komnar á slóðir skáldsins, umkringdar áhrifavöldum hans: Sierra Nevada, Alhambra og sígaunum sem klöppuðu taktfast með flamengótónlistinni.

Næsta ljóðastopp er í Hollandi. Þá fór að syrta í álinn. Það var ómögulegt að toga upp úr Hollendingum hvaða skáld maður ætti að þekkja. Hver var þeirra Jónas? Yrkja þeir ekkert? Svörin voru: „þú hefur ekkert gaman af þessu“ og „þetta er svo kalvínistískt“. Mig minnir að það hafi verið hjúkrunarfræðingur sem kom dag einn með ljósrit af ljóði eftir Jan Slauerhoff. Það heitir In Nederland og fjallar um það hvað Hollendingar eru daufir og leiðinlegir, stífir og rólegir, tala hægt, reiðast aldrei almennilega og dansa ekki uppi á borðum, að þeir geti kvalið bóndadurg, en aldrei framið almennilegt ástríðumorð. Það má náttúrulega segja að þetta tiltekna ljóð sé í takt við það sem mér hafði áður verið sagt um kveðskap þeirra. Þegar ég kvaddi landið eftir tíu ára dvöl var ég leyst út með eintómum ljóðabókagjöfum. Þá var allt í einu til nóg af ljóðabókum.

Það er enn fullt rennsli í ljóðrásinni, nú aftur á Íslandi.

Ég skora á Ólaf Skúla Indriðason nýrnalækni að skrifa næsta pistil!

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica