11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Minningargrein um Helga Kjartan Sigurðsson - 1967-2023

Lífið er hverfult, það sjáum við stundum í starfi okkar lækna. Í sumar fundum við skyndilega sterkt fyrir því hvað líf okkar og starf er ófyrirsjáanlegt þegar kær samstarfsfélagi okkar, Helgi Kjartan Sigurðsson, var tekinn frá okkur á mjög sviplegan hátt. Helgi Kjartan var einn af okkar reyndustu skurðlæknum og við sem eftir sitjum erum fyrst og fremst þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast honum og fyrir allt sem við höfum lært af honum, bæði í lífi og starfi.

Helgi Kjartan lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1994. Eftir kandídatsárið hóf hann nám í skurðlækningum á Borgarspítala 1996 til 1997. Þaðan lá leið hans í framhaldsnám til Stavangurs í Noregi þar sem hann varð sérfræðingur í almennum skurðlækningum árið 2001 en sama ár fékk hann sérfræðiviðurkenningu á Íslandi. Hann lauk frekara námi í skurðlækningum meltingarfæra í Noregi 2003 með áherslu á ristil- og endaþarmsskurðlækningar. Hann varði doktorsritgerð sína, Advanced Rectal Cancer – Aspects on Palliative Surgery from a National Perspective, árið 2008 við Háskólann í Stavangri. Helgi Kjartan byrjaði í hlutastarfi við skurðdeild Landspítala árið 2006 og hóf þar fullt starf ári síðar. Hann varð klínískur lektor við Háskóla Íslands árið 2010.

Helgi Kjartan var formaður Skurðlæknafélags Íslands (SKÍ) á árunum 2012-2016 og gjaldkeri SKÍ árin 2016-2018. Hann var formaður samninganefndar SKÍ árin 2011-2016. Á þessum vettvangi vann hann mjög ötult og óeigingjarnt starf. Hann var vel að sér í vinnulöggjöf, almennum réttindum og skipulagi læknastarfsins og hafði ríka réttlætiskennd sem átti stóran þátt í að ná fram góðum samningum fyrir hönd skurðlækna. Helga Kjartani var umhugað um eftirlaunaárin enda meðvitaður um skemmri starfsævi lækna en almennt þekkist, ekki síst skurðlækna, og barðist fyrir því að dregið gæti úr vinnuálagi lækna með hækkandi aldri þeirra.

Helgi Kjartan var einn af lykil-mönnum og frumkvöðlum sérgreinarinnar í öflugu teymi ristil- og endaþarmsskurðlækninga. Hann var fyrstur til að hefja holsjáraðgerðir á æxlum í endaþarmi gegnum endaþarmsop og árið 2016 tók hann þátt í að innleiða og framkvæma þjarkaaðgerðir á ristil- og endaþarmskrabbameinum.

Helgi Kjartan var hjálpsamur og átti einstaklega gott með að gefa af sér til samstarfsfélaganna. Það var ómetanlegt að geta leitað til hans þegar vandamál komu upp eða þegar leysa þurfti úr erfiðum verkefnum. Við finnum fyrir nærveru hans og söknum þess að njóta ekki lengur starfskrafta hans og góðra ráðlegginga. Sjúklingar og samstarfsfólk sáu hversu meðvitaður hann var um hlutverk sitt sem læknir. Hann sinnti starfi sínu af mikilli ástríðu og hafði hag sjúklingsins ávallt í forgrunni. Hann vissi að skjólstæðingar hans lögðu allt sitt traust á hann og hans teymi. Þar gerði hann miklar kröfur til sjálfs sín og allra þeirra sem komu að meðhöndlun þeirra. Hann var traustur bæði sem læknir og ekki síst sem samstarfs-félagi og vinur.

Helgi Kjartan var hreinskiptinn, einstaklega ljúfur, skemmtilegur og glaður og hafði hlýtt bros. Hann var einlægur og átti mjög gott með að samgleðjast öðrum. Hann naut þess að lifa og njóta þeirra lystisemda sem lífið bauð upp á. Hann vissi vel hvað skipti máli og var þakklátur fyrir það sem hann átti. Fyrir utan starf sitt átti Helgi Kjartan mörg áhugamál sem hann og Birna Björk, eiginkona hans, nutu saman og má þar nefna ferðalög, matseld, fjallgöngur, golf og laxveiði.

Minningin um Helga Kjartan mun lifa áfram í hjörtum okkar.

Fyrir hönd kviðarholsskurðlækna á Landspítala,

Jórunn Atladóttir og Páll Helgi Möller

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica