11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Ráðherra vill nýta allt kerfið gegn biðlistum, sagði hann á aðalfundi LÍ

„Við höfum áhuga á að semja áfram um aðgerðir og meðferðir þar sem biðlistar hafa myndast,“ segir heilbrigðisráðherra. Hann hyggst gefa sjúklingum tækifæri til sjúkratryggðra aðgerða á einkareknum stofum þar sem þörf er á

„Nóg er komið af tímabundnum átökum til að ná niður biðlistum,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Hann sjái fyrir sér frekari samninga Sjúkratrygginga Íslands um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, jafnvel til lengri tíma, nú þegar fyrirséð er að þörfin aukist enn.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var gestur á aðalfundi Læknafélags
Íslands sem haldinn var 20. október. Hér er hann við hlið Steinunnar Þórðardóttur, formanns félagsins. Mynd/gag

Ráðherra nefnir liðskiptaaðgerðir, aðgerðir á augasteinum, kvennaaðgerðir vegna til dæmis endómetríósu, sem og ýmsar hryggaðgerðir og efnaskiptaaðgerðir. „Fyrir mér eru aðgerðirnar partur af lýðheilsu,“ segir hann: „Við þurfum að ná tökum á því að fólk bíði ekki of lengi og sé virkt í vinnu eða öðru sem það gerir í lífi sínu.“

Willum segir þó mikilvægt að aðgerðirnar verði líka hluti af sjúkrahúsunum og þeirri færni sem þurfi að vera til staðar inni á þeim. Hann sjái fyrir sér að skjólstæðingar kerfisins geti valið hvert þeir fara í aðgerðirnar.

„Við vinnum að þessu aukna aðgengi núna. Þetta er sýn og ég get því ekki svarað nákvæmlega til um tímasetningar.“ Þó sé ljóst að framhald verði á útboðum liðskiptaaðgerða á nýju ári.

Heilbrigðisráðuneytið bauð út 700 aðgerðir í upphafi árs. Klíníkin og Handlæknastöðin (Cosan) fengu verkin. „Það var óhjákvæmilegt að fara í útboðið svona og fara af stað og opna á þetta. Ég er ánægður með að við skyldum taka skrefið. Ég held að það sé óumdeilt að það var rétt að gera,“ segir hann.

Alls voru 858 liðskiptaaðgerðir gerðar fyrstu níu mánuði ársins, samkvæmt mælaborði Embættis landlæknis. Nú er svo komið að Klíníkin hefur gert fleiri aðgerðir en Landspítali, eða 283, eða 33%, á meðan spítalinn gerði 248 aðgerðir, 29%. Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi gerði 15% þeirra, Sjúkrahúsið á Akureyri gerði 14% og Handlæknastöðin 9%.

Sigurður Ingibergur Björnsson, fram-kvæmda-stjóri Klíníkurinnar, segir þrjá bæklunar-lækna skera. „Við förum í um 700 aðgerðir á Klíníkinni í ár og erum stærsta liðskiptaklíníkin á landinu,“ segir hann en eins og sjá má á orðunum eru flestar án greiðsluþátttöku ríkisins. „Við stefnum á að gera um 1000 aðgerðir á næsta ári.“

Ráðherra segir nú unnið að því að taka saman hvernig tekist hafi til og gögnin verði svo rýnd. Hann leggur áherslu á mikilvægi sýnar sinnar. „Það eru sífellt fleiri sem þurfa til að mynda að fara í augasteinsaðgerðir og vandinn stækkar.“ Það kosti sannarlega að vinna niður biðlista.

„Aðalkostnaðurinn er þó fyrir samfélagið í heild þegar fólk verður óvirkt, kemst ekki til vinnu eða virkni í öðru. Við viljum koma þessu á og bæta aðgengi. Þetta þarf að vinnast með spítölunum og öllum sem geta gert aðgerðirnar. Þeir sem þurfa aðgerðirnar þurfa að hafa þetta aðgengi,“ segir hann. „Spítalarnir geta bara ekki einir og sér sinnt þessu.“

Nú sé unnið með að ná upp nýtingu á skurðstofum Landspítala. „Vísbendingar eru um að það sé að takast hægt og rólega.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica