11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Mannréttindi í brennidepli á ársfundi WMA í Rúanda

Formaður LÍ stýrði árlegum fundi siðanefndar Alþjóðalæknafélagsins

„Siðanefnd Alþjóðalæknafélagsins setur sig algjörlega á móti dauðarefsingum,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður LÍ og siðanefndar Alþjóðalæknafélagsins, WMA. Hún sótti árlegan aðalfund WMA í Kigali í Rúanda dagana 4.-7. október síðastliðinn. Fulltrúar 49 landslæknasamtaka um allan heim sóttu fundinn.

Formenn norrænu læknafélaganna. Anne-Karin Rime, frá því norska, Sofia Rydgren Stale, formaður þess sænska, Camilla Noelle Rathcke, formaður þess danska, Niina Koivuviita, formaður finnska, og Steinunn Þórðardóttir, formaður LÍ.

Stjórn Alþjóðalæknafélagsins fordæmdi löggjöf í Úganda þar sem samkynhneigð er ólögleg og varðar dauðarefsingu. „Löggjöfin er skelfing,“ segir Steinunn. Kallað var eftir vopnahléi í Súdan og fordæmt að sjúkrabílar í Íran væru notaðir í annarlegum tilgangi.

Stærst mála á fundinum var þó að Alþjóðalæknafélagið fordæmdi framferði kínverskra yfirvalda gegn Úígúrum, múslimskum minnihluta í Xinjiang-héraði. Þar hafi læknum verið beitt til að framkvæma þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir til að koma í veg fyrir barneignir innan hópsins. Í ályktuninni var einnig endurtekið ákall mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna frá miðju ári 2019 um að óháðum alþjóðlegum eftirlitsaðilum verði hleypt á svæðið.

Steinunn stýrði sínum öðrum fundi sem formaður siðanefndar félagsins. „Þessi samtök eru stofnuð eftir seinni heimsstyrjöldina vegna stríðsglæpa sem læknar frömdu. Við Íslendingar viljum vera aðilar að því samtali og taka þátt í að móta siðferðisgrundvöll lækna um allan heim.“

Steinunn segir stuðningsnet lækna afar mikilvægt. Vegið sé að læknafélögum víða um heim. „Formaður tyrkneska læknafélagsins var til að mynda handtekin í kjölfar útvarpsviðtals. Þá hafa stjórnvöld í Ísrael þjarmað að læknafélaginu þar.“ Læknar þurfi sterkt bakland. „Alþjóðasamstarf er styrkur fyrir lækna um allan heim.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica