10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Dagur í lífi innkirtlalæknis. Margrét Einarsdóttir

06:30 Vakna við hlátur. Synirnir, tveggja og sex ára, eru vaknaðir og greinilega gaman hjá þeim. Stuttu seinna öskrar yngri sonurinn og ég fer á fætur. Morguninn gengur vel fyrir sig. Í dag er minna stress en venjulega því ég vinn heima og eiginmaðurinn, Baldur Þórólfsson, er ekki með neinar aðgerðir. Ég hef ekki verið mikið í klínískri vinnu að undanförnu því skiladagur á doktorsritgerðinni nálgast. Ritgerðin, sem fjallar um bælingu nýrnahettna vegna sykursteranotkunnar, er næstum tilbúin og leiðbeinendur mínir eru að lesa hana yfir.

07:30 Eiginmaðurinn fer með synina í skóla og leikskóla. Ég borða morgunmat í rólegheitunum.

08:00 Opna tölvuna. Skoða tölvupóst frá Gautaborgarháskóla, forsíðan á ritgerðinni er tilbúin. Sendi nokkra tölvupósta til að skipuleggja prufu á tæknilegum atriðum þremur dögum fyrir vörnina.

09:30 Sendi inn vísindagrein sem er hluti af doktorsritgerðinni. Eitt vafaatriði og ég sendi tölvupóst á leiðbeinandann minn, Óskar Ragnarsson, og fæ svar um hæl. Næ að senda greinina inn og vona að ritstjórn tímaritsins finnist hún áhugaverð.


„Ég hef ekki verið mikið í klínískri vinnu að undanförnu því skiladagur á doktorsritgerðinni nálgast.“ Mynd/aðsend

11:30 Fæ skilaboð frá kollega. Einn af sjúklingunum mínum fór í blóðprufu í morgun og rannsóknastofan hringdi því kortisólgildið er lágt. Þessi sjúklingur er með þekktan kortisólskort vegna sykursteranotkunar. Hér er lítil hætta á ferð því sjúklingurinn er kominn á uppbótarmeðferð og tekur hýdrókortison töflur tvisvar sinnum á dag. Þar að auki er sjúklingurinn búinn að fá fræðslu um kortisólskort.

12:15 Fer út að hlaupa, borða hádegismat og fer í sturtu.

13:30 Zoom-fundur með Ragnhildi Bergþórsdóttur, kollega á innkirtladeild Sahlgrenska-sjúkrahússins. Eftir tvo daga eigum við að kynna grein sem við skrifuðum um Addison-sjúkdóm. Greinin var valin ein af bestu greinum Läkartidningen í fyrra og því vorum við beðnar um að kynna greinina fyrir koll-egum á lyflækningasviði Sahlgrenska. Við skipuleggjum fyrirlesturinn, Ragnhildur mun kynna eitt tilfelli og ég mun fjalla almennt um Addison-sjúkdóminn.

15:00 Eiginmaðurinn, Baldur Þórólfsson bæklunarlæknir kemur heim. Á miðvikudögum sinnir hann Frölunda íshokkíliðinu og þá er hann stundum búinn snemma. Við sitjum með tölvurnar og vinnum. Hann er líka í doktorsnámi og þarf að svara ritrýnum.

16:15 Sæki synina. Eins og venjulega mikil gleði þegar bræðurnir hittast en sú gleði endist mislengi. Þeir leika sér á skólalóðinni. Hitti íslenska kollega sem eru að sækja börnin sín.

17:00 Stutt stopp heima. Klæði yngri soninn í íþróttaföt, set hann í kerruna og labba af stað. Næst á dagskrá er íþróttanámskeið fyrir 2-3 ára börn. Sjáum til hvernig það gengur.

17:20 Sonurinn eltir bolta og ég elti soninn.

18:00 Hittum eldri soninn og eiginmanninn fyrir utan íþróttahúsið. Förum á pizzastaðinn í hverfinu.

19:00 Komum heim. Ég og eiginmaðurinn ákveðum að skipta liði. Ég svæfi drengina og hann vinnur í tölvunni. Næ sjálf að vinna í fyrirlestrinum á meðan drengirnir sofna.

20:30 Synirnir sofnaðir. Við hjónin höfum þá reglu að gera eitthvað skemmtilegt þegar drengirnir eru sofnaðir. Í þetta skiptið horfðum við á sænskan grínþátt. Gott að horfa á eitthvað fyndið fyrir svefninn.

22:15 Komin upp í rúm. Ég fer yfirleitt snemma að sofa því það er engin leið að vita hvernig synirnir sofa á nóttunni.


 Þetta vefsvæði byggir á Eplica