10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Árlegur fundur ritstjórna norrænu læknablaðanna

Ritstjórnir norrænu læknablaðanna hittust í Osló í byrjun september. Fundurinn var haldinn í húsi norska læknafélagsins, Legenes hus, sem var endurnýjað að fullu á meðan á heimsfaraldri Covid-19 stóð og hýsir líka skrifstofur norska læknablaðsins, Tidsskriftet. Húsið stendur við einn elsta miðpunkt Oslo, Christiania torv, sem er torgið sem dansk-norski kóngurinn Christian IV ákvað eftir stórbruna í borginni, árið 1624, að yrði endurbyggt og torgið gert að miðpunkti Osló, en listaverk með hönd hans prýðir torgið.

Fundirnir eru verulega mikilvægir öllum norrænu læknablöðunum, sem sést best á því hve góð mæting er frá löndunum fimm, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Opin umræða er um allt er varðar blöðin, gang blaðanna, lestur þeirra, dreifingu, kostnað, innhald fræðilegs sem félagslegs efnis og skipst á skoðunum um hvað er gott og hvað megi betur fara. Læknafélögin standa að baki útgáfu norrænu læknablaðanna en öll blöðin hafa fullkomið ritstjórnarlegt sjálfstæði, fyrir utan reglubundinn pistil frá stjórn læknafélaganna í sumum tilfellum. Prentað eintak blaðsins er enn mikilvægasta formið en blöðin eru einnig birt í opnum aðgangi á netinu. Í heimi breytinga er mikilvægt að fylgjast með hvað gengur vel, til dæmis hvað varðar Facebook sem læknar virðast nota minna en almenningur meira. Hvar er umferðin mest, hvaða greinar eru mest lesnar. Hvað vilja læknar lesa og ekki síst, hvað vilja læknar hlusta á. Hlaðvörpin eru greinilega að taka meira pláss og það var gaman að kynna nýtt hlaðvarp Læknablaðsins sem einmitt fór í loftið daginn fyrir fundinn og hefur hlotið verðskuldaða athygli.

Myndir af Legenes hus, húsi norska læknafélagsins, í hjarta Oslóar.

En þó læknablöðin séu öll að nútímavæðast eru það alltaf fræðigreinarnar sem eru meginstoð blaðanna og afar gefandi umræður voru um þær, svo sem varðandi ritrýni, lengd, framsetningu, innihald og fleira.

 

Kristján IV ákvað að endurreisa borgina undir sínu nafni eftir stórbruna árið 1624 og Christiania torv varð þá upphafsreiturinn.

Við nutum gestrisni norska læknablaðsins að loknum löngum fundi. Skoðað var nýja Munch-safnið með leiðsögn undir merkjum heilsu – en lífssaga Munchs tengdist mikið sjúkdómum og sorg eins og sjá má í verkum hans. Fundurinn var mikil innspýting góðra hugmynda og gefandi umræðna um útgáfu læknablaðs og ómetanlegt fyrir litla þjóð að vera þátttakandi í svo nánu og gefandi samstarfi.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica