10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Frá Læknafélagi Íslands. Hvernig á að fjölga læknum? Eftirspurnin vex hröðum skrefum

Fólksfjölgun, breyting á aldurssamsetningu íslensku þjóðarinnar og fjöldi erlendra ferðamanna til landsins eru allt þættir sem auka þörfina fyrir heilbrigðisþjónustu. Eftirspurn eftir læknum vex samhliða þeirri þróun. Ákvæði um lágmarkshvíld lækna og breytt viðhorf lækna til jafnvægis milli vinnu og einkalífs hefur einnig áhrif á þessa þörf. Áhugavert er að skoða hvernig löndin í kringum okkur eru að bregðast við aukinni þörf á læknum.

Í Noregi var skipuð nefnd árið 20191 sem fékk það hlutverk að leggja mat á fjölda læknanema í Noregi og hvernig norskir háskólar gætu menntað fleiri lækna. Hluti ástæðu þessarar vinnu eru alþjóðlegar skuldbindingar Norðmanna, til að mynda gagnvart Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) um að taka aukna ábyrgð í þjálfun eigin heilbrigðisstarfsfólks. Í því tilliti er bent á að það sé siðferðislega vafasamt að ríki eins og Noregur skuli ekki mennta sjálfir þá sérfræðinga sem þeir þurfa.

Núna er Noregur háður því að ráða lækna menntaða erlendis til að mæta þörfinni fyrir læknisþjónustu. Tölur frá OECD fyrir árið 2020 sýna að um 41% lækna í Noregi er menntaður utan Noregs. Tveir af hverjum þremur norskum læknanemum stunda nám í Póllandi, Ungverjalandi og Slóvakíu. Í samanburði við lönd eins og Danmörku og Bretland sker Noregur sig úr fyrir að hafa lítinn metnað fyrir menntun eigin lækna. Þá hafa Svíar einnig gert ráðstafanir nýlega til að auka eigin menntunargetu í læknis-fræði.

Nefndin mælir með að Noregur mennti um 80% þeirra lækna sem landið þarf. Það svarar til 1076 námsplássa. Þetta þýðir fjölgun um 440 námspláss, sem bætast við þau 636 námspláss sem fyrir eru. Aukningin verði tekin í skrefum og verði lokið haustið 2027. Í ár var ákveðið að fjölga nemum í læknisfræði um 65.2

Ríkisstjórn Svíþjóðar ákvað árið 2017 að fjölga námsplássumí læknisfræði í Svíþjóð um 440 á árunum 2017 til 2023. Kostnaðurinn við þessi 440 pláss nemur um 96 milljónum sænskra króna.3

Í Danmörku eru um 4,3 læknar/1.000 íbúa (2020) og fjöldi útskrifaðra lækna er 23/100.000 íbúa, sem er eitt hæsta hlutfall innan OECD.4 Árið 2018 voru 1395 námspláss í læknisfræði á BS-stigi í Danmörku. Árið 2019 var fjölgað um 250 pláss og þeim dreift á allar læknadeildir þannig að þau urðu 1645. Það þýðir 28,3 námspláss á hverja 100.000 íbúa árið 2019. Með fleiri plássum fyrir nema í læknanámi er Danmörk ekki háð læknum sem menntaðir eru utan landsteinanna.5

Á Íslandi eru um 4,25 læknar/1.000 íbúa (2023). Fjöldi útskrifaðra lækna hér er 10/100.000 íbúar en útskrifaðir læknar alls, bæði innanlands og erlendis, eru um 17/100.000 íbúa. Þeir sem útskrifast erlendis eru um 42% af heildarfjölda útskrifaðra lækna. LÍ hefur í ræðu og riti bent á að 30 fleiri þyrftu að bætast í hóp útskrifaðra lækna á ári hverju hér á landi ef halda á í við fólksfjölgun.

Háskóli Íslands og Landspítali í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið hafa unnið að því að greina hvernig megi fjölga læknanemum. Árið 2011 voru 50 nýnemar í læknadeild og 62 árið 2022. Þeim hefur því fjölgað um 24% á þessum árum.

Í kynningu á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í apríl 2023 kom fram að stefnt sé að því að fjölga nemendum í læknisfræði úr 60 í 90 til ársins 2028. Standa vonir til þess að sú áætlun nái fram að ganga og að tryggt verði að fjárframlög fylgi þeirri stefnumörkun.

Lítinn tilgang hefur þó að fjölga nemum í læknisfræði ef ekki verður samhliða tryggt að útskrifaðir læknar, sem fara til sérnáms í útlöndum, snúi aftur heim að sérnámi loknu. Fyrir liggur að nú þegar eru um 400 læknar á aldrinum 35-59 ára í vinnu erlendis þó sérnámi sé lokið. Leita þarf því allra leiða til að laða þessa lækna til starfa á Íslandi. Það má gera með margvíslegum leiðum, svo sem með skattalegu hagræði en slík úrræði eru nú afar takmörkuð. Mikilvægast er þó að tryggja að allt starfsumhverfi sé samkeppnisfært við það sem læknum býðst í nágrannalöndum okkar. Þar er stytting vinnutíma lækna örugglega mikilvægt atriði.

Heimildir

 

1. 11745900_rapport_utredning_fra_grimstadutvalget.pdf (regjeringen.no) - september 2023.
 
2. Beslutningsgrunnlag. Muligheter og kostnader ved økning av utdanningskapasiteten i medisin. Kunnskapsdepartementet. Økning av utdanningskapasiteten i medisinutdanningen i Norge (regjeringen.no) - september 2023.
 
3. Anderson J, LUNDBACK A. Läkarutbildningen byggs ut - 440 nya platser fram till 2023. lakartidningen.se/aktuellt/nyheter/2017/09/lakarutbildningen-byggs-ut-440-nya-platser/ - september 2023.
 
4. Health at a Glance: Europe 2022: State of Health in the EU Cycle. OECD Publishing, París 2022. oecd-ilibrary.org/social-issues-migration-health/health-at-a-glance-europe-2022_507433b0-en - september 2023.
 
5. Health at a Glance 2021. OECD Indicators. OECD Publishing, París 2021. oecd-ilibrary.org/sites/e152ca81-en/index.html?itemId=/content/component/e152ca81-en - september 2023.
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica