10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bókin mín. „Allir menn eru dauðlegir“ og fleiri gleðisögur! Páll Matthíasson

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Eiríkur Jónsson bað mig að skrifa um eftirminnilegar bækur og erfitt var að skorast undan því. Góðar bækur hafa áhrif á huga manns og jafnvel stefnu, þær fylgja manni gegnum lífið.

Fyrstu bókina sem olli straumhvörfum í mínum þankagangi las ég sem unglingur. Það er bókin Allir menn eru dauðlegir eftir franska tilvistarheimspekinginn og rithöfundinn Simone de Beauvoir. Saga sem spannar 500 ára tímabil, hefst 1279 á Ítalíu og segir frá Fosca greifa, sem verður fyrir því óláni að drekka ódáinsdrykk, svo hann getur ekki dáið. Sagan rekur svo vegferð hans gegnum aldirnar, hvernig allir sem hann elskar deyja, aftur og aftur, á meðan hann lifir og tekur nauðugur viljugur áfram þátt í veraldarsögunni, með öllum sínum endurtekningum. Í raun er bókin hrollvekja og maður fyllist þakklæti yfir því að dagar manns séu taldir, að lestri bókarinnar loknum.

Það rímar reyndar ágætlega við næstu bók sem hefur haft mikil áhrif á mig og ég les oft, en það er Predikarinn, ein af bókum Gamla testamentis Biblíunnar. Margir telja boðskap Salomóns konungs, sem talinn er hafa skrifað Predikarann um árið 1000 f.Kr., bölsýnan, en ég er ekki sammála því. Í bókinni segir: „Þannig sá ég að ekkert er betra en að maðurinn gleðji sig við verk sín þ að það er hlutskipti hans. Hver kemur honum svo langt að hann sjái það sem verður eftir hans dag.“ (Predikarinn 3:22). Og „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi“ (Predikarinn 4:6). Okkar dagar eru sem betur fer taldir, allt er háð tíma og tilviljun og við vitum ekki hvað bíður í næstu andrá. Því fylgir ákveðinn léttir.

Það er eitthvað við visku ævafornra texta, að lesa hugsanir manna sem voru uppi fyrir þúsundum ára, sem heillar mig mjög. Þannig er sú bók sem ég hef án nokkurs vafa gripið oftast til, í ýmsum útgáfum, frá því hún varð fyrst á vegi mínum um tvítugt, bókin Hugleiðingar eftir rómverska keisarann Markús Árelíus sem uppi var á 2. öld e.Kr. Hugleiðingarnar skiptast í 12 kafla og eru vangaveltur stóuspekings um lífið og tilveruna. Þær áskoranir sem keisarinn glímir við eru svo sammannlegar, að hafa stjórn á skapi sínu, að takast á við að hlutir fara ekki eins og maður vill, að fólk haga sér öðru vísi en maður kysi, að allt er hverfult og forgengilegt. Það er sérstaklega áhugavert að sjá hversu margt er líkt með áskorunum hins háa keisara Markúsar Árelíusar og þrælsins Epiktetosar, en hugsanir hans má finna í Handbók Epiktets.

Svo nær sé farið í tíma þá vil ég nefna bókina Sea Room: An Island life in the Hebrides, eftir Adam Nicolson, aðals-mann og greinahöfund, en þessi bók kom út árið 2001. Þegar Adam var 21 árs fékk hann frá föður sínum í arf þrjár óbyggðar eyjar, The Shiants, austur af Suðureyjum í Skotlandi. Bókin hans lýsir þessum eyjum, flóru þeirra og fánu, jarðfræði og sögu og vangaveltum -Adams um þennan ævintýraheim og hvers vegna hann tengist eyjunum svona sterkt. Ógleymanlegt rit.

Síðasta bókin sem ráðrúm gefst fyrir er Bókasafn föður míns, eftir Ragnar Helga Ólafsson. Bókin kom út árið 2018 og lýsir því verki hans að fara í gegnum mörg þúsund eintaka bókasafn sem hann erfði að föður sínum látnum. Þetta er hjartnæm og glettin bók sem hefur samt miklu dýpri þræði – vangaveltur um eðli sorgar, fallvaltleikann, hvers vegna fólk skrifar bækur og safnar þeim og hvað býr að baki tregðu okkar við að láta af hendi bækur sem eiga þó kannski takmarkað erindi við okkur. Það kann að vera að þessi bók hafi haft dýpri áhrif á mig en ella vegna þess að þegar ég las hana var faðir minn nýlega látinn og við það taldi bókasafn mitt orðið heila 7000 titla, mest bækur sem ég hafði erft frá ættingjum. Ég fór í naflaskoðun og sorgarvinnu og að henni lokinni hafði ég gefið, selt og fargað rúmlega 6000 af bókum mínum og átti aðeins þær sem virkilega skiptu mig máli eftir. Ekki tek ég bækurnar með mér í gröfina, börnin mín geta prísað sig sæl að sitja ekki uppi með fleiri tonn af bókum sem í raun væru þá minnisvarði um ákvörðunarfælni mína og það er ágætt að minnast þess að við borgum jú skattana okkar meðal annars til að reka almenningsbókasöfn – svo maður þurfi ekki að reka slík sjálfur!

Ég skora á Margréti Andrésdóttur nýrnalækni að skrifa næsta pistil!

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica