10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Hafije frá Kósóvó barðist fyrir því að verða læknir hér heima

„Ég elska starfið mitt og lifi fyrir það,“ segir Hafije Zogaj, heimilislæknir sem barðist fyrir því að fá læknisfræðinámið sitt frá Pristína í Kósóvó metið hér á landi. Sex árum eftir útskrift þar tókst henni að fá leyfi til að starfa sem læknir hér á landi. Síðan hefur hún lokið hér sérnámi í heimilislækningum

„Mér finnst að í stað þess að leggja allskonar gildrur og setja upp hindranir fyrir menntað fólk sem vill búa hér á landi ætti að búa til plan með tilheyrandi stuðningi. Þannig má leiða fólk með menntun sem fyrst inn í kerfið,“ segir Hafije Zogaj, heimilislæknir á Heilsugæslunni í Garðabæ. Hún lýsir því hvernig hún hafi tekið drjúgan hluta af læknisfræðinni aftur hér á landi með tilheyrandi hindrunum.

Hafije Zogaj, heimilislæknir á Heilsugæslunni í Garðabæ, kom frá Kósóvó árið 1992, þá útskrifuð úr læknisfræði. Hún lærði íslensku, barðist fyrir réttindum sínum og hefur starfað sem læknir hér á landi frá árinu 1998. Mynd/gag

„Hindranir í kerfinu seinkuðu mörgu hjá mér,“ segir Hafije sem flutti til Íslands 1992 „mállaus,“ eins og hún segir. „Ég fór í háskólann í íslensku og hélt það myndi duga. Ég vildi kynnast samfélaginu betur, bæði tungumálinu og menningunni, kynntist samnemendum og lærði íslensku frá grunni,“ segir hún og kláraði BA-próf.

„Austur-evrópsk læknisfræði gilti hins vegar ekki á Íslandi,“ lýsir hún og hvernig dags daglega stritið hafi náð henni og fyrrum manni hennar með börnin sín tvö, en það yngra fæddist hér á landi. „Ég þurfti að lifa af, fá laun og sjá fyrir börnunum. Vonin var grafin.“ Hún hafi þó reynt að fá réttindi sín metin hjá Embætti landlæknis en fengið að heyra að þar sem hún hefði vinnu, væri aðstoðarsjúkraþjálfari á Landspítala, mætti hún teljast heppin. Hún hafði þá þvælst milli starfa innan heilbrigðiskerfisins.

„Ég var hins vegar svo heppin að vinna með Ingibjörgu Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi á Grund, systur Ólafs Ólafssonar landlæknis á þeim tíma. Hann er bjargvættur minn í þessu lífi.“ Ingibjörg hafi hjálpað henni að fá annan fund hjá embættinu.

„Ég talaði að vísu við aðstoðarmann hans. Hann horfir á mig og ég bið um eitthvað annað starf í heilbrigðisgeiranum. Af hverju ekki læknir? spyr hann. Ég svara: Ég get það ekki. Læknadeildin er búin að hafna mér. Þannig lauk samtalinu,“ segir Hafije og lýsir því hvernig hún fékk stuðning.

„Tveimur vikum seinna fæ ég símtal á Grund þar sem ég var starfandi hjúkrunarfræðingur: Viltu byrja sem aðstoðarlæknir á Akureyri?“ Hún hafi gripið tækifærið.

„Þetta var lítið sjúkrahús og þau tóku mig í fangið og leiddu mig áfram. Ég fékk allar leiðbeiningar og stuðning sem ég þurfti,“ lýsir hún og hvernig þess var krafist að hún tæki fjögur stærstu prófin í læknadeildinni. „Þá bað ég um að fá að vera í fyrirlestrum síðasta ársins,“ segir hún. „Þar fékk ég gjöf. Ég kynntist þessum árgangi.“

Á þeim tíma hafi þó verið reynt að herða kröfurnar og henni sagt að hún þyrfti 12 próf til viðbótar. „Ég neitaði, fékk lögfræðinga Landspítala með mér og það tók tvö ár að fá því hnekkt. Læknadeildin fékk að endingu skipun frá heilbrigðisráðuneytinu um að viðurkenna prófið sem ég hafði og þar með fékk ég leyfið.“

Sterk bein. Hafije blæs frá sér og hlær. „Ég var heppin að vera að vinna undir stjórn sérfræðinganna á meðan ég var í náminu hér. Ég fékk klapp á bakið og þau studdu mig.“ Hafije útskrifaðist því á Íslandi og hlaut læknaleyfi, 12 árum eftir að hún lauk læknisfræðináminu í Pristína í Kósóvó árið 1990.

Einbeitti sér að framtíðinni

Hafije flutti frá Kósóvó, eins og áður sagði, árið 1992 enda tímarnir erfiðir. „Skólar voru óstarfhæfir, fólki var haldið frá vinnu og fé kom frá brottfluttum til að halda samfélaginu gangandi.“ Júgóslavía að liðast í sundur, sem leiddi svo til borgarastríðs. Hún sá ekki fyrir sér framtíð í heimalandinu.

„Ég átti eftir að sérmennta mig og vildi komast hvert sem er: Ísland.“ Landið hafi orðið fyrir valinu því hér var auðvelt að setjast að. „Kollegar sem flúðu til Svíþjóðar og Þýskalands dvöldu í flóttamannabúðum eins og við sjáum núna 30 árum seinna að eru að koma á Íslandi,“ segir hún.

Hafije lýsir því að hún hefði farið af landi brott hefði hún ekki fengið læknaleyfi hér á landi. Hún hafi hins vegar fengið stuðning og klárað öll tilskilin próf til að fá leyfið. Mynd/gag

Smám saman hafi fleiri og fleiri úr stórfjölskyldunni sest hér að. „Bróðir minn flutti fyrst og nú búa hér fjórir bræður mínir með alla afkomendur sína,“ segir hún. „Við erum hér og höfum aðlagast mjög vel.“ Hún lýsir menningarsjokki að koma hingað fyrst, bæði kalt og Reykjavík lítil. Engin háhýsi og allt lokað um jólin. „Ég gat ekki keypt mjólk í 5 daga,“ segir hún og hlær.

„En hugsunin var aldrei að setjast að hér. Ég ætlaði að vinna og flytja til baka þegar ástandið lagaðist heima en það fór bara versnandi,“ segir Hafije, sem hafði verið hér í tvö ár þegar hún ákvað að taka málin í sínar hendur og gera eitthvað til að bæta stöðu sína.

„Þá fór boltinn að rúlla,“ segir hún og lýsir því hvernig hún hafi fengið meira eftir því sem hún ákvað að gefa meira af sér en fara ekki aðeins í vinnuna og heim aftur án afskipta nokkurs manns.

„Því meira sem ég gaf af mér, því meira fékk ég til baka. Ég opnaði mig og fór að tala við fólk og var fljótlega komin inn í samfélagið. Ég tók ákvörðun um að ég ætlaði að fúnkera hér og vera 100% borgari á meðan ég væri hér.“ Hún skildi við eiginmanninn og tók upp íslenska siði, til að mynda hélt hún jól. „Ég kom úr kommúnisma þar sem aldrei voru haldin jól.“ Hvert skref hafi hjálpað.

Stórfjölskyldan á Íslandi

„Ég tók þá ákvörðun að einbeita mér að börnunum mínum og framtíðinni. Þetta var fjárfesting, því á árunum 2000-2002, á meðan ég tók öll prófin, lifði ég á bankalánum,“ lýsir hún. Þetta hafi verið grundvallarspurning. Sætta sig við þá vinnu sem hún hafði eða elta draumana og verða læknir eins og hún kaus sér í Kósóvó. En hvernig eru tengslin við Kósóvó í dag?

„Ég fer árlega í frí. Ég er með litla íbúð þar. Dóttir mín, Edona Katrín Hoda 36 ára, og sonur, Gent Hoda 31 árs, hafa undanfarið komið með. Líka þriggja ára barnabarnið, Andrea Hjaltadóttir. Ég held samskiptum við skólafélaga mína, þökk sé Facebook. Síðan höfum við hist og styrkt sambandið,“ segir hún. Börnin hennar tali albönsku þótt íslenska ráði för.

„Það er ekki mér að þakka heldur stórfjölskyldunni sem kom á eftir mér að þau lifa í tvenns konar menningu. Þau eru þó meiri Íslendingar,“ segir hún. Sjálf hafi hún hugsað að þau yrðu að læra íslensku svo þau yrðu ekki af tækifærum sem hér bjóðast.

„Ég hugsaði að þau ættu eftir að verða keppinautar kynslóðar sinnar á vinnumarkaði og í lífinu og að ef þau ælust upp hér yrðu þau að læra 100% íslensku. Ég tók þessa ákvörðun og sé mestan hluta ekki eftir því, því þau pluma sig vel.“ Hún hafi horft til fólks sem hafi fæðst hér og ekki lært íslensku, hafi jafnvel klárað grunnskólagöngu án þess að vera góð í íslensku.

Sýnileiki skipti öllu

Hafije segist vera sátt og ánægð. Hana vanti ekkert. Hún er heimilislæknir í Garðabæ og syngur af lífi og sál, hefur bæði gefið út eigin tónlist og er í Múltí-kúltí kórnum. Hún lauk sérnámi hér og hefur unnið um allt land. Hún horfir á menningarmuninn milli Íslands og Kósóvó.

„Á Íslandi getur þú verið einmana innan um fólk nema þú grípir inn í. Það er öðruvísi í Balkanlöndum. Þar er talað við þig og þér sýndur áhugi. Þetta truflaði mig ekki. Ef ég þurfti hjálp leitaði ég eftir henni,“ segir hún.

En finnur Hafije fyrir hindrunum sem læknir með erlendan bakgrunn á Íslandi? „Blessunarlega hefur mér verið vel tekið af skjólstæðingum mínum, bæði á spítala og á heilsugæslunni. Mér hefur einnig verið vel tekið af kollegum sem ég hef starfað með,“ segir hún. „En þetta snýst um að vera með opinn huga og vera virk bæði í starfi og félagslega.“

Hún horfir á fordóma og einelti sem samskonar fyrirbæri. „Það geta verið fordómar gagnvart einstaklingum með annan bakgrunn, en þeir hverfa fljótt þegar fólk kynnist,“ segir hún. „Mér finnst uppruninn ekki skipta máli. Ef þú ert tilbúin að gefa og þiggja er þér vel tekið. Núna horfi ég á mig sem eina af hópnum.“

En sér hún fyrir sér hvar hún væri ef hún hefði ekki fengið læknaleyfi? „Ég hefði farið,“ segir Hafije. Það var lottóvinningur að fá réttindin viðurkennd. „Hefði það ekki orðið, hefði ég líklega flutt heim eftir stríðið. En ég fékk stuðning, klapp á bakið og var vel tekið,“ segir hún.

Atgervisflótti albanskra lækna

„Atgervisflótti er frá Albaníu. Það stefnir í neyðarástand því flóttinn kemur niður á þjónustunni. Evrópa grípur marga albanska lækna og menntað fólk. Nú starfa 2300 læknar frá Albaníu um alla Evrópu. Yfir 900 heilbrigðisstarfsmenn fóru frá Albaníu árið 2021. Læknanemar í Kósóvó og Albaníu læra þýsku samhliða námi. Þegar þau útskrifast eru þau altalandi á ensku og þýsku og stefnan er út,“ segir Hafije Zogaj, heimilislæknir.

Hafije hélt ráðstefnu þann 10. júní í Reykjavík fyrir Samtök albanska lækna í Evrópu en samtökin voru stofnuð í Þýskalandi og funda þrisvar á ári. Þau eru vettvangur til að styðja lækna sem koma einir og óstuddir til Evrópulanda.

„Við viljum líka leggja okkar af mörkum til að minnka atgervisflóttann,“ segir hún. „Tengja lækna og heilbrigðisstarfsfólk sem starfar erlendis, miðla þekkingu og skiptast á reynslusögum. Einnig halda tengslin við föðurlandið. Þá viljum við færa nýja þekkingu heim með reglulegum ráðstefnum í Tírana og Pristína og starfa þar tímabundið.“

Hafije fór á þrjár ráðstefnur félagsins í fyrra; í London, Kaupmannahöfn og Stuttgart, sem leiddi til þessarar ráðstefnu hér þar sem 20 albanskir læknar komu. „Þema ráðstefnunnar var: Fylgikvillar COVID-19,“ segir hún. „Við fengum líka fjölmiðla frá Pristína og Tírana og sýnt var frá fundinum á sjónvarpsstöðvum þar.“

Íslenskir læknar tóku einnig þátt í ráðstefnunni. „Það var mikill heiður að fá Sigríði Dóru Magnúsdóttur, frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, til okkar, Margréti Ólafíu Tómasdóttur, Ásmund Jónasson og Ólöfu Sigurðardóttir. Glæsileg ráðstefna.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica