10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Doctor Victor semur stef fyrir hlaðvarp Læknablaðsins

„Við læknar heyrum einkennandi hljóð, eins og í mónitor, hjartslátt, dagsdaglega í vinnunni. Mig langaði að koma því inn í lagið: þessu læknaelementi,“ segir Victor Guðmundsson læknir og tónlistarmaður þekktur sem Doctor Victor þegar hann lýsir stefinu sem hann samdi fyrir Læknavarpið, hlaðvarp Læknablaðsins. Fyrstu þættirnir eru komnir á Spotify.

Victor Guðmundsson læknir, Doctor Victor, kom fram með hlustunarpípuna um hálsinn á Þjóðhátíð nú í ágúst og er hér á stóra sviðinu fyrir framan tugþúsundir gesta.

Victor samdi með fleirum lag Vetrarólympíuleikanna í Kína 2022, gerði Galið gott með Páli Óskari sem sló í gegn í sumar, spilaði á stóra sviðinu á Þjóðhátíð og nú þetta einkennandi stef Læknavarpsins fyrir Læknablaðið.

Victor segir að hann hafi haft allskonar hugmyndir fyrir stefið. „Þá hef ég píanóbakgrunn og varð að hafa það með. Nú svo er ég kominn í elektróníska tónlist. Ég vildi koma þessu öllu saman en á sama tíma gera stef sem er spennandi og grípandi – segir að áhugavert viðtal sé að fara í gang. Láta það fanga stemninguna.“

Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins, hefur nú verið breytt. Áður var það unnið úr hljóðbútum úr blaðaviðtölunum sem tekin voru á síma en nú hefur ferlinu verið snúið við. Hlaðvörpin eru tekin upp í hljóðveri og textar fyrir blaðið unnir úr hágæða upptökum. Nýja stefið gerir svo blaðinu kleift að stíga öruggum skrefum inn á þennan ört vaxandi hlaðvarpsmarkað.

Lesendur Læknablaðsins geta sótt hlaðvörpin sem fyrr á vef blaðsins, Soundcloud og Spotify . Læknavarpið hefur nú einnig fengið bakhjarl í samheita- og líftæknilyfjafyrirtækinu Teva.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica