09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Sumarið er tíminn. Eyrún Valsdóttir

Ég var að koma úr sumarfríi. Það var einmitt í því sumarfríi sem ég fékk fyrirspurn frá ágætri konu á Læknablaðinu um hvort ég gæti hugsað mér að skrifa pistil undir þeim formerkjum að ég væri lipur penni. Sem ég veit ekki hvort ég er. Þannig að auðvitað fór ég strax í kvenlegt minnimennskubrjálæði og illa tímasetta fullkomnunaráráttu og bjó mig undir að afþakka. Þá kviknaði á einhverri þrjóskuröskun sem sagði mér að hætta þessum aumingjagangi og henda mér í verkið. Þessi þrjóska hefur komið mér í gegnum meira en 40 ár af lífi og sennilega sparkað mér á afturendanum í gegnum erfitt nám og ýmsar hindranir í lífinu. Svo takk þrjóskuröskun, ég elska þig!

En aftur að sumarfríinu. Mig langaði í alvöru að vera töff. Fara á einhverja afskekkta eyju í Langtíburtistan, fara um Austur-Evrópu á krumpuðum lestarmiða með bakpoka eða rífast um síðasta bananann við apa í frumskógum Suður-Ameríku. En með 10 bráðum 11 ára pre-gelgju sem lifir fyrir fótbolta og hefur smekk fyrir hinu ljúfa lífi? Þar skorti mig þrek og valdi því veginn með minnstu mótstöðuna.

Því elti ég hjörðina til Tene. Á feikilega huggulegt hótel með unglingaklúbbi sem bauð uppá Fifa-mót í leikjatölvum og fótboltavöll við hliðina sem var notaður upp til agna hvert einasta kvöld af sprækum fótboltakrökkum. Á meðan lá ég eins og hvalreki a sundlaugarbakkanum með nýju ástina í lífi mínu, sem er forláta lesbretti, og spændi upp hverja bókina á fætur annarri. Við hættum okkur nú samt út af hótelinu og úr litlu búbblunni af því það eru náttúrulega takmörk fyrir því hversu lengi er hægt að liggja á sólbekk áður en legusár myndast og vöðvatónus dettur í mínustölu. Svo við skelltum okkur á jet-ski sem var svo ótrúlega gaman að ég trúi ekki að ég hafi ekki prófað þetta fyrr. Á ströndinni köstuðum við okkur út í risaöldur Atlantshafsins og hlógum með sand í eyrunum og öðrum ónefndum stöðum.

Síðan fórum við í hvalaskoðun á litlum seglbáti þar sem meirihluti farþeganna varð heiftarlega sjóveikur. Þetta minnti óneitanlega á senu úr myndinni hans Rubens Östlund, Triangle of Sadness. Ég hlustaði með lokuð augun á kokhljóðasynfóníuna og þakkaði í hljóði fyrir sjómennskugen forfeðra minna. Þegar í land var komið gat vel klædda konan frá Manchester sem hékk út fyrir borðstokkinn í þrjá tíma aðeins endurtekið „never again, never again“. Við sáum þó grindhvalakálfa sem syntu sprækir í kringum bátinn og samkvæmt skipstjóranum voru þeir í pössun hjá ömmum sínum sem sjá um ungviðið meðan foreldrarnir afla fæðu. Ömmur eru sumsé líka ómissandi hjá sjávarspendýrum!

Þá var það rennibrautagarðurinn. Þar veit ég ekki hvort var skemmtilegra fyrir son minn, að fara í allar brjálæðislega bröttu beygjunar eða horfa á mömmu sína með klemmd augun að öskra út í eitt eins og vanstilltur páfagaukur. Sennilega erfitt að gera upp á milli!

En núna erum við á leið heim og sonur minn brosir út að eyrum og segir að þetta hafi verið besta frí í heimi. Ég er svo ósköp slök og ekki lengur á litinn eins og undanrenna heldur meira svona beislituð … og svo lifði ég af helvítis vatnsrennibrautirnar!

Því þetta snýst um samveru – og að búa til minningar.

Þessar hugleiðingar úr fríinu minna mig líka á að ég rifja stundum enn upp mínar sumarleyfisminningar með foreldrum mínum.

Tjaldútilegusumar á Íslandi. Gula tjaldið úr Seglagerðinni. Perubrjóstsykur og kóngabrjóstsykur í aftursæti á hvítum Citroen. Nöfn á fjöllum og ám þulin yfir hriplekum barnseyrum. Vatn úr fjallalæk sem í minningunni er besta vatn sem ég hef smakkað.

Köben þegar ég var 6 ára. Dýragarðurinn þar sem eftirminnilegustu hlutirnir voru risahraukarnir af fílakúk og rauðu rassarnir á bavíönunum. Seinkað analstig, myndu einhverjir Freudistar segja.
Sjá snigla með hús á bakinu og finnast það það allra merkilegasta sem ég hafði nokkurn tíma séð. Dobermann varðhundurinn á hótelinu þar sem við gistum og ég kastaði mér um hálsinn á áður en foreldrar mínir náðu að stoppa mig. Tilkynnti svo stolt fölleitri móður minni að hann væri að mala.

Sumarfrí er ævintýri og einhvern tímann er úti ævintýri.

Og í janúar þegar myrkrið og eftirjólaþynnkan heldur okkur í heljargreipum er gott að hugsa til baka og ylja sér í sálinni. Nú, eða plana næsta ævintýri …

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica