09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Fannst fagið vera góð blanda. Jón Hjaltalín Ólafsson

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Þegar ég útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands í janúar 1976 hafði ég enn ekki ákveðið hvert framhaldið skyldi verða. Í fyrirlestrunum um húð- og kynsjúkdóma fannst mér fagið vera góð blanda lyflækninga og minniháttar skurðlækninga, auk þess voru íslensku húðlæknarnir orðnir nokkuð fullorðnir (líklega verið mun yngri en ég er í dag).

Kennslan í læknadeild í húð var góð að mínu mati. Minnisstæðastir voru Hannes Þórarinsson og Jón Guðgeirsson, báðir afbragðsmenn og góðir læknar í þokkabót!

Fjölskyldan fór til Eskilstuna nánast beint eftir útskrift og vann ég þar á smitsjúkdómadeild og síðan á fæðingadeild í tæpt ár. Að þeim tíma liðnum fluttum við til baka til Íslands þar sem ég kláraði „kandídatsárið“. Guðmundur Sverrisson heilsugæslulæknir, sem var í afleysingum á húðdeild Sahlgrenska-sjúkrahússins í Gautaborg, hafði þá samband við mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að leysa af á húðdeildinni. Ég svaraði strax játandi, og er honum ævarandi þakklátur. Við fluttum í kjölfarið til Gautaborgar þar sem við dvöldumst í rúm 9 ár.

Sahlgrenska-sjúkrahúsið er nú stærsta sjúkrahús Svíþjóðar og mjög vinsæll staður. Á þeim tíma voru unglæknar á húðdeildinni einungis ráðnir í þrjá mánuði í senn fyrsta eina til eina og hálfa árið.

Ég fór mjög fljótlega að taka þátt í rannsóknum og eftir eitt ár kominn í eigin rannsóknarprógram með handleiðara. Ýmsar kröfur voru gerðar, meðal annars um mun meiri þekkingu á læknisfræðilegri tölfræði en kennd var í stærðfræðideild MR og læknadeild HÍ. Ég varð því að taka tölfræði við verkfræðideild Chalmers-háskólans í Gautaborg og standast próf þaðan. Það nám hefur gagnast mér mjög vel síðan.

Eftir rúm 9 ár í Svíþjóð, þar af fjögur ár sem „amanuens“ (assistant professor) við Gautaborgarháskóla, varði ég doktorsritgerð við Gautaborgarháskóla en verkefnið heitir „Systemic Mastocytosis“. Fljótlega eftir heimkomu til Íslands fékk ég yfirlæknisstöðu á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala og dósentsstöðu við læknadeild HÍ og sem forstöðumaður kennslugreinarinnar þar til ég hætti vegna aldurs, 70 ára. Ég vann alltaf í hlutavinnu á spítalanum og læknadeildinni. Þetta gerði mér jafnframt kleift að starfrækja eigin stofu að hluta til, en slíkt er ómetanlegt fyrir húðlækni fagsins vegna. Svipað fyrirkomulag tíðkast nánast alls staðar í heiminum, meðal annars í Svíþjóð! Ég hætti öllum störfum sem húðlæknir eftir 71 árs aldur.

Mér hlotnaðist sá heiður og ánægja að vera kjörinn stjórnarmaður í Evrópusambandi húð- og kynsjúkdómalækna, EADV (European Academy of Dermatology and Venereology). Greiðandi meðlimir EADV eru nú fleiri en 9000 talsins. EADV gefur út eitt af virtustu og útbreiddustu vísindatímaritum húðlækna (JEADV). Fyrstu þrjú árin var ég fulltrúi Íslands í stjórn en síðan kjörinn og endurkjörinn af stjórn EADV í yfirstjórn sambandsins sem yfirmaður fjármála, í 9 ár. Í þessum ólaunuðu störfum kynntist ég mörgum af þekktustu húðlæknum heims og held enn sambandi við marga þeirra mér til mikillar ánægju.

Ég vildi hvetja alla lækna sem geta til þess að taka virkan þátt í læknasamtökum hérlendis sem erlendis.

Að lokum vildi ég segja að ég hef aldrei séð eftir að hafa valið sérgreinina húð- og kynsjúkdómar (þótt lítið fari fyrir kynsjúkdómunum).

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica