09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bækur: „Tilkynni, herra höfuðsmaður“. Eiríkur Jónsson

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Sú bók sem sennilega hefur haft mest áhrif á mig er kennslubókin Gagn og gaman. Setningar úr henni hljóma enn í höfði mér. Á unglingsárum las ég bækur eins og Nonna, Grím grallara og Sandhóla-Pétur. Í þeirri síðastnefndu var kennd púðurgerð sem kom sér vel fyrir unga drengi. Bob Moran og Alistair MacLean fylgdu í kjölfarið en breyttust síðan í Pétur Gunnarsson og Þórarin Eldjárn. Alltaf þegar ég hefla blöðruhálskirtil og úr honum rúlla perlulaga steinar, sem hafa orðið þar innlyksa, dettur mér í hug smásaga Þórarins um manninn sem myndaði perlur á milli tánna og var greindur með „Ostru-heilkennið“. Læknirinn tók að sér að koma þessum perlum í verð en Hermann Kjögx gullsmiður gerði síðan úr þeim dýrar perlufestar. Sögupersónan þurfti þó að búa við fótraka, táfýlu og félagslega einangrun því að öðrum kosti dytti framleiðslan niður. Þagnarskylda læknisins tryggði að hvorki gullsmiðurinn né kúnninn vissu hvernig perlurnar komu til.

Bækur Laxness þola endurlestur alla ævi og á RÚV-sarpinum er hægt að láta skáldið lesa fyrir sig. Eftirlitsmaðurinn í Brekkukotsannál var mér lengi vel hulinn sjónum en ég tók svo loksins eftir honum. Hann var bóndi upp á Skaga sem fékk vitrun og seldi jörð sína til þess að geta stundað rekstur á náðhúsi í Reykjavík. Hreinlætið og natnin var slík að ekki fundust snyrtilegri kamrar þótt víðar væri leitað. Þá reyndist hann vera helsti velgjörðarmaður Garðars Hólm. Heimspeki eftirlitsmannsins gekk út á að leyfa hverjum og einum að lifa eins og hann sjálfur kýs svo fremi sem hann aftrar ekki öðrum að lifa eins og þeir vilja. Þá gerði hann heldur engan greinarmun á hetjum og litlum körlum, stórtíðindum og tittlingaskít.

Ef ég ætti að velja eina bók úr hillunni þá er það Ævintýri góða dátans Svejks eftir tékkneska rithöfundinn Jaroslav Hasek en Svejk gegnir herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni. Bókin er óborganleg háðsádeila á stríðsrekstur og vindhana sem belgjast upp á stríðstímum. Ekki er ljóst hvort Svejk er einfeldningur eða snillingur en framganga hans og tilsvör eru dásamleg og hægt að brúka við hin ýmsu tilvik daglegs lífs. Hann reyndi að sætta erkifjendurnar köttinn og kanarífuglinn en tókst svo illa til að kötturinn beit hausinn af fuglinum. Höfuðsmaðurinn sem Svejk þjónar lendir í miklum vandræðum vegna þessa skjaldsveins síns sem virðist þó ætíð ganga gott eitt til. Einhverju sinni þegar Svejk hefur gert svo alvarlegt axarskaft að höfuðsmaðurinn gat ekki einu sinni sagt honum frá því, maldar Svejk í móinn með þeim rökum að maðurinn læri nú einu sinni af mistökum sínum. Vísaði máli sínu til stuðnings til Adamek efnafræðings frá Daukovka sem drakk saltsýru í misgripum.

Mannlegur breyskleiki spilar stóra rullu í bókinni. Kráarfélagi Svejk sem sefur áfengisdauða vaknar og lemur í borðið segjandi: „Þessi djöfull dugar ekki lengur,“ og sofnar jafnskjótt aftur. Þá er þáttur átvaglsins og herfélaga Svejk, Baloun, óborganlegur. Þessi sísvangi maður hugsar stöðugt um mat og hámar í sig allt sem hann kemst yfir. Gilti einu hvort það var eigið nesti, félaga sinna eða höfuðsmannsins. Ýmislegt var reynt til þess að hemja hann, þar á meðal að binda hann við staur. Áhugaverðustu hugmyndina átti hins vegar Jurajda dulspekikokkur sem segir við þennan hömlulausa mann: – Þér, Baloun, ættuð að vaka yfir hverri hreyfingu yðar svo umhverfið nái ekki valdi á yður. Í hvert skipti sem þér standið andspænis mat ættuð þér að legggja fyrir yður svofellda spurningu: - Hver er afstaða mín gagnvart þessum mat?

Fyrir nokkrum árum var á deildinni skiptinemi, tékkneskur læknanemi frá Prag. Ég hóf náttúrulega strax að spyrja út í landa hans Svejk en sú persóna hafði hins vegar alveg farið framhjá honum. Drengurinn hringdi í angist heim til foreldra sinna sem gátu sagt honum eitt og annað af góða dátanum. Ég sagði að mér þætti það ljóður á hans ráði að þekkja ekki þennan merka samborgara sinn. Neminn sagði þá, ábúðarfullur, að lestur fagurbókmennta hefði aldrei getað fleytt honum þetta langt í læknisfræðinni.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica