09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Baldur Tumi og Hilmar: Kerecis gengur aðeins með almennilegum vísindum

Baldur Tumi Baldursson læknir sér fram á breytt líf eftir að frumkvöðlafyrirtækið Kerecis, sem hann stofnaði með Hilmari Kjartanssyni lækni og Guðmundi Fertram Sigurjónssyni frumkvöðli, var selt fyrir 180 milljarða króna. Hann hyggst stunda vísindin áfram og sinna stofurekstri sínum

„Ég hef alltaf verið viðgerðagaur og það er það sem læknisfræði snýst um, viðgerðir. Ég get ekki hent mér þegar ég er lasinn, ég verð bara að laga mig,“ segir Baldur Tumi Baldursson, húð- og kynsjúkdómalæknir, þegar við setjumst niður á stofunni hans í Hlíðasmára 9 í Kópavogi. Heimagerð COVID-glervörnin á skrifborðinu er kannski ekki besta vitnið enda farin að láta á sjá – en virkar.

Baldur Tumi Baldursson og Hilmar Kjartansson eru læknarnir tveir í þriggja teymi stofnenda Kerecis. Félagið hefur nú verið selt fyrir upphæð sem fæstir hefðu getað ímyndað sér, eða á 180 milljarða króna til danska félagsins Coloplast. Íslenskur fiskur hefur enn á ný sannað sig og nú í lækningaskyni. Mynd/gag

Baldur Tumi er mættur í vinnunna. Rifbrotinn eftir laxveiðar og í Birkenstock-skónum, tilbúinn að taka á móti sjúklingum. Engir spítalaklossar. Hann ætlar ekki að hætta með stofuna þótt frumkvöðlastarf hans með Kerecis hafi gefið vel af sér. Salan er á meðal stærstu frétta sumarsins en danska fyrirtækið Coloplast keypti Kerecis fyrir 180 milljarða íslenskra króna.

Einstakt. Hver hefði trúað því að fiskroð, sem áður var fleygt, væri ekki aðeins svona verðmætt heldur gæti grætt sár sem áður gréru ekki? Trúði hann að fyrirtækið væri svona mikils virði?

„Ég pældi voða lítið í því þannig,“ svarar Baldur Tumi yfirvegað en hann var einn af þremur stofnendum árið 2008. „Nú er það þannig að ég er áratug eldri en hinir og hefði því átt að liggja meira á að fá peninginn. En það var ekki margt sem mig vantaði. Ég er læknir, ágætlega stæður, á bíl og allt,“ segir hann og hlær. Næstu skref séu að birta niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar á áhrifum fiskroðsins á erfið sár.

„Það er ótvíræður munur á sáragróanda eftir meðhöndlun með vöru Kerecis í 16 vikur í samanburði við þau sem meðhöndluð eru með hefðbundnum hætti,“ segir Baldur Tumi og vísar í óbirta vísindagrein sem hann vinnur að með Hilmari Kjartanssyni, bráðalækni og hinum lækninum í þriggja stofnendateymi Kerecis, en Hilmar leiðir verkið.

Þeir einblíndu á slæm sár vegna sykursýki og vinna rannsóknina í samstarfi við franska dreifingaraðilann Kerecis Curae Lab í þremur löndum. Frakkarnir hafi snemma komið að borð-inu í Kerecis sem stór hluthafi. Rannsóknir sem þessar eru dýrar en þeir fengu um 400 milljónir króna í styrk frá Evrópusambandinu árið 2019, svokallaðan FTI-styrk (Fast Track Innovation). Baldur Tumi segir að sambandið hafi talið mikilvægt að styrkja frumkvöðla myndarlega til að efla nýsköpun og sykursjúkum fjölgar í framtíðinni.

Baldur Tumi Baldursson ætlar ekki að hætta að vinna þótt hann hætti hjá Kerecis. Hann vill fylgja vísindarannsóknunum eftir.

„Yfir 20% á Indlandi og þar í kring eru með sykursýki 2 og það stefnir í sömu átt í Bandaríkjunum,“ segir Baldur. „Þessi hópur fær sár þegar hann eldist. Við það bætist að almenn heilbrigðisþjónusta er að batna svo mikið á Vesturlöndum að menn lifa mun lengur en áður. Þá fær fólk frekar sár,“ segir hann og sáraroðið hjálpi þeim. Allt klínískt rannsóknarfólk dreymir um að gera rannsókn sem þessa. En fáir fá þetta tækifæri. „Þetta eru forréttindi. Skrifa rannsóknaráætlunina og sjá niðurstöðuna fæðast.“

Þeir Hilmar hafi tekið áhættu með því að einblína á slæm sár, því vitað sé að mörg þeirra muni ekki gróa. „En með þessari rannsókn vitum við miklu meira um hvaða sár gróa ekki. Þekkingin sem hefur myndast við gerð þessarar rannsóknar er mikil.“

Þrír stofnendur

Þeir Baldur Tumi og Hilmar eru kannski ekki eins þekktir og forsprakki Kerecis, Guðmundur Fertram Sigurjónsson -„ofurfrumkvöðull“, eins og þeir lýsa honum. Guðmundur leitaði til þeirra þegar hann hafði fengið þá hugmynd að nota fiskroð í stað spendýraafurða í sáraumbúðir. Baldur segir að það hafi einmitt verið lykillinn að velgengni Kerecis.

„Já, því þannig fengum við víðtækt einkaleyfi sem tryggði okkur að aðrir högnuðust ekki á hugmyndinni.“

Kerecis. Þvílíkt ævintýri. Þeir Guðmundur kynntust í Össuri þar sem Baldur fór að vinna árið 2003. Það var þremur árum eftir að hann kom heim úr 10 ára sérnámi og starfi frá Svíþjóð og sá hann þar með eigin augum árangur nýsköpunarinnar hjá þessu íslenska stoðtækjafyrirtæki. Sjúklingar sem áður komu með sár undan gerviliðahulsunum hættu að koma þegar þeir fengu sílikon-hulsu Össurar. Fyrirtækið ætlaði nú einnig að gera sáraumbúðir úr sílikoninu og gerði það.

„Guðmundur var verkefnastjóri hjá Össuri og leitaði að klínískt menntuðum einstaklingum sem væru góðir í sárum. Ég var það og hafði skrifað doktorsritgerð um sár. Ég hugsaði mig ekki tvisvar um þegar hann talaði við mig, fannst spennandi að búa til sáraumbúðir með sílikoni.“

Baldur lýsir því hvernig Össur hafi svo selt þessa sáraumbúðavörulínu sína til BSN medical árið 2008. Þá hafi Guðmundur verið fluttur til Nýja-Sjálands þar sem hann kynntist Hilmari. Þrír saman hafa þeir svo stigið hvert skrefið nær sölunni á Kerecis. Sótt um markaðsleyfi, CE-merkingu og viðurkenningu FDA.

„Það má segja að það hafi tekið fjögur ár að fá leyfin. Okkur fannst það langur tími,“ segir Baldur Tumi og hugsar til sérfræðinga FDA í Virginíu þegar fyrsta umsóknin um að setja roð í sár barst þeim. „Þeir sögðu mjög kurteislega að við þyrftum meiri gögn,“ segir hann. Þeir réðust því í rannsóknir og sáu sár sem höfðu ekki gróið gróa á viku undan fiskroðinu.

„Það var æðisleg tilfinning að lyfta umbúðunum af og sjá árangurinn,“ segir hann. Reynsla Guðmundar hafi komið sér vel í þessu ferli. „Vegna þess hversu vel Guðmundur þekkti markaðinn hafði hann sótt um kóða og við komumst því inn í tölvukerfin hjá innkaupadeildum spítalanna um leið og við fengum samþykki FDA. Við fórum síðan fljótlega að fá niðurgreiðslu tryggingafélaga í Bandaríkjunum.“

Frumkvöðlar þurfi fjártækni

En hverju mælir hann með fyrir lækna sem langar í frumkvöðlastarf. „Það er í rauninni að hafa hugmyndina og svo að hafa fjártækni með sér og sækja um einkaleyfi,“ segir hann.

„Guðmundur er snillingur í því og við nutum þess að hann þekkti vel Ernest Kenney sem sá um einkaleyfi Össurar á sínum tíma. Eins og ég var hann til í verkefnið. Vinna hans varð til þess að við fengum almennt einkaleyfi á sárameðferðarefnum úr fiskroði, en svo afdráttarlaus einkaleyfi eru mjög sjaldgæf í þessum bransa en þetta gat hann.“ Annað sem þeir hafi tekið með sér úr Össuri hafi verið þekking á gæðakerfum.

„Starfsmaður nr. 2 sem við réðum varð gæðastjóri á Ísafirði. Þá þarftu að byggja upp gæðaskjalasafn samkvæmt ISO-stöðlum,“ segir hann, og að gæða-áherslurnar hafi aukist mikið frá stofnun Kerecis. „Ég sé ekki að það væri hægt að koma með svona nýmæli í dag. Kröfurnar eru það miklar,“ segir hann. Þeir hafi verið heppnir. Hindranirnar hafi birst og þeir náð að sveigja framhjá þeim.

„Svona fyrirtæki gengur ekki nema almennileg vísindi búi að baki. Ef svo er ekki, mun það að lokum falla. Læknar eru mjög kurteist fólk sem tekur vel á móti sölumönnum. En þeir verða að hafa staðreyndir á bak við ákvarðanir sínar. Við erum stoltir af okkar rannsóknum og núna að hafa klárað þessa fínu rannsókn sem sýnir muninn þegar notaðar eru Kerecis-vörur á mjög alvarleg sykursýkissár miðað við almenna góða meðferð.“

Kópavogsbúinn Baldur

Við snúum okkur nú að bakgrunninum. Kópavogsbúanum Baldri Tuma sem útskrifaðist úr MH árið 1979, læknisfræði 1985 og hóf doktorsnám á Karólínska 1994, þá sérfræðingur í húð- og kynsjúkdómalækningum. Giftur Sólveigu Önnu Bóasdóttur og tveggja barna faðir.

Ætlaðir þú alltaf að verða læknir? „Já, með einhverjum smá frávikum ætlaði ég það. Mér fannst þetta spennandi,“ svarar hann. „Stóru ákvarðanirnar eru yfirleitt ekki teknar eftir mikla umhugsun.“ Margir hafi á þeim tíma byrjað í læknisfræði til að keppa um sæti í hópnum, sýna að þeir væru góðir námsmenn. „En síðan getur fólk endalaust kvalist þegar það velur sérnám,“ segir Baldur Tumi og hlær.

Miklar framfarir hafi orðið í meðhöndlunum síðustu ár, þá sérstaklega við psoriasis og exemum. „Sár hafa alltaf verið mitt helsta áhugasvið.“ Sjálfur tekst hann á við húðsjúkdóm. Það hafi örugglega haft áhrif á valið. „En það hefur ekki haft áhrif að öðru leyti en því að þessi sjúkdómur er algengur á Íslandi, af sjaldgæfum sjúkdómi að vera, og þegar barn fæðist með sjúkdóminn er foreldrunum vísað á mig.“

Fyrirtækið selt. Næstu skref óljós. Baldur Tumi þarf ekki að fylgja seldu fyrirtæki fyrstu sporin með nýjum eigendum.

„Nei, nei, ég hætti í rauninni í launaðri vinnu hjá Kerecis í lok september. Svo kemur í ljós hvort nýja eigendur vantar eitthvað,“ segir hann. „Ég mun þó ólíklega fara í 9-5 vinnu aftur enda orðinn 64 ára. Planið var alltaf að sinna áhugamálunum: líkamsrækt, hlaupum og skíðum. Ég vona að ég fái að fylgja vísindagreininni úr hlaði og standa að kynningu hennar, hafa samskipti við jafningja. Það er jú það sem lífið gengur út á: Viðurkenning jafningjanna,“ segir hann.

„Ég vil í það minnsta ekki bara hverfa af sviðinu. Ég verð því enn hér á stofunni. Það er mikilvægt að fólk fái sína hjálp.“

Með 20% af umframframlegð í mannúðarverkefni

„Það þurfti þrotlausa vinnu og á þessari löngu leið hefðum við getað klúðrað hlutum en við bárum gæfu til að taka réttar ákvarðanir,“ segir Hilmar Kjartansson, bráðalæknir og einn meðstofnenda Kerecis, í símaviðtali við Læknablaðið. Hann er mjög bjartsýnn á framhaldið og nýjan kafla í sögu Kerecis.

Hilmar Kjartansson horfir fram á breytta tíma en ætlar áfram að sinna verkefnum sem snúast um meðferð brunasára, rannsóknir í Evrópu og svo öll þau mannúðarverkefni sem Kerecis heldur á lofti.

„Já, ég held að í raun og veru sé þetta aðeins fyrsti kaflinn sem var að klárast. Í gegnum Coloplast opnast markaðir í 130 nýjum löndum sem gefur sáraroðinu frá Ísafirði enn meiri möguleika á að vaxa og verða aðgengilegt mun fleirum á heimsvísu.

Bjóstu við þessu ævintýri? „Þetta var alltaf það sem við trúðum að gæti gerst. Hugmyndin var skotheld og varan virkar betur en samkeppnisvörur,“ segir Hilmar. „Tilgangurinn var alltaf að verða leiðandi í endurnýjun skemmdra vefja í mönnum. Það er að takast núna og það hefur verið mikill heiður að því að vera partur af svona ferðalagi þar sem vinna okkar nær til tuga eða hundruða þúsunda á ári hverju.“

Hilmar er sérlega stoltur af mannúðarverkefnum Kerecis sem hann hefur leitt en 20% af umframframlegð Kerecis hefur verið nýtt til þeirra. Hermenn á stríðshrjáðum svæðum í heiminum eru nú meðal þeirra sem njóta góðs af vörunum. Þær voru þróaðar sérstaklega til þess með styrkjum frá Bandaríkjaher árin 2013, 2016 og 2019.

„Við höfum notað styrkina til að þróa roðið í stærri stærðum og gert duftútgáfu til að ná betri árangri eftir sprengjuáverka, því þá er hægt að koma roðinu í alla afkima sársins,“ segir hann. Nýlega sæmdi forsætisráðherra Armeníu samstarfsmann Hilmars þar ytra, Dr. Steven Jeffery, brunaskurðlækni og prófessor í sárarannsóknum við Birmingham City University (BCU), orðu fyrir framúrskarandi störf.

Jeffery og Hilmar meðhöndluðu fjölda særðra, sem höfðu fyllt her- og almennu sjúkrahúsin á staðnum í borgarastríðinu fyrir tæpum þremur árum, með sáraroðinu. Læknablaðið sagði frá því afreki í nóvemberblaðinu 2020.

„Það var augljóst eftir þá ferð að umfang mannúðarverkefna myndi aukast innan Kerecis. Í kjölfar þess var mikill uppgangur í sölu á brunadeildir í Bandaríkjunum og samvinna við brunalækna jókst mikið sem og samstarf við góðgerðarstofnanir sem sinna mannúðarmálum.“

Þessi áhersla Kerecis gefur þeim mikla sérstöðu og sér Hilmar aukin tækifæri til góðra verka eftir söluna. „Coloplast er með aðrar vöru sem gætu líka komið að notum í verkefni okkar í Afríku, Kabúl í Afganistan og víðar. Svo ég vona að þegar fer að hausta og við að kynnast betur fólkinu í Coloplast vaxi mannúðarverkefnum enn frekar fiskur um hrygg.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica