09. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Breið sátt myndast um sjálfstæðan stofurekstur lækna, - Ragnar Freyr Ingvarsson tekinn tali
Ríkið hefur samið við sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Gert er ráð fyrir að umfang
starfseminnar aukist um rúma 6 milljarða milli áranna 2022 og 2024 og að niðurgreiðsla Sjúkratrygginga hækki úr tæpum 7,7 milljörðum í 12,3. Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir næsta skref að semja um niðurgreiðslu nýrra verka því þessi samningur nái aðeins til þeirra gömlu
„Þetta er fyrst og fremst gríðarlegt réttlætismál fyrir sjúklinga sjálfstætt starfandi lækna,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur. Félagið hefur nú landað samningi við ríkið eftir 5 ára þrautagöngu og einhliða endurnýjun ríkisins á þeim gamla.
Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, fagnar því að sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar hafi náð samningum við ríkið eftir 5 ára samningsleysi. Mynd/gag
„Þetta er geysilega mikilvægur áfangi í réttindabaráttu fyrir þennan stóra sjúklingahóp,“ segir hann og vísar til þeirra 270 þúsund einstaklinga sem sæki þjónustu þeirra árlega.
„Við framkvæmum hálfa milljón læknisverka á ári – allt frá venjulegum læknisheimsóknum til inngripa, speglana og skurðaðgerða. Þetta er mikil starfsemi sem nú hefur myndast breið sátt um.“
Atkvæðagreiðslu lækna um samninginn lauk í lok júní. Á kjörskrá voru 341. Atkvæði greiddu 217 læknar, eða 63,6%. Já sögðu 203, eða 93,6%, nei sögðu 11, eða 5%. Þrír læknar skiluðu auðu, eða 1,4%. „Læknar virðast sáttir við þann árangur sem við náðum.“
Niðurgreiðsla ríkisins eykst svo um munar, eða um tæplega 4,7 milljarða milli áranna 2022 og 2024. Greitt verður fyrir fleiri verk auk þess sem hlutfall niðurgreiðslunnar hækkar. Einingunum fjölgar um 3,8 milljónir og almennt er miðað við að árlegur vöxtur þjónustunnar verði 1,5% samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands.
Hagkvæm þjónusta
Hvað hjó á hnútinn? „Við töluðum svo mikið saman að á endanum varð hinu opinbera ljóst að áherslur okkar voru réttmætar og skynsamlegar. Við gátum talað okkur niður á þessa niðurstöðu og í henni felast mörg þeirra atriða sem við höfum verið að halda á lofti síðustu árin: tryggja nýliðun, leiðrétta einingaverð og taka upp ný læknisverk,“ segir hann.
„Okkur virðist hafa tekist að sýna Sjúkratryggingum Íslands fram á hversu geysilega hagkvæm starfsemi okkar er fyrir samfélagið. Hún er margfalt ódýrari en sú þjónusta sem er veitt af hendi hins opinbera,“ segir hann. Ríkið hafi séð að hægt væri að fá tiltölulega mikla þjónustu fyrir lítið fé. Samningurinn nær þó aðeins til þeirra liða sem áður heyrðu undir samninginn.
„En við settum til hliðar fjármagn til að leiðrétta eldri liði og úrelta og til að taka inn nýjungar. Nýjungar hafa eiginlega ekki verið teknar upp í heilan áratug og það hjá stétt sem er í stöðugri framþróun.“ Nú verði þessir þættir teknir til skoðunar. „Við settum inn í samninginn ákvæði um öfluga samstarfsnefnd, þar sem Sjúkratryggingar og LÍ eiga tvo fulltrúa hvort. Svo munum við kalla til þau fagfélög sem við á hverju sinni til þess að gera samninginn eins nútímalegan og hann þarf að vera.“
Finnst þér sem stofulæknastarfsemin hafi verið viðurkennd með þessum samningum? „Mér finnst það. Ég hefði ekki undirritað samninginn annars. Ég hefði frekar farið í hina áttina hefði hið opinbera ekki séð að sér og áttað sig á hversu mikilvæga og umfangsmikla þjónustu við veitum,“ segir hann.
„Við læknar verðum líka að líta í eigin barm, kannski höfum við verið léleg í að flagga þessu í gegnum árin; að láta vita hversu mikil þjónusta er veitt, hversu mikil ánægja ríkir meðal sjúklinga okkar. Bara til að nefna: Læknafélag Reykjavíkur er með 352 virka sjálfstætt starfandi lækna innan sinna raða en við veitum meiri þjónustu en læknar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og á göngudeildum Landspítala til samans. Við gerum meira,“ segir hann. Komurnar séu um 2000 komur á dag, rétt tæplega 10.000 á viku.
„Það er ekki fyrr en maður áttar sig á því og grefur sig ofan í tölurnar að maður sér hversu mikið þetta er. Það þyrfti að margfalda fjármagnið ef ríkið ætlaði að taka þessa þjónustu yfir,“ segir hann og miðar þá við núverandi mun á kostnaði við þjónustuna. Hann nefnir dæmi um hagkvæmni samningsins við Sjúkratryggingar.
„Læknisheimsókn til gigtarlæknis á göngudeild Landspítala er verðmetið, samkvæmt DRG-kostnaðarkerfinu, á um 54.000 krónur árið 2022 en fyrir sömu komu eru greiddar um 18.000 til stofulæknis. Hann á svo eftir að greiða skatta og skyldur, leigu, bókhald og bara allt saman. Ristilspeglun hjá sjálfstætt starfandi er um 4-5 sinnum ódýrari en hjá hinu opinbera.“
Lítill og hagkvæmur rekstur skýrir muninn að mestu en það ber auðvitað að líta til þess að kostnaðarsamari verk eru hjá hinu opinbera, eins og kennsla og rannsóknir. „Þá er stjórnun miklu umfangsmeiri hluti en hjá sjálfstætt starfandi læknum.“
Telur þú að þessi samningur verði til þess að ríkið sjái tækifæri í að útvista fleiri verkefnum til sjálfstætt starfandi lækna? „Ég vona það,“ segir hann. „Það væri langhagkvæmast fyrir ríkið. Það væri langbest fyrir ríkið að færa sem flest verk í hendur sjálfstætt starfandi lækna. Það er að segja að ef markmiðið er að veita meiri þjónustu fyrir minna fé, þá er langódýrast að biðja okkur sjálfstætt starfandi lækna um að veita þá þjónustu.“
Eru þá aukagjöld úr sögunni fyrir fólk? „Nei, það verður ekki fyrr en við höfum leiðrétt allar gjaldskrár sem þau hverfa. Þetta eru 26 sérgreinar. Það tekur tíma að fara í gegnum þetta allt saman og reikna út.“
En hvaða áhrif hafa þessi aukagjöld haft á samband lækna og skjólstæðinga þeirra? „Ég held að það sé best að vísa í rannsókn Öryrkjabandalagsins. Þetta bil hefur leitt til þess að fólk hefur neitað sér um þjónustu. Það er gríðarlega alvarlegt mál,“ segir hann.
„Fólk sem ekki fer í reglubundið eftirlit hjá sínum lækni getur veikst og endað á bráðamóttökunni. Innan heilbrigðiskerfisins er dýrast að dúkka upp á bráðamóttökunni. Fólk ætti, nú þegar búið verður að uppfæra samninginn, að geta leitað til sérgreinalækna og þannig vonandi haldist í betra ástandi en áður. Það er okkar von.“
Komin yfir þröskuldinn
En er þá togstreitunni við yfirvöld að ljúka? „Við höfum yfirstigið stærsta þröskuldinn, sem var að skrifa undir samninginn,“ segir Ragnar. „Þetta er kvikur samningur. Hann er breytilegur. Hann vex. Hann er tryggður í launa- og vísitölu neysluverðs en líka bundinn við fólksfjölgun. Það er mikilvægt að samningurinn vaxi á samningstímanum nú þegar Íslendingum fjölgar svona ört.“
Opinn krani? „Nei, þessi mýta um opinn krana hjá stofulæknum er líklega ein mesta vitleysa sem um getur,“ segir Ragnar. „Þessi myndlíking hefur aldrei átt við rök að styðjast. Þetta er tilfinningalegt þvaður hjá þeim sem hafa viljað láta líta svo út að læknar séu bara að skara eld að sinni köku þegar þeir vilja sinna sinni þjónustu. Ef gögn eru skoðuð 10-15 ár aftur í tímann sést að þessi fullyrðing stenst ekki,“ segir hann og rökstyður frekar.
„Á síðustu 5 árum hefur þjónustan í besta falli staðið í stað og á síðasta ári rýrnaði hún um 5%. Þótt frelsið hafi verið algert og við gátum séð eins marga sjúklinga og við vildum og gátum og rukkað ríkið villt og galið þá dróst þjónustan saman,“ segir hann.
„Það er gríðarlega alvarlegt mál að mikilvæg læknisþjónusta skuli rýrna þegar samfélagið bæði stækkar og eldist. Nú vonum við að fólki sé gert kleift að leita til læknis þegar það þarf á því að halda og þurfi ekki að neita sér um þessa mikilvægu þjónustu.“
Sérðu nú fram á nýliðun í stofurekstri? „Það vona ég innilega. Við höfum búið þannig að hnútana að læknar ættu að geta horft til þess að koma til Íslands opna stofur, göngu- og dagdeildir og veita Íslendingum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og þurfa.“