09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Ættum að ganga í takt að settu marki, það er skoðun Sigurðar Guðmundssonar fyrrum landlæknis

„Ég bjóst alltaf við heimsfaraldri og var orðinn frekar sár að það gerðist ekki fyrr á starfsævinni,“ segir Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir og fyrrum landlæknir, um COVID í gamansömum tóni þegar hann sest niður fyrstur lækna í hljóðver fyrir Læknavarpið, hlaðvarp Læknablaðsins. Hann gerir upp ferilinn og fer yfir sviðið nú þegar hann hættir flestum störfum

„Ég þarf ekki að bæta við CV-ið. Það er algjör óþarfi. Það les það enginn lengur,“ segir Sigurður Guðmundsson og brosir. „Markmiðið er að njóta lífsins.“

Læknablaðið · Sigurður Guðmundsson um lífið og tilveruna og læknislistina, 09-2023

Sigurður er að hætta hefðbundnum læknisstörfum eftir gæfuríkan feril. Leiðtogi. Hann sleppir þó ekki alveg hendinni af læknisfræðinni heldur kennir við Háskólann og situr í ýmsum nefndum og ráðum.

„Lífið breytist nú samt, kannski best lýst með vísubroti Þórarins Eldjárns: „Lífið skipti um leturgerð, lagt var upp í nýja ferð,“ segir hann eftir að hafa fyrstur lækna setið í hljóðveri fyrir Læknavarpið, hlaðvarp Læknablaðsins.

Sigurður Guðmundsson smitsjúkdómalæknir og fyrrum landlæknir er að hætta hefðbundnum læknisstörfum enda 75 ára í september. Hann kennir áfram og situr í nefndum því hann hefur gaman að því. „Svo á ég bara svo erfitt með að segja nei. “ Mynd/gag

Fyrrum landlæknir ræðir bakgrunn, persónulega sigra, námsferilinn, framann, samhygðina og heilbrigðispólitíkina. Hann segir HIV-veiruna fyrir aldamót hafa þegar á heildina er litið, verið mest krefjandi á ferlinum.

„Ég held að við höfum enn ekki unnið úr því sem samfélag hvernig við tókum á þessu fólki sem fékk þennan skelfilega sjúkdóm,“ segir hann.

Sigurður er hins vegar ánægður með það hvernig íslensk yfirvöld tóku á COVID-faraldrinum, spáir því að veiran sé komin til að vera en er ekki eins hrifinn af viðbrögðum víða í heiminum.

„Horfum bara til Bandaríkjanna, Brasilíu, Svíþjóðar, Bretlands. Þar drógu menn lappirnar, ekki síst í Bandaríkjunum og Brasilíu, og reyndin sú að þar dóu alltof margir.“ Milljón í Bandaríkjunum, nefnir hann, í landi þar sem heilbrigðisþjónustan sé betri en víðast og fjármunir ekki vandamál.

Sigurður segir stöðuna í íslenska heilbrigðiskerfinu almennt betri nú en þegar hann kom til starfa nýútskrifaður árið 1975. „Vissulega var lífið þá einfaldara og við færri, yfirsýnin meiri og sjúklingar lágu lengur inni,“ segir hann. Streitan hafi þó síst verið minni enda unglæknir oft eini læknirinn á vakt.

Hann nefnir þau atriði sem standa vel hér á landi, og heyra má í hlaðvarpinu, en blaðamaður tíundar brotalamirnar sem hann nefnir: fráflæðið af bráðamóttökunni og of mikla rúmanýtingu á Landspítala: „Það kann ekki góðri lukku að stýra.“ Hann nefnir mönnunarvanda hjúkrunarfræðinga og mál aldraðra.

„Við komum ekki nógu vel fram við aldraða og 100 manns sem liggja inni á Landspítala á hverjum tíma og komast hvorki lönd né strönd en eiga að vera einhvers staðar annars staðar og liggja á bráðadeildum eins og á miðri járnbrautarstöð,“ lýsir hann myndrænt. „Þetta er ekki virðing við þá kynslóð sem bjó okkur til. Það er ekki flóknara en það.“

Sigurður segir að yfirvöld taki málaflokkinn ekki nægilega föstum tökum. „Það blasa risavandamál við.“ Hann nefnir fíknivandann sem vaxi og loftslagsmál sem muni breyta sjúkdómum hér á norðurhjaranum. Hann vill öflugri heilsugæslu og bendir á að heilbrigðiskerfið sé ódýrara hér en í mörgum OECD-ríkjum. Skortur á fé sé þó ekki eini vandinn.

„Okkur gengur ekki nógu vel að ganga í takt að settu marki,“ segir Sigurður og fer yfir atriði sem hugsa þurfi um til að ná árangri.

Læknablaðið hefur nú framleitt hátt í 80 hlaðvörp úr viðtölum í blaðinu. Viðtalið við Sigurð er það fyrsta þar sem leiknum er snúið við og texti unninn úr tilbúnu hlaðvarpi. Heyrið muninn á heimasíðu Læknablaðsins, á Soundcloud og nú einnig Spotify.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica