0708. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Fimmtudagur í lífi hjartalæknis. Sigfús Örvar Gizurarson
5:30 Vekjaraklukkan í símanum hringir. Klárlega ástæða til að „snúsa“ í 5 mínútur. Stekk svo fram úr og bursta tennurnar og klæði mig í golfdressið. Venjulega er ég að skríða úr rúminu um 7 leytið, en ég var búinn að mæla mér mót uppi á golfvelli kl. 6 með bróður mínum.
6:00 Golfhringur með litla bróður, Gotta, sem vinnur á Selfossi. Þekki sennilega engan betur, enda bara rúmt ár á milli okkar og að mörgu leyti aldir upp eins og tvíburar. Alltaf í sömu fötunum. Svona tveir fyrir einn. Golfið gekk óvenju vel. Bara einn bolti týndur og meira að segja tveir fuglar á 9 holum. Eitthvað annað en golfferðin til Svíþjóðar á dögunum þar sem heilu kúlukössunum var fórnað á altari golfguðsins. Golfguðinn hlýtur að vera mjög mislyndur, enda aldrei að vita hvers konar dagsform er dregið upp úr hattinum.
7:15 Kominn aftur heim og hendi mér í sturtu, fæ mér kaffi með konunni og skelli mér í Fossvoginn. Er með Fossvoginn í dag. Er líka með tvær aðgerðir á Hringbraut og á sumrin þurfum við oft að setja upp marga hatta.
7:55 Mættur á bráðamóttökuna. Virðist óvenju rólegt. Bara eitt konsúlt. Útlenskur kollega var að koma af vaktinni. Ótrúlegt hvað við höfum fengið marga góða farandlækna til að sinna bráðveikum Íslendingum. Best að drífa það af áður en spurningar og línurit koma á færibandi. Dáist að starfsfólki bráðamóttökunnar, sem vinnur við mjög krefjandi aðstæður. Þetta er erfiðasta vinnan, að sitja fyrir framan fólk, tala við það, meta og koma með úrlausn. Það er til skammar, ástandið sem kollegar mínir og annað starfsfólk þar þarf að sætta sig við.
Myndin er úr síðustu aðgerð dagsins. Ef vel er að gáð má sjá Kristján og Guðrúnu Valgeirsdóttur hjúkrunarfræðing. Myndina tók Kristmann Þór Sigurjónsson lífeindafræðinemi á hjartaþræðingarstofu 2 á Landspítala Hringbraut.
8:20 Kominn heim á Hringbraut. Næ restinni af morgunfundinum. Gott að hitta kollegana og fara yfir helstu málin. Það er gaman í vinnunni á hjartadeildinni. Gott starfsfólk og gott andrúmsloft.
9-10 Svara nokkrum konsúltum úr Fossvogi. Alltaf gott að geta splæst þriðju trópónín-mælingunni til að kaupa smá tíma. Kannski tekur vaktin þetta?
10:15 Fundur með Birni frá HUT. Rafrænar beiðnir og gagnagrunnur fyrir brennsluaðgerðir er í pípunum. Ég og Kristján Guðmundsson, brennslubróðir, höfum mikinn áhuga á að koma þessum málum í góðan farveg. Góður fundur og við fáum heimavinnu. Heppinn að eiga kollega eins og Kristján. Frábær fagmaður og góður vinur. Það eru forréttindi að vinna í tveggja manna teymi með svona snillingi, þó hann sé framsóknarmaður.
11:30 Brennsluaðgerð. Kristján er þegar búinn með eina brennslu við gáttatifi á mettíma og ég byrja á annarri aðgerð. Í þetta skiptið er það einstaklingur með tíð aukaslög og hjartabilun á grunni þeirra. Við finnum loks aukaslagið í ósæðarótinni. Þurfum að láta mynda kransæðarnar áður en við getur brennt þarna. Hjalti Guðmundsson þræðingarlæknir kemur og aðstoðar, og er snöggur að. Aðgerðin tekst vel. Enn eitt dæmi um góða samvinnu á hjartaþræðingunni. Frábært starfsfólk og mikið að gera.
14:50 Komumst loks í mat í 20 mínútur. Við Kiddi fáum okkur samloku og skyr.
15:20 Síðasta aðgerð dagsins. Svolítið óvenjuleg gangráðsaðgerð þar sem við skrúfum gangráðsleiðslu beint inn í leiðslukerfi hjartans. Getur verið svolítið vesen, en tókst vel.
16.45 Stimpla mig út. Renni við í Fiskbúð Fúsa og fer heim að elda. Förum svo í pottinn. Ómissandi að taka einn kaldan með sér. Svo er konan búin að finna mynd til að horfa á. Krakkarnir í útlöndum og við ein heima.
Lífið er gott. Gleðilegt sumar.
Myndin er úr síðustu aðgerð dagsins. Ef vel er að gáð má sjá Kristján og Guðrúnu Valgeirsdóttur hjúkrunarfræðing. Myndina tók Kristmann Þór Sigurjónsson lífeindafræðinemi á hjartaþræðingarstofu 2 á Landspítala Hringbraut.