0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Festa í læknisþjónustunni í Borgarnesi, LÍ átti fund með læknum þar

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir

Mágkonurnar Sigurbjörg Bragadóttir og Hildigunnur Þórsdóttir starfa nú hlið við hlið á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Borgarnesi. Þær eru einu fastráðnu læknarnir þar þegar þetta er skrifað en brátt bætist einn í hópinn. Ekki aðeins starfa þær saman heldur búa þær nú einnig hlið við hlið. Stutt er síðan þær tóku til starfa í bænum, Hildigunnur í september en Sigurbjörg í febrúar

„Ég sannfærði hana um að koma,“ segir Hildigunnur Þórsdóttir læknir og lýsir því hvernig hún hafi hafið störf sem almennur læknir á þessum æskuslóðum sínum í september í fyrra. Sigurbjörg Bragadóttir, yfirlæknir á stöðinni, hafi verið að líta í kringum sig eftir annasöm ár á bráðamóttökunni, sagt í hálfkæringi við mann sinn að þau yrðu að skoða Borgarnes til að geta afskrifað það, en fallið svo fyrir hugmyndinni. En er þetta ekki krefjandi staða?

„Jú, en kostirnir eru fleiri,“ segir Hildigunnur sem langar að starfa í Borgarnesi sem heimilislæknir en kemst ekki í heimilislæknaprógrammið. „Vinnutíminn hér og námið fara ekki saman,“ segir hún og að enn hafi ekki fundist ásættanleg lausn á því. Borgarnes hafi þó heillað hana umfram annað. „Við ákváðum að flytja hingað til að gefa börnunum meira frelsi.“

Oddur Steinarsson, stjórnarmaður í LÍ, Sigurbjörg Bragadóttir yfirlæknir í Borgarnesi, Hildigunnur Þórsdóttir læknir, Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins og Dögg Pálsdóttir framkvæmdastjóri Læknafélagsins fyrir framan heilsugæsluna í Borgarnesi. Mynd/gag

Þær Sigurbjörg og Hildigunnur settust niður á stöðufundi með Steinunni Þórðardóttur, formanni Læknafélagsins, Oddi Steinarssyni stjórnarmanni og Dögg Pálsdóttur, framkvæmdastjóra, á björtum júnídegi. Læknablaðið var með í för á þessum legg hringferðar læknaforystunnar um landið. Sama dag var fundað á Akranesi.

Óstöðugleiki hefur einkennt læknamönnun í Borgarnesi en nú þegar þær mágkonur eru mættar horfir til betri tíðar. 3,5 stöðugildi lækna eru fyrir tæplega 4000 manna svæðið í Borgarbyggð. Þær fylla tvö þeirra og eiga von á þriðja lækninum í hlutastarf. Þær hafa gert skurk í þjónustunni síðan þær komu. Hildigunnur ræður inn verktaka eftir þörfum og segir ásókn í stöðurnar undanfarið, enda stutt í borgina og aðstöðu lækna í bænum góða.

„Ég vil hugsa vel um lækna sem koma hingað. Við höfum aðstöðuna huggulega fyrir fólk sem vill vindinn í andlitið, njóta sín og koma aftur.“ Þær hafi yfirfarið húsakost afleysingalækna og breytt herbergjaskipan á stöðinni til að færa hjúkrunarfræðinga nær sér og í betri aðstöðu.

„Nú vantar okkur heimilislækni á stöðina,“ segir Hildigunnur og er tilbúin að skoða ýmsar útfærslur fáist einn til leiks. Sigurbjörg, sem er bráðalæknir, tekur undir það. „Við erum að þrýsta á að fá klukkutíma á viku með heimilislækni til að fá aðstoð,“ segir hún. „Okkur vantar hjálp.“

Sigurbjörg segir einnig mikilvægt að fá heimilislækni svo Hildigunnur geti sérhæft sig og orðið heimilislæknir. „Það myndi tryggja Borgnesingum uppbyggingu á stöðinni til framtíðar.“ Þá sjá þær þörf fyrir þjónustu félagsráðgjafa á stofnuninni. „Við þurfum ráðleggingar varðandi kerfið; hvaða réttindi fólk hefur þegar það veikist.“ Heilsugæslurnar séu á svo margan hátt gerðar ábyrgar fyrir framfærslu fólks.

Sigurbjörg segir að álagið á bráðamóttöku Landspítala, þar sem hún var í 100% starfi, hafi á endanum náð til hennar. Hún hafi verið búin að keyra um of og langaði að komast úr Reykjavík. Skoðaði Akureyri en valdi Borgarnes. „Börnin hlaupa á milli heimilanna okkar,“ lýsir hún stemningunni. Hún þekki það að vera á landsbyggðinni, alin upp í Skagafirði.

Mágkonurnar eru báðar með ung börn. „Ég mun alltaf velja börnin mín umfram Landspítala,“ segir Sigurbjörg. Þó sé læknisstarfið í Borgarnesi enginn barnaleikur. Fólk ráðfæri sig við þær í sundi eða annars staðar í samfélaginu en segi þeim líka þar hversu ánægt það sé með festuna sem er að myndast í heilbrigðisþjónustunni. Þær viti hversu vel metin störf þeirra séu.

„Ef ég skil héraðið eftir læknislaust er ég að skilja vini barnanna minna, vini mína og stórfjölskyldu eftir læknislaus,“ segir Hildigunnur. Ef áhugi afleysingalækna á svæðinu minnkar, gæti staðan orðið erfið.

Þær segja laun í starfi mikilvæg. „En það er enn mikilvægara að vera ekki alltaf að vinna,“ lýsir Hildigunnur, og hvernig þær standi því á bremsunni gagnvart yfirvinnu og kalli lækna til. „Það verður að setja stofnuninni mörk því góðir læknar sem setja stofnununum ekki mörk brenna út á endanum.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica