0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

2000 COVID-19-innlagnir á Landspítala, Ólafur Guðlaugsson fer yfir málið

„COVID-19 er orðið langstærsta verkefni sem íslenskt heilbrigðiskerfi hefur þurft að fást við og langstærsti faraldur sem hér hefur geisað,“ segir Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir sýkingavarnadeildar Landspítala fyrir hönd Farsóttarnefndar spítalans.

Ólafur Guðlaugsson yfirlæknir er í Farsóttarnefnd Landspítala. Mynd/gag

 

Við árslok 2022 höfðu rúmlega 2000 sjúklingar legið á Landspítala vegna COVID-19, þar af létust 111 á spítalanum. Þetta kemur fram í starfsemisupplýsingum spítalans sem sýna uppgjör ársins 2022 og birt var í júní. „Af þessum 2000 sjúklingum voru rúmlega 1300 með COVID-19 sem aðalsjúkdómsgreiningu og 65 þeirra létust á spítalanum,“ stendur þar.

Sagt er frá því að sumir hafi fengið COVID-19 oftar en einu sinni og átt nokkrar innlagnir og einhverjir lagst endurtekið inn vegna eftirkasta sjúkdómsins. Langflestar innlagnir hafi verið árið 2022 hjá öllum aldurshópum. Fjórða bylgja faraldursins náði toppi þann 18. mars 2022: „Þann dag voru 85 sjúklingar inniliggjandi á spítalanum með COVID-19.“

Ólafur bendir á að samkvæmt COVID.is upplýsingasíðunni hafi 209.191 greinst með smit til 21. mars, þar af hafi einungis 6554 smitast oftar en einu sinni. Fleiri hafi nú bæst við, en tölurnar eru ekki lengur uppfærðar hjá sóttvarnalækni.

Fyrsta COVID-smitið hér á landi greindist 28. febrúar árið 2020.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica