0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Katrín Þórarinsdóttir gigtarlæknir leiðir Fræðslustofnun Læknafélagsins

„Þetta leggst vel í mig. Mér finnst verkefnið mjög spennandi og er ánægð með að fá að takast á við skipulagningu Læknadaga,“ segir Katrín Þórarins­dóttir, gigtarlæknir á Landspítala. Hún er formaður Fræðslustofnunar og stýrir Læknadögum sem verða haldnir dagana 15.-19. janúar

Katrin-ThorarinsdottirKatrín Þórarinsdóttir er formaður Fræðslustofnunar lækna og starfar sem gigtarlæknir á Landspítala. Mynd/gag

Katrín flutti heim eftir ár í Bretlandi sumarið 2022 eftir langa fjarveru en hún hóf sérnám í Gautaborg 2010. „Við viljum sem fyrr leggja áherslu á rannsóknir og sýna að hér eru stundaðar öflugar rannsóknir og hvetja til þeirra. Bæði klínískra og grunnrannsókna. Á Læknadögum viljum við sýna framfarirnar sem orðið hafa í læknavísindum.“

Hún segir undirbúning daganna umfangsmikinn. Nú lesi hún yfir allar umsóknir og sjái til þess að samhengi sé í dögunum. „Við pössum að endurtaka okkur ekki frá ári til árs heldur bjóðum fjölbreytta dagskrá og leyfum ólíkum sérgreinum að njóta sín. Læknadagar eiga að vera fyrir alla lækna.“

Katrín segir Fræðslustofnun lækna nú vera að krækja í góða erlenda fyrirlesara. „Prógrammið er metnaðarfullt en of snemmt að gefa upp nöfnin.“ Sjálf sótti hún ráðstefnur mikið við störf sín í Svíþjóð. „En þá mest gigtarráðstefnur. Bæði á spítalanum og samnorrænar ráðstefnur. Það var nóg að gera innan gigtarsérgreinanna. Við vorum nokkuð ódugleg að fara á svona víðtækari ráðstefnur eins og Læknadagar eru.“ Raunar kristalli Læknadagar muninn á því að starfa erlendis og hér heima.

„Hér á landi er mikill kostur að sjóndeildarhringurinn sé breiður. Maður lærir af öðrum sérgreinum og þeirra nýjungum og sér að þær geta nýst milli sérgreina,“ segir Katrín sem tekur nú við keflinu eftir dygga stjórn Kristínar Sigurðardóttur bráðalæknis í fyrra.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica