06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Dagur í lífi fæðinga- og kvensjúkdómalæknis: Ebba Margrét Magnúsdóttir

15.45 Dýrmætasta starf dagsins: sæki ömmusnúðinn á leikskólann og keyri hann í klippingu

06.45 Er yfirleitt vöknuð á undan klukkunni, fer yfir daginn í huganum og geri smá teygjur undir sænginni. Hlusta á morgunfréttir á RÚV með tebolla við hendina á meðan búið er um rúmið, tekið úr uppþvottavélinni og kaffikannan ræst.

07.25 Fer á stofuna með kaffibollann í annarri og sloppatöskuna í hinni. Er einungis 5 mínútur á leiðinni eftir að við opnuðum Domus lækna í Hlíðasmáranum. Þar erum við 5 eigendur að einni flottustu stofu á landinu þar sem starfa kvensjúkdómalæknar og skurðlæknar. Opnuðum fyrir ári og það er alltaf tilhlökkun að mæta því þetta eru eðal kollegar og góður andi. Mikill munur að losna við umferðina en það er óþolandi að sjá hversu margir eyða dýrmætum tíma sínum í umferðarteppu því það geta ekki allir hjólað í vinnuna með börnin á bögglaberanum.

08.00 Fyrsta konan mætt og við tökum spjallið sem nú að undanförnu fjallar oft um breytingaskeiðið. Er það ástæða kulnunar, vefjagigtar eða annarrar vanlíðunar sem hrjáir íslenskar konur? Oft eru þær vel upplýstar af veraldarvefnum og vita hvað þær vantar. Hafa hlustað á fræðsluerindi heilsugæslunnar eða borgað háa upphæð fyrir netspjall við heilbrigðisstarfsmenn og vantar bara hina heilögu þrenningu: Estrógen um húð, náttúrulegt prógesterón, og svo má ekki gleyma testósteróninu sem á að auka kraft þeirra, kynhvöt og þor. Það er af sem áður var þegar við læknar vissum svörin. Hef gaman af þessu spjalli og reyni að finna faglega lausn fyrir hvern skjólstæðing. Ekki það sem saumaklúbburinn eða vinkonuhópurinn sagði henni að væri best.

12.00 Hádegishlé sem er dýrmæt stund þar sem losað er um smá endorfín.

13.30 Stuttur dagur á stofunni en hef lært að forgangsraða eigin heilsu og vellíðan og finn að langir dagar gera ekkert gott fyrir mig og þá verður þjónustan ekki sú sem ég vil að hún sé. Klára símtöl vegna Barnahúss, svara tölvupóstum og held af stað í sund. Reyni að fara einn km á hverjum degi þar sem ég losa um streitu og hreyfi mig um leið.

15.00 Fundur hjá stöðunefnd sem ég tók að mér setu í einhverra hluta vegna. Þau störf krefjast undirbúnings en með góðu fólki getur sú vinna verið gefandi og losað smá endorfín líka.

15.45 Dýrmætasta starf dagsins, sæki ömmusnúðinn Hjört Kristján tveggja ára á leikskólann og keyri hann í klippingu sem hann er ekki sáttur með í byrjun en nýtur þess í lokin og fær alvöru herraklippingu þegar mamma hans er mætt og sleikjó í verðlaun. Flottastur að sjálfsögðu. Finn í hjartanu hvað þetta einstaka hlutverk sem amma hefur gefið mér mikið og opnað nýjar víddir. Þegar öllu er á botninn hvolft er það ekki hversu margar vaktir ég tók eða hvað marga keisara ég gerði heldur hvernig amma vil ég vera.

17.30 Plokkfiskurinn ala Ebba amma kominn í ofninn og rófurnar í pottinn. Flatbrauðið og salatið skorið undir kvöldfréttum RÚV, svo borða þeir sem eru heima en hinir fjölskyldumeðlimirnir þegar dansi og borðtennisæfingum er lokið.

20.00 Við hjónin skellum okkur í kvöldgöngu upp í Elliðaárdal og fylgjumst með ástarlífi fuglanna sem við teljum okkur þekkja og sjáum gróðurinn taka við sér. Magnað hvað íslenska vorið er einstakt, birtan um kvöld og fuglasöngur er engu líkt. Eftir gönguna er það skákmót í heita pottinum þar sem húsbóndinn hefur oftast vinninginn.

22.00 Tíufréttir og svo þarf að skrifa pistil á visi.is um málefni sem brenna á frúnni um heilbrigðismál. Það er svo margt sem mætti gera betur og mig langar að breyta og meðan ég get mun ég tjá mig um það.

23.30 Leggst sátt á koddann þegar ég fer yfir daginn og hlakka til næstu verkefna.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica