06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Nefndu þrjú læknahlaðvörp sem mælir þú með. - Berglind Bergmann: Hlaðvörpin minna á gleðina í vinnunni

„Hlaðvarpsborðið getur virst ansi yfirþyrmandi. Margir læknar gefa læknahlaðvörpunum ekki séns, fá bráðakulnun við tilhugsunina um að velja eitt og vilja skilja vinnuna eftir í vinnunni. Ég hef hins vegar fundið að læknisfræðihlaðvörpin veita mér innblástur, minna mig á hvar gleðina er að finna í vinnunni og stuðla að fremur auðveldri símenntun sem gerir mig klárlega að betri lækni,“ segir Berglind Bergmann, sérnámslæknir og fyrrum formaður Félags almennra lækna. „Ég ætla að gefa ykkur smakk af mínum uppáhalds réttum.“

1. Stofugangur með Adam Rodman

„Þetta stórkostlega hlaðvarp, Bedside Rounds, stofnaði lyflæknirinn og söguáhugamaðurinn Adam Rodman í samstarfi við American College of Physicians. Þar tekur hann listilega vel á ýmsum læknisfræðilegum málefnum út frá sögulegu samhengi,“ segir Berglind. „Ég mæli sérstaklega með nýrri seríu þátta nr. 68-72 sem fjalla um starf læknisins – erum við Sherlock eða ritarar? Þættirnir um kulnun og Typhoid Maríu voru líka sérstaklega góðir.“

2. Töflutalið og önnur góð ráð

„Ég veit ekki hvað gerðist í COVID-19 faraldrinum en klínísk kennsla á háskólasjúkrahúsi allra landsmanna hefur alveg koðnað niður í kjölfar hans. Það er að minnsta kosti upplifun margra námslækna og nema,“ segir Berglind þegar hún nefnir næsta hlaðvarp á listanum.

„Það er oft erfitt að finna tíma fyrir kennslu í amstri dagsins en við hljótum öll að geta það og finna hve það eykur ánægju okkar allra að læra saman. Curbsiders Teach er hlaðvarpsangi vinsæla lyflækningahlaðvarpsins The Curbsiders, sem Sólveig Bjarnadóttir nefndi sem eitt af sínu uppáhalds í síðasta Læknablaði. Curbsiders Teach kenna okkur allt um kennslu, svo sem töflutal (chalk talk), hvernig best skuli standa að handleiðslu, endurgjöf eða kennslu við rúmstokkinn og hvernig við getum gætt andlegrar heilsu nema okkar og teymis. Það fylgir mjög gott rafrænt efni með þáttunum. Nauðsynleg viðbót fyrir kennsluglaða lækninn!“

3. Klínískar vandamálalausnir

„Ég get ekki nefnt uppáhalds hlaðvörpin mín án þess að minnast á The Clinical Problem Solvers. Þetta var fyrsta læknisfræðihlaðvarpið sem ég gaf séns og er enn í dag í uppáhaldi. Aðalviðfangsefnið er klínsk rökleiðsla (clinical reasoning) þar sem tilfelli er leyst í hverjum þætti,“ nefnir Berglind sem þriðja hlaðvarpið en þó ekki það síðasta.

„Hlaðvarpið samanstendur af mörgum gerðum þátta en uppáhaldið mitt eru RLR þættirnir sem í dag eru flestir á bak við greiðsluvegg, en ef þið hafið gaman af tilfellaráðgátum eru þeir algjör fjársjóður! Önnur frábær hlaðvörp tileinkuð klínískri rökleiðslu eru kanadíska
St. Paul´s Morning Report og nýsjálenska IM reasoning.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica