06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Íslensk formennska í siðfræðinefnd Alþjóðasamtaka lækna (WMA)

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, var kosin formaður siðfræðinefndar WMA á vorfundi alþjóðasamtakanna í Naíróbí í Kenía í apríl

„Þetta er mikill heiður enda spennandi tímar hjá alþjóðasamtökum lækna vegna yfirstandandi endurskoðunar á Helsinki-yfirlýsingunni,“ segir Steinunn, nýr formaður siðfræðinefndar Alþjóðasamtaka lækna. Hún leiðir vinnu nefndarinnar næstu tvö árin.

Steinunn Þórðardóttir er annar Íslendingurinn sem sest í formannsstól siðfræðinefndar WMA. Hér er hún ásamt Júlía Tainijoki-Seyer, læknisfræðilegum ráðgjafa samtakanna. Mynd/Niina Koivuviita

„Þetta er þekktasta yfirlýsingin og varðar þátttöku almennings í vísindarannsóknum. Tækni í heilbrigðisvísindum fleygir fram og því þarf að taka á nýjum álitamálum.“ Nefnir hún sérstaklega notkun á stórum gagnabönkum (Big Data) og persónuvernd.

Steinunn segir langa hefð fyrir því að Norðurlöndin gegni formennsku í nefndinni enda staða siðfræðinnar hér sterk. Hún hafi verið hvött af norrænum félögum sínum til að bjóða sig fram.

„Formennskan eykur klárlega áhrif íslenska félagsins okkar á alþjóðavísu, þá sérstaklega á siðfræði, sem er hjartað í starfi samtakanna,“ segir Steinunn og bendir á að alþjóðasamtökin hafi einmitt verið stofnuð til að móta ramma í kringum siðfræði í lækningum. Ekki verði horft fram hjá því að læknar hafi notað þekkingu sína til voðaverka í síðari heimsstyrjöldinni.

„Sumt af því var klætt í búning vísindarannsókna og starf okkar nú er meðal annars að koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt geti endurtekið sig.“

Steinunn er fulltrúi LÍ í stjórn Alþjóðasamtakanna og hefur verið frá ársbyrjun 2022. Hún verður formaður siðfræðinefndar næstu tvö árin og fetar í fótspor Jóns Snædal sem gegndi formennskunni 2003-2005 og varð síðar forseti Alþjóðasamtakanna 2007-2008. Á þessum tíma Steinunnar verður stefnt að því að ljúka endurskoðun Helsinki-yfirlýsingarinnar en nefndin endurnýjaði og samþykkti alþjóðasiðareglur lækna í fyrra.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica