05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Bernskubrot. Árni Jón Geirsson

Það var vor í lofti, fuglar sungu og hestarnir á lóðinni fyrir ofan voru einnig kátir og prjónuðu til samlætis. Magga systir og ég vorum beðin um að fara út að leika, við skynjuðum að eitthvað stóð til. Við höfðum tekið eftir því að mamma, sem venjulega var grönn og pen, hafði gildnað töluvert, systur mína grunaði að von væri á fjölgun í fjölskyldunni. Við sátum uppi á bílskúrsþakinu við pallinn í miðjum tröppunum og hún strauk yfir nýju burstaklippinguna mína sem ég hafði fengið hjá Halla rakara á Njálsgötunni. Það þótti henni reyndar mjög gott, það hafði greinilega róandi áhrif á hana.

Við biðum þess sem verða vildi og þá sáum við hvar bíl var ekið í hlaðið og út steig okkar kæri heimilislæknir, Gunnar Cortes. Hann var með stóra tösku í hendinni og gekk léttur í spori upp tröppurnar. Systir mín, sem hafði venjulega orð fyrir okkur, spurði lækninn:

– Hvað ertu með í töskunni?

– Ég er að koma með litla barnið til ykkar, svaraði læknirinn.

– Ertu með litla barnið í töskunni?

– Já, ég er að koma með það, sagði læknirinn og brosti út í annað munnvikið.

Læknirinn gekk síðan inn í húsið og þá varð hljótt um stund, en síðan opnuðust dyrnar að nýju, hann kom brosandi út um dyrnar og sagði glaðlega: „Þetta gekk nú aldeilis vel, það er komin lítil systir í heiminn,“ skömmu síðar heyrðist barnsgrátur innan úr húsinu. Þar var komin litla systir okkar, hún Gunna, sem hefur verið hress og kát síðan.

Í þessum ofannefndu tröppum er mér minnisstætt atvik sem gerðist nokkrum árum síðar, eða þegar ég var nýkominn með nýju fullorðins framtennurnar mínar. Þá var það til siðs að sleikja handriðið við tröppurnar og sjá hvort tungan myndi festast í frostinu, ég gerði þetta oft og tíðum og stundum þurfti mamma að koma út og hella vatni á milli tungunnar og handriðsins til að losa hana. Svo gerðist það í eitt skiptið að tungan sat aðeins föst, ég ákvað að reyna að losa hana sjálfur með hjálp systur minnar, en þá vildi ekki betur til en að ég datt síðan á tröppurnar og önnur framtönnin brotnaði. Ég hljóp inn á heimili okkar til að segja tíðindin, þar hitti ég fyrir föður minn sem lyfti aðeins annarri augabrúninni og sagði: „Farðu út og leitaðu að brotinu“. Ég fékk ekki mikla samúð þar. Ákvað samt að fara að leita að brotinu, skildi ekki alveg tilganginn með því samt sem áður. Það var snjór úti og eftir um hálftíma leit fór ég aftur inn og sagði að það væri svo mikill snjór að ég gæti ekki fundið tannbrotið. „Þá leitum við að tannbrotinu í vor þegar snjóa léttir,“ sagði faðir minn. Ég beið því eftir að hlýnaði í veðri og snjóinn tæki upp. Ég leitaði síðan að tannbrotinu, en fann það ekki um vorið. Það er ófundið enn. Þetta hefur ekki komið að sök því stykkið sem brotnaði úr framtönninni minni var ekki stórt.

Það var mannmargt í hverfinu þar sem við bjuggum, það var að byggjast upp. Í Langholtsskóla, sem var skólinn minn, voru 5 bekkir og 30 krakkar í hverjum bekk og því 150 börn á 7. ári eða orðnir 7 ára, sem voru að hefja skólagöngu. Ég var mjög spenntur að byrja í skólanum en hafði ekki hlotið neinn undirbúning að heiman fyrir þessa skólabyrjun. Ég taldi að maður ætti að læra í skólanum en ekki að vera að streðast heima við að læra að lesa áður en skólinn byrjaði. Þetta var mikill misskilningur hjá mér því að á fyrsta degi skólans voru krakkarnir settir í lestrarpróf sem ég skildi nú ekki tilganginn með, en kom síðar í ljós að það var til að raða krökkunum í bekki eftir árangri á lestrarprófinu. Þetta kom mér nokkuð á óvart og þegar ég settist niður nánast ólæs og byrjaði að reyna að lesa fóru hjartataugarnar sem Axel nefndi í Læknablaðinu fyrir nokkru í gang og fékk ég mjög öran hjartslátt.

Frammistaðan á þessu fyrsta prófi lífsins var í samræmi við þetta, ekki góð, og mér var skipað í bekk með ágætis krökkum en taldi mig geta gert betur þar sem ég fékk 1,7 í þessu fyrsta prófi sem ég tók og bekkjaskipanin var í samræmi við þá frammistöðu. Ég fékk síðan að gjalda þessara mistaka minna næstu 5 ár skólagöngunnar, en viðspyrnan er oft best frá botninum, ég einsetti mér að gera betur framvegis.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica