05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgrein Gígju Guðbrandsdóttur: skurðlækningar þvagfæra

Sérfræðilæknar svara: Hvernig varð sérgrein þeirra fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Fyrsta aðgerðin sem ég gerði var orkiektomi

Ég kynntist þvagfæraskurðlækningum áður en ég byrjaði í læknanámi þegar ég starfaði sem læknaritari í Fossvogi eftir menntaskóla. Þar kynnist ég Eiríki Jónssyni fyrrum yfirlækni því ég sat í sama herbergi og Svala Helga Eiríksdóttir, sem þá var ritari þvagfæraskurðlækna en síðar einkaritari hans. Ég man alltaf hvað hann var faglegur og almennilegur við okkur ritarana. Á kandídatsárinu var ég í mánuð á þvagfæraskurðdeildinni og kynntist greininni betur. Við vorum tveir kandídatarnir. Ég hafði áhuga á að fara á skurðstofuna en hinn kandídatinn ekki, sem gerði það að verkum að ég sá hversu fjölbreytt fagið er.

Fyrsta aðgerðin sem ég gerði var orkiektomi með Baldvini Kristjánssyni, þvagfæraskurðlækni. Síðastu mánuðina á kandídatsárinu var ég á almennu skurðdeildinni og fann að skurðlækningar var grein sem ég hafði áhuga á. Einn daginn geng ég inn ganginn á 12 G og heyri í klossum Jónasar Magnússonar þáverandi prófessors sem kemur til mín og segir að hann ætli að auglýsa tvær stöður deildarlækna og að hann óski eftir að ég sendi inn umsókn. Þá og þar var það ákveðið. Næstu tvö árin var ég í skurðlæknaprógramminu á Íslandi áður en stefnan var tekin til Noregs haustið 2009. Ég fékk afleysingastöðu á Háskólasjúkrahúsinu í Bergen, Haukeland. Þar var ég í „rotasjon“. Eftir að ég hafði verið í nokkra mánuði á þvagfæraskurðlæknadeildinni auglýsti yfirmaður minn fasta stöðu og sagði mér að ég gæti fengið hana ef ég vildi. Þá þurfti ég að taka ákvörðun því mitt markmið á þeim tíma var að verða skurðlæknir sem sérhæfði sig í Whipple-aðgerðum.

Þvagfæraskurðlækningar eru fjölbreytt fag, þar greinum við, meðhöndlum og fylgjum eftir sjúkdómum í þvagvegum. Það eru endoskopia, laparkoskopia, opnar aðgerðir og þjarkaaðgerðir, eitthvað fyrir alla. Ég sló til, þáði stöðuna og hef ekki séð eftir því.

Ég minnist þess þegar ég var á nýrnanámskeiði í Malmö fyrir allmörgum árum og heimsótti vinkonu mína, Ýr Frisbæk kvensjúkdómalækni, sem var í sérnámi og bjó í Lundi. Þar heimsótti Rafn Hilmarsson núverandi yfirlæknir okkur því hann vildi vita hvaða íslenska kona þetta væri sem legði stund á þvagfæraskurðlækningar. Sögulega séð hefur þessi grein skurðlækninga verið mjög karllæg, sem á sér félagslegar skýringar en engin haldbær efnisleg rök. Þetta hefur breyst, og á eflaust eftir að breytast hraðar eftir því sem við konur gerum okkur gildandi á flestum þeim sviðum mannlegs lífs sem áður þóttu „tilheyra“ karlmönnum.

Ég varð þvagfæraskurðlæknir 2014 og starfa nú sem sérfræðingur á Haukeland. Doktorsprófi lauk ég í nóvember 2021 og bar ritgerðin heitið „Cytokines in Renal Cell Carcinoma“, og fjallaði um hvort cytokin í blóði sjúklinga með nýrnakrabbamein hefðu forspárgildi þegar kemur að endurkomu krabbameinsins og lifun. Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir, var andmælandi minn en hann var einnig leiðbeinandi minn þegar ég birti sjúkratilfelli í Scandinavian Urology árið 2009, sem fjallaði um sjúkling sem var með eistnakrabbamein og meinvörp.

Segja má að val mitt á sérgrein hafi að nokkru leyti verið tilviljunum háð. En þegar öllu er á botninn hvolft var það aðallega tvennt sem heillaði mig: fjölbreytnin innan greinarinnar sjálfrar og tækifærin sem í henni felast og ekki síður allt það góða fólk sem ég hef kynnst á þessari vegferð, lært af og starfað með.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica